Atvinnuleysi minnkar þrátt fyrir merki um minni spennu
Atvinnuleysi mældist 3,5% í mars og minnkaði úr 3,7% í febrúar. Vinnumarkaðurinn tók hratt við sér eftir Covid-faraldurinn. Atvinnuleysið fór hæst upp í 11,6% í janúar 2021 en hefur nú verið á bilinu 3,2% - 3,7% í tíu mánuði í röð, frá því í júní í fyrra. Atvinnuleysi er enn mest á Suðurnesjum, þar sem það er nú 5,2%, en þar fór það hæst í 24,5% í faraldrinum.
Atvinnuleysi er að jafnaði mest um hávetur og minnst um hásumar. Vegna árstíðasveiflna má því búast við að það dragi lítillega úr atvinnuleysi á allra næstu mánuðum en ólíklegt er að það minnki að ráði vegna þess hve stöðugt og lítið það hefur verið undanfarið. Úr þessu má gera ráð fyrir að eftirspurn eftir starfsfólki verði svarað með áframhaldandi aðflutningi fólks til landsins, sem hefur verið í sögulegu hámarki síðustu mánuði.
Merki um örlítið minni spennu
Eftirspurn eftir vinnuafli jókst hratt eftir því sem hagkerfið komst á skrið eftir faraldurinn og í desember hafði hlutfall stjórnenda fyrirtækja sem töldu sig skorta starfsfólk ekki verið hærra frá því árið 2007, samkvæmt könnun sem Gallup gerir ársfjórðungslega fyrir Seðlabankann. Nú í mars sögðu 55,6% stjórnenda að þau teldu framboð á starfsfólki vera nægt, en 44,4% sögðust telja skorta starfsfólk. Í síðustu tveimur könnunum, í desember og september, var hlutfall þeirra sem töldu vanta starfsfólk hærra en þeirra sem töldu framboðið nægt. Þessi viðsnúningur kann að vera merki um að tekið sé að draga úr spennu á vinnumarkaði, þótt varast skuli að lesa mikið í eina mælingu.
Þá ber einnig að nefna að eftirspurnin er mjög misjöfn eftir atvinnugreinum og hefur þróast í ólíkar áttir á síðustu mánuðum. Í fyrrnefndri Gallupkönnun eru stjórnendur fyrirtækja spurð hvort þau hyggi á starfsmannabreytingar á næstu sex mánuðum og hvort þau sjái fyrir sér að fjölga eða fækka starfsfólki. Niðurstöðurnar eru greindar eftir atvinnugreinum.
Áform um að fjölga starfsfólki eru langalgengust í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu, flutningum og samgöngum og næstalgengust í byggingar- og veitustarfsemi. Aðeins í tveimur atvinnugreinum er algengara að fyrirtæki sjái fyrir sér að fækka starfsfólki á næsta hálfa árinu heldur en að fjölga því, í sjávarútvegi og fjármála- og tryggingarstarfsemi. Fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu eru líklegri en fyrirtæki á landsbyggðinni til að vera í stækkunarhugleiðingum.
Eftirspurn eftir starfsfólki hefur þróast í ólíkar áttir eftir atvinnugreinum
Í verslun hafa væntingar um fjölgun farið dvínandi frá því í september og einnig í sjávarútvegi. Í iðnaði og framleiðslu, og eins í fjármála- og tryggingarstarfsemi, jukust væntingar um fjölgun starfsfólks í desember en minnkuðu svo í mars. Þar kunna að spila inn í launahækkanir samkvæmt nýjum kjarasamningum sem gerðir voru í kringum áramótin og einnig versnandi horfur um verðbólgu- og vaxtaþróun. Í einni grein varð svo áberandi stökk í könnuninni í mars: 60% stjórnenda fyrirtækja í ferðaþjónustu, samgöngum og flutningum sögðust sjá fyrir sér að fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum, en hlutfallið var 31% í desember. Þótt tölurnar séu árstíðaleiðréttar hlýtur að spila inn í að sumarið er á næsta leiti með tilheyrandi fjölgun ferðamanna, en einnig kunna að hafa áhrif bjartari horfur um komur ferðamanna hingað til lands á árinu.
Kjarasamningarnir sem samþykktir voru undir lok síðasta árs og í byrjun þessa árs gilda aðeins til eins árs og því má gera ráð fyrir að óvissan á vinnumarkaði verði strax í haust orðin álíka mikil og hún var í aðdraganda síðustu samningalotu. Spennan á vinnumarkaði hefur aukið á launaþrýsting og bætt samningsstöðu launafólks frá því að faraldrinum lauk. Nýjustu gögn benda þó til þess að sú staða gæti breyst. Það verður því áhugavert að fylgjast með þróuninni fram að næstu samningalotu, enda má ætla að spennustigið á vinnumarkaði setji svip sinn á viðræðurnar, í bland við verðbólgu- og vaxtastig.