Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 0,7% milli október og nóvember sem er talsvert minni hækkun en hefur sést á síðustu mánuðum, eða sú minnsta síðan í júlí á þessu ári. Árshækkun vísitölunnar mælist nú 17% og lækkar um 0,1 prósentustig frá fyrri mánuði.
Fjölbýli hækkaði um 1% milli mánaða í nóvember og sérbýli lækkaði um 0,5%. Þetta er í fyrsta sinn sem sérbýli lækkar síðan í febrúar, en hækkanir á sérbýli hafa alla jafna verið meiri en á fjölbýli það sem af er ári og kemur því ekki endilega á óvart að sjá sérbýli gefa örlítið eftir nú.
Almennt verðlag án húsnæðiskostnaðar hækkaði um 0,16% milli mánaða í nóvember og hækkaði raunverð íbúða, þ.e. verð á íbúðum umfram annað, um 0,5% milli mánaða sem er minnsta hækkun sem hefur sést síðan í febrúar á þessu ári og mögulega til marks um það að íbúðaverð þróist í auknu samræmi við annað verðlag.
Íbúðaverð tók að hækka nokkuð hratt á vordögum, þegar mest lét sáust hækkanir upp á 3,3% milli mánaða, og er nýjasta mælingin því kærkomin tilbreyting frá því sem hefur ríkt á árinu. Of snemmt er þó að segja til um hvort almennt sé farið að hægja á, þar sem hátt hlutfall íbúða selst enn yfir ásettu verði og sölutími mælist stuttur.