Frekari merki um hægari takt
Alls nam greiðslukortavelta heimila 103 mö. kr. í ágúst og var 3,4% minni en í maí í fyrra, á föstu verðlagi. Innanlands dróst kortavelta íslenskra heimila saman um 4,3% að raunvirði í ágúst en erlendis jókst hún um 0,7%. Heildarkortavelta Íslendinga (innanlands og erlendis) hefur nú dregist saman fimm mánuði í röð og sex mánuði í röð hefur kortavelta Íslendinga innanlands dregist saman.
Frekari merki um minni vöxt einkaneyslu
Kortavelta á fyrsta fjórðungi þessa árs var kröftugri en við höfðum búist við og heildarkortavelta jókst í janúar, febrúar og mars. Launahækkanir kynntu undir eftirspurn og einkaneysla jókst um tæp 5% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Á öðrum ársfjórðungi fóru að berast skýrar vísbendingar um að hægt hefði á einkaneyslu, kortavelta fór að dragast saman milli ára og þjóðhagsreikningar sýndu að einkaneysla hefði aðeins aukist um 0,5% milli ára. Vextir hafa haldið áfram að hækka og nú síðast í lok ágúst voru stýrivextir hækkaðir um 0,5 prósentustig, upp í 9,25%. Nú eru loks komnar fram skýrar vísbendingar um að vextir hafi dregið þróttinn úr innlendri eftirspurn og ekki ólíklegt að kortavelta haldi áfram að dragast saman næstu mánuði. Fleira kann að spila inn í, á síðustu mánuðum hefur hægt á kaupmáttarþróun og líklegt að almenningur hafi að miklu leyti gengið á sparnaðinn sem safnaðist upp á covid-mánuðunum.
Hlutfall innanlands og erlendis stöðugt
80% af kortaveltu heimilanna í ágúst var á Íslandi og 20% erlendis, sem er svipað og verið hefur á síðustu mánuðum. Hlutfallið erlendis er þó áfram nokkuð hærra en vaninn var fyrir faraldur.
Í ágúst var framlag kortaveltu innanlands til lækkunar (-3,1%) á heildarkortaveltunni og framlagið erlendis til hækkunar (+0,1%), en þannig hefur það gjarnan verið eftir faraldurinn.
Í takt við þessar tölur fóru Íslendingar í færri utanlandsferðir í ágúst en í ágúst í fyrra og árin 2017-2019, 20% færri en á metárinu 2018.
Afgangur af kortaveltujöfnuði
Færri utanlandsferðir og hægari vöxtur kortaveltu erlendis höfðu jákvæð áhrif á kortajöfnuðinn, en afgangur var á jöfnuðinum í ágúst upp á 19,2 milljarða. Afgangurinn nam 15,2 milljörðum í ágúst í fyrra. Í október í fyrra og allt fram til aprílmánaðar var halli á kortajöfnuði en svo aftur afgangur síðan þá. Afgangur af kortaveltujöfnuði þýðir að Íslendingar (heimili og fyrirtæki) eyði minni pening erlendis en erlendir ferðamenn eyða hér á landi sem ætti að óbreyttu að hafa áhrif til hækkunar á greiðslujöfnuði og skapa þrýsting til styrkingar á krónunni.