Hagsjá: Fasteignaverð lykilþáttur í verðbólguþróun næstu mánaða
Samantekt
Verðbólguþróun hér á landi hefur verið einstaklega hagfelld á síðustu árum og var janúarmánuður 44. mánuðurinn í röð þar sem verðbólga mældist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans (2,5%). Á þessu tímabili hefur 12 mánaða verðbólga mælst að meðaltali 1,7%. Komið hafa stutt tímabil þar sem verðbólgan fór undir 1% en um og eftir áramótin 2015/2016 mældist verðbólga um 0,8% þrjá mánuði í röð. Verðbólga fór einnig undir 1% í ágúst 2016. Að undanskildum fyrstu mánuðum tímabilsins hefur verðbólga verið frekar fjarri verðbólgumarkmiðinu á þessu tímabili. Verðbólga nú í janúar reyndist hins vegar töluvert umfram spár greiningaraðila, en þá mældist verðbólgan 2,4%.
Fasteignaverð og innfluttar vörur togast á
Eitt megineinkenni tímabilsins hefur verið átök tveggja krafta sem hafa togað í sitthvora áttina. Annars vegar innfluttar vörur og hins vegar fasteignaverð. Framlag innfluttra vara til 12 mánaða verðbólgu hefur að meðaltali verið neikvætt um 1,2% í hverjum mánuði á tímabilinu en sú þróun skýrist fyrst og fremst af styrkingu krónunnar þó að óvenjulág verðbólga í viðskiptalöndunum á undanförnum árum hafi einnig hjálpað til.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Fasteignaverð lykilþáttur í verðbólguþróun næstu mánaða (PDF)