Ferðamenn færri en fyrir faraldur en eyða meiru
Brottfarir erlendra ferðamanna voru tæplega 121 þúsund í janúar. Þær voru álíka margar og í janúar 2020, 13% færri en í janúar árið 2019, síðasta árið fyrir faraldur, en fjöldinn á síðustu mánuðum hefur verið mjög sambærilegur því sem var árið 2019. Ferðamenn eru enn þó nokkuð færri en þeir voru á metferðamannaárinu 2018. Nú í janúar var fjöldinn til dæmis 82% af því sem hann var í janúar það ár.
Bretar og Bandaríkjamenn fóru tæplega helming ferðanna um Keflavíkurflugvöll, tæplega 30.000 voru Bretar og rúmlega 28.000 Bandaríkjamenn. Næstfjölmennastir þar á eftir voru Kínverjar (5,1% af heild), Þjóðverjar (4,7%) og Pólverjar (4,3%).
Ferðatakmarkanir til og frá Kína voru nýlegar afnumdar og má gera ráð fyrir að kínverskum ferðamönnum fjölgi á næstu mánuðum. Hlutfall kínverja af heildarfjölda ferðamanna svipar til þess sem var í janúar 2018 og 2019.
Met í brottförum Íslendinga
Íslendingar slógu janúarmet í ferðalögum með 41.500 brottförum frá Keflavíkurflugvelli. Áður voru brottfarirnar flestar í janúar 2019, 40.600 og í janúar 2018 voru þær 39.000. Íslendingar virðast því enn vera að bæta upp fyrir sólarlanda- og skíðaferðir sem þeir slepptu þegar faraldurinn stóð sem hæst. Landsmenn virðast þó einnig hafa gert vel við sig innanlands í mánuðinum en samkvæmt gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar sem birtust fyrr í dag jókst neyslan um rúm 10% að raunvirði milli ára, aðallega vegna aukinna þjónustukaupa. Ein skýring á aukinni neyslu og ferðagleði landsmanna gætu verið nýlega umsamdar launahækkanir.
Erlendir ferðamenn eyða meiru en áður
Ljóst er að hver ferðamaður eyðir meiru á Íslandi en áður, á föstu gengi, sem þýðir að þeir eyða meiru í eigin mynt. Kortavelta ferðamanna nam 16,7 milljörðum í janúar samkvæmt gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar, 117% meiru en í sama mánuði árið áður á föstu gengi og 8% meiru en í janúar árið 2020, þótt ferðamenn hafi verið 5% færri nú en þá. Kortaveltan var jafnmikil og hún var í janúar árið 2019 þótt ferðamenn hafi verið 17% færri nú en þá.
Ferðamenn greiddu rúma fjóra milljarða króna með greiðslukortum fyrir gistiþjónustu í janúar, um 2,5 milljarða í verslun og aðra 2,5 milljarða í veitingaþjónustu. Tæpir tveir milljarðar fóru í leigu á bílum og rúmlega hálfur í menningu, tómstundir og afþreyingu.