Hagsjá: Samneysla og opinberar fjárfestingar jukust mikið í fyrra
Samantekt
Samkvæmt tölum Hagstofunnar jókst samneysla um 2,6% að raungildi milli áranna 2016 og 2017. Samneyslan hafði áður aukist um 2,3% árið 2016 og 1,0% árið 2015. Eftir að samneysla hafði dregist saman í fjögur ár samfellt á árunum 2009–2012 jókst hún frekar hægt á árunum 2013–2015, en nú mælist vöxtur nær sögulegu meðaltali. Samneysla hefur aukist um 3% að meðaltali á ári frá árinu 1980 en um 2,3% á ári frá 1990.
Hlutur samneyslu af landsframleiðslu var 23,3% í fyrra samanborið við 22,8% árið 2016. Á síðustu tuttugu árum hefur hlutfall samneyslu af landsframleiðslu verið 23,5% að meðaltali þannig að samneysla í fyrra var nálægt sögulegu meðaltali sé miðað við landsframleiðslu.
Fjárfesting hins opinbera jókst um 23,4% á árinu 2017 borið saman við 0,1% samdrátt árið 2016. Opinber fjárfesting var 3,2% af landsframleiðslu á árinu 2017 sem er töluvert fyrir neðan meðaltal síðustu 20 ára sem var 3,9%. Frá árinu 2010 hefur fjárfesting hins opinbera aukist um 19,4% á föstu verðlagi en hún lækkaði verulega í kjölfar hrunsins.
Breytingar á fjárfestingu ríkissjóðs hafa verið jákvæðar allt frá árinu 2013. Breytingar á fjárfestingu sveitarfélaga hafa verið jákvæðar frá árinu 2012 að frátöldu árinu 2015. Sé litið á þróun tveggja síðustu ára sést að aukningin hjá sveitarfélögunum er mun meiri en hjá ríkissjóði og á það einkum við um árið 2017 þegar fjárfesting sveitarfélaganna jókst um 27,5%. Fjárfesting sveitarfélaganna hefur aukist um 47% frá árinu 2010 á meðan fjárfestingar ríkissjóðs hafa aukist svipað, eða um 47%. Það er engin nýlunda að fjárfestingar sveitarfélaga séu miklar á síðasta ári kjörtímabils, en það gildir einmitt um árið 2017.
Sé litið á undirflokka fjárfestingar má sjá að á milli áranna 2016 og 2017 var aukningin sérstaklega mikil í vegum og brúm, eða um 72% að raungildi milli ára. Frá árinu 2010 hefur aukning í framkvæmdum við götur og holræsi verið mest, eða um 60% og næstmest í byggingum, eða um 30%.
Á síðustu áratugum hafa sveitarfélögin tekið á sig sífellt fleiri málaflokka á vettvangi hins opinbera og má þar nefna grunnskólakerfið sem dæmi. Þetta má glöggt sjá þegar litið er á innbyrðis skiptingu samneyslu sem fer í gegnum ríkissjóð annars vegar og sveitarfélögin hins vegar. Frá árinu 1998 fram til ársins 2007 minnkaði sá hluti samneyslunnar sem fór beint í gegnum ríkissjóð úr 55% niður í 49% og hlutur sveitarfélaganna jókst samsvarandi úr 34% í 40%. Að jafnaði er um 11% samneysluútgjalda flokkuð undir almannatryggingar og skiptast því ekki niður á ríkissjóð og sveitarfélög.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Samneysla og opinberar fjárfestingar jukust mikið í fyrra (PDF)