Hagsjá: Verð íslenskra sjávarafurða í sögulegu hámarki
Samantekt
Verðlag íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hefur haldið áfram að hækka á þessu ári og var í sumar hærra en það hefur áður mælst. Verðið náði tímabundnu hámarki í kringum áramótin 2011 og 2012. Uppfrá því tók það að lækka og náði tímabundnu lágmarki í janúar 2014 og hafði þá lækkað um 6% á tveimur árum. Frá því í janúar 2014 hefur verðið hækkað um tæplega fjórðung mælt í erlendri mynt. Skipta má útflutningi sjávarafurða í annars vegar botnfisk og hins vegar uppsjávarfisk. Botnfiskurinn hefur lengi vegið umtalsvert meira en uppsjávarfiskur en verð á botnfiski hefur hækkað töluvert á síðustu misserum og er það helsta skýringin á hækkandi verðlagi íslenskra sjávarafurða í heild sinni.
Verð á botnfiski fylgist að við heimsmarkaðsverð kjöts
Hækkunin á íslenskum botnfiskafurðum síðustu misseri hefur komið til á sama tíma og heimsmarkaðsverð á kjöti hefur hækkað. Töluverð tengsl hafa verið á milli verðs á kjöti og botnfiskafurða frá Íslandi. Þannig hefur verðþróun á botnfiski að nokkru leyti fylgt eftir verðþróun á kjöti með nokkurra mánaða tímatöf en áhrifin eru þó ekki mjög mikil og ekki hægt að segja að verð á botnfiski stýrist af heimsmarkaðsverði kjöts. Mun meiri sveiflur hafa einkennt verðþróun á kjöti en á botnfiski frá Íslandi. Þrátt fyrir að verð á botnfiski hafi almennt fylgt kjötverði hafa þó komið tímabil þar sem verð á botnfiski hefur haldið velli á sama tíma og verð á kjöti hefur gefið mikið eftir. Sem dæmi lækkaði verð á kjöti á einu og hálfu ári frá ágúst 2014 um tæplega þriðjung. Á sama tímabili hækkaði verð á botnfiski um 8,2%.