Samantekt
Nefndin lækkaði stýrivexti um 0,5 prósentustig í maí síðastliðnum en við teljum að það hafi verið fyrsta skrefið í vaxtalækkunarferli sem muni standa yfir næstu misseri. Við gerum ráð fyrir að nefndin eigi eftir að lækka vexti alls um 1 prósentustig til viðbótar og muni þær lækkanir verða teknar í skrefum á næstu misserum. Við teljum að það sem helst muni hafa áhrif á ákvörðunina nú sé annars vegar veiking krónunnar, sem dregur heldur úr líkum á vaxtalækkun, og hins vegar lækkun verðbólguvæntinga fyrirtækja, sem styður við að næsta skref í lækkun vaxta verði tekið. Þessir tveir þættir munu vegast á en við teljum að lækkun verðbólguvæntinga í átt að markmiði muni vega þyngra. Líklegt má telja að nefndinni sé mjög umhugað um að hvorki dýpka né lengja fyrirséðan samdrátt í hagkerfinu með því að draga ekki nægilega mikið úr aðhaldi peningastefnunnar, að því gefnu að langtímaverðbólguvæntingar haldist nálægt markmiði. Það mun einnig lita ákvörðunina nú.