Hagsjá: Minnstu launabreytingar í níu ár - en kaupmáttur enn á uppleið
Samantekt
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 0,3% milli nóvember og desember. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,5%, sem er eilítið meiri ársbreyting en verið hefur síðustu mánuði. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en var u.þ.b. 6% á sama tíma í fyrra.
Taka ber fram að launavísitalan hefur verið lægri en ella síðustu mánuði þar sem mjög litlar launahækkanir hafa orðið á opinbera markaðnum, en þar hefur gengið illa að ná kjarasamningum.
Launavísitalan hækkaði um 4,9% milli áranna 2018 og 2019 sem er minna en síðustu ár. Á milli áranna 2017 og 2018 hækkaði launavísitalan um 6,5%, um 6,8% milli 2016 og 2017 og 11,4% árið þar á undan. Þróunin hefur því verið nokkuð jöfn niður á við.
Breytingin milli ára nú er sú minnsta frá árunum 2009 og 2010, en þá hækkuðu launin um 3,9% og 4,8% milli ára. Meðalbreyting launavísitölunnar milli ára frá árinu 1990 var hins vegar 6,5%.
Þrátt fyrir mun minni launabreytingar en á síðustu árum jókst kaupmáttur um 1,8% á milli áranna 2018 og 2019. Á árinu 2018 jókst kaupmáttur um 3,7% frá fyrra ári og um 5% og 9,5% á árunum þar á undan. Kaupmáttaraukningin hefur því orðið sífellt minni á síðustu árum, allt frá árinu 2016. Árið í fyrra var hins vegar níunda árið í röð sem kaupmáttur launa jókst frá fyrra ári. Kaupmáttur dróst saman árin 2008-2010 en hafði aukist á hverju ári í 13 ár þar á undan. Meðalaukning kaupmáttar á ári var 1,9% á árunum 1990-2019.
Eins og áður segir er launavísitalan í dálítið skrýtinni stöðu nú um stundir þar sem eins konar launafrysting er í gangi á opinbera markaðnum. Illa hefur gengið að koma saman kjarasamningum þar og því hreyfast laun mjög lítið á þeim markaði.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá október 2018 til sama tíma 2019 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 4,9% á þessum tíma á meðan þau hækkuðu um 2,3% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 4,2% á sama tíma.
Til lengri tíma breytast laun með svipuðum hætti á opinbera og almenna markaðnum. Frávik myndast einkum þegar kjarasamningar eru gerðir á mismunandi tímum og/eða þegar tiltölulega stórar áfangahækkanir koma á mismunandi tímum.
Svona misvægi hefur orðið til á árinu 2019 þegar samið var á vori á almenna markaðnum og opinberi markaðurinn hefur verið án samninga allt frá þeim tíma og fyrr. Mismunurinn á launaþróuninni er nú orðinn meiri en verið hefur á síðustu árum, en hann mun væntanlega jafnast með tímanum eftir að samningar hafa verið gerðir á opinbera markaðnum.
Síðastliðin vetur var reiknað með töluverðri kólnun í efnahagslífinu og mikil óvissa var uppi um stöðuna á vinnumarkaðnum og afleiðingar kjarasamninga. Nú, ári síðar, má segja að nokkuð vel hafi spilast úr stöðunni. Kaupmáttur jókst á milli ára þar sem verðbólga hefur verið lægri en launahækkanir á tímabilinu. Hin hliðin á því máli er auðvitað sú að atvinnuleysi hefur aukist nokkuð á sama tímabili. En hvað kjarasamninga varðar og afleiðingar þeirra er staðan nokkuð góð á almenna markaðnum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Minnstu launabreytingar í níu ár - en kaupmáttur enn á uppleið (PDF)