Bílakaup landsmanna aukast
Samkvæmt nýbirtum tölum á vef Samgöngustofu voru alls 1.695 nýir bílar nýskráðir í júnímánuði sem eru 106% fleiri en á sama tíma í fyrra og 25% fleiri en á sama tíma árið 2019. Af þessum tæplega 1.700 bílum sem voru skráðir í mánuðinum voru ríflega 1.200, eða 72%, bílar sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum en eingöngu bensíni eða dísel sem er býsna hátt hlutfall. Við sjáum því að á sama tíma og bílasala virðist vera að taka verulega við sér er hún að færast hratt í átt að auknu vægi vistvænni bíla.
Í fyrsta sinn síðan 2018 mældist í maí vöxtur milli ára á 12 mánaða hlaupandi meðaltali nýskráningar sem sýnir okkur að samdrátturinn sem varð á síðustu árum sé farinn að snúast við. Bílaleigur eru eflaust margar farnar að auka við flota sinn á ný, ásamt því sem einstaklingar fjárfesta margir nú í nýjum bílum. Lágir vextir og aukinn sparnaður vegna Covid-faraldursins hefur eflaust töluverð áhrif á þessa þróun.
Þegar bílakaup eru jafn mikil og raun ber vitni er mikilvægt að huga að orkuskiptunum. Nýjustu gögn benda til þess að áhugi sé mikill á rafbílakaupum, enda fást hagstæðari lánskjör hjá lánastofnunum til fjármögnunar á slíkum kaupum. En þrátt fyrir að viðbótin við bílaflota landsins sé í síauknum mæli vistvæn, er þunginn í flotanum samt sem áður enn bílar sem ganga fyrir öðru en rafmagni.