Verðbólga hélt áfram að hjaðna í október og mældist 5,1%, í takt við okkar spá. Stærsti áhrifaþátturinn var húsnæðisliðurinn en framlag reiknaðrar húsaleigu til ársverðbólgu lækkaði um 0,4 prósentustig milli mánaða. Þótt verðbólgan hafi hjaðnað vekur athygli að flugfargjöld til útlanda hækkuðu meira en við höfðum búist við og það sama má segja um verð á mat og drykk þar sem verð á kjöti og ávöxtum hafði mest áhrif. Við teljum að verðbólga haldi áfram að mjakast í rétta átt fram yfir áramót.
Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig í byrjun október, eftir að hafa haldið vöxtum óbreyttum í rúmlega ár. Allir nefndarmenn samþykktu tillögu seðlabankastjóra um að lækka vexti þótt einn hefði heldur kosið að halda þeim áfram óbreyttum. Við gerum ráð fyrir að lækkunin gefi fyrirheit um að hafið sé vaxtalækkunarferli og að stýrivextir verði lækkaðir smám saman á næstu fundum nefndarinnar.
Auk þess sem verðbólga hefur hjaðnað renna nýjar hagtölur stoðum undir þá trú okkar að vextir haldi smám saman áfram að lækka á næstunni. Kortavelta Íslendinga innanlands dróst saman um 1,8% á milli ára í september eftir að hafa aukist nær allt þetta ár og heildarkortavelta jókst mun minna en síðustu mánuði. Vísitala íbúðaverðs lækkaði í september, í fyrsta sinn frá því í janúar, nú um 0,28%. Hugsanlega eru Grindavíkuráhrifin á íbúðamarkaði tekin að fjara út að einhverju marki, en á móti ættu vaxtalækkanir að kynda undir eftirspurn með tímanum. Þær gætu þó á sama tíma blásið lífi í íbúðafjárfestingu og þar með hægt á verðhækkunum til lengri tíma. Íbúðaverð hefur hækkað um 9,5% á síðustu tólf mánuðum og íbúðaverðshækkanir á ársgrundvelli því langt umfram hækkanir á almennu verðlagi.
Þótt merki séu um að dregið hafi úr eftirspurn eftir vinnuafli í takt við samdrátt í hagkerfinu hefur atvinnuleysi aukist mjög lítið. Samkvæmt Vinnumálastofnun hefur skráð atvinnuleysi síðustu mánuði verið 0,2-0,4 prósentustigum hærra en á sama tíma í fyrra og mældist það 3,3% í september. Það vakti athygli að samkvæmt Hagstofunni tvöfaldaðist atvinnuleysi milli mánaða í september og mældist 5,2% í september, eins og það er mælt í vinnumarkaðskönnun. Hagstofan hefur samband við ákveðið úrtak úr þjóðskrá og niðurstöðurnar byggja á þeirra svörum. Við höfum frekar stuðst við skráð atvinnuleysi Vinnumálastofnunar, sem byggir á meðalfjölda atvinnulausra á skrá yfir mánuðinn og samkvæmt þeim gögnum hafa óverulegar breytingar orðið á atvinnuleysi.
Lesa fréttabréfið í heild:
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).