Hagsjá: Fasteignaverð tók sjaldgæfan kipp í september
Samantekt
Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,6% milli ágúst og september. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,7% og verð á sérbýli hækkaði um 0,2%. Þetta er mesta hækkun á fjölbýli frá því í febrúar á þessu ári. Verð á fjölbýli hefur hækkað um 3,4% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 4,4%. Árshækkun húsnæðisverðs nemur 3,9% sem er lægsti hækkunartaktur frá því vorið 2011.
Veruleg hækkun fasteignaverðs á síðustu misserum hefur orðið samhliða lágri verðbólgu og reyndar var verðbólga án húsnæðis lengi neikvæð, eða allt þar til í maímánuði síðastliðnum. Raunhækkun húsnæðisverðs mæld á föstu verðlagi án húsnæðis hefur því verið mikil, en verulega hefur þó hægt á árshækkuninni síðustu mánuði. Þannig var raunverð fasteigna nú í september um 2,1% hærra en það var í september 2017. Þar sem verðbólga er enn tiltölulega lág helst raunverð fasteigna stöðugt, þrátt fyrir hóflegar hækkanir. Hækkun raunverðs síðustu 12 mánuði er verulega minni en árin þar á undan. Samsvarandi tölur voru 23,5% fyrir 2017 og 12,6% fyrir 2016.
Fjöldi viðskipta með húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur verið nokkuð stöðugur í sumar og mun meiri en á síðasta ári. Meðalfjöldi viðskipta síðustu 4 mánuði fram til september var um 660 viðskipti til samanburðar við u.þ.b. 530 viðskipti á sama tíma á síðasta ári og um 590 á árinu 2016. Sumarið hefur því verið vel notað til fasteignaviðskipta.
Sífellt er rætt um mikla þörf fyrir íbúðarhúsnæði. Framboð nýrra íbúða hefur aukist mikið upp á síðkastið. Sé litið á skiptingu viðskipta milli nýrra og eldri íbúða samkvæmt gögnum Þjóðskrár má sjá að hlutfall nýrra íbúða af viðskiptum var mun hærra á fyrstu 8 mánuðum ársins en á síðasta ári. Á þessu ári hafa um 17% viðskipta með fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu verið með nýja íbúðir. Segja má að þessi aukna hlutdeild nýrra íbúða haldi fasteignaverðinu uppi þar sem fermetraverð á þeim nýju var 16% hærra en á þeim eldri á þessu tímabili. Aukið hlutfall nýrra íbúða af viðskiptum felur að jafnaði í sér að meðalfermetraverð verður hærra en ella.
Viðskiptum með fasteignir fækkaði á milli áranna 2016 og 2017. Eftir fyrstu 9 mánuðina í ár eru meðalviðskipti á mánuði orðin álíka mikil og á árinu 2016. Munurinn felst fyrst og fremst í meiri viðskiptum með fjölbýli og þar á aukið framboð nýrra íbúða stóran þátt. Í sögulegu samhengi hefur fasteignamarkaðurinn verið mjög rólegur allt síðasta ár. Sé litið til tímabilsins frá aldamótum hefur meðalhækkun fasteignaverðs á ári verið í kringum 9% og meðalhækkun raunverðs um 5%. 3,4% nafnverðs á einu ári og 2,1% hækkun raunverðs eru langt fyrir neðan áðurnefnt langtímameðaltal.
Miklar breytingar eru ekki fyrirsjáanlegar í þessum efnum. Aukið framboð og sala nýrra íbúða mun væntanlega halda íbúðaverði uppi og reikna má með að óvissa í tengslum við kjarasamninga á næstu mánuðum muni halda markaðnum á rólegri endanum.