Hagsjá: Meiri hagvexti spáð í viðskiptalöndum Íslands
Samantekt
Hagvaxtarhorfur í heiminum eru betri nú en í apríl síðastliðnum að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Sjóðurinn gerir almennt ráð fyrir meiri hagvexti á evrusvæðinu, Japan, nýmarkaðsríkjum Asíu og Evrópu en hann vænti í apríl síðastliðnum. Á móti betri horfum á þessum svæðum hafa horfurnar versnað í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þetta kemur fram í nýuppfærðu mati sjóðsins á hagvaxtarhorfum í heiminum. Í efnahagsspá AGS kemur jafnframt fram að fullum efnahagsbata hafi ekki enn verið náð því þrátt fyrir að spáð sé meiri hagvexti í heiminum í heild sé vöxtur í mörgum ríkjum enn veikur og verðbólga enn fyrir neðan markmið í flestum þróaðri ríkjum.
Hýrnar yfir viðskiptalöndum Íslands
Hagvaxtarhorfur í helstu viðskiptalöndum Íslands hafa batnað frá því í apríl. Þannig er gert ráð fyrir 2,4% hagvexti á þessu ári og 2,3% á næsta ári1 í helstu viðskiptalöndum Íslands. Til samanburðar gerði AGS ráð fyrir að hagvöxturinn yrði 2,2% á þessu ári og 2,1% á næsta ári í apríl síðastliðnum. Spá sjóðsins nú er jafnvel enn betri sé horft aftur til þess hverju sjóðurinn spáði í október á síðasta ári en þá gerði hann ráð fyrir 1,9% hagvexti á þessu ári og 2% á næsta ári. Horfur fyrir árin 2019 og 2020 hafa lítið breyst á undanförnu ári enda jafnan gert ráð fyrir því í spám sjóðsins að nokkur ár fram í tímann taki við vöxtur nálægt langtímameðaltali.