Atvinnuleysi minnkar enn og aðflutt vinnuafl sífellt mikilvægara
Skráð atvinnuleysi var 3,1% í ágúst, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Það minnkaði úr 3,2% í júlí og að meðaltali fækkaði atvinnulausum um 270. Alls voru 6.118 á atvinnuleysisskrá í lok ágúst. Atvinnuleysið hefur ekki verið jafn lítið síðan í febrúar árið 2019 og Vinnumálastofnun spáir því að það haldist nokkuð stöðugt í september og verði á bilinu 2,9-3,2%.
Langtímaatvinnulausum, þeim sem hafa leitað að vinnu lengur en í eitt ár, fjölgaði engu að síður örlítið milli mánaða. Nú eru 2.395 í þeim hópi, þó rúmlega helmingi færri en í ágúst í fyrra.
Atvinnuleysi áfram mest á Suðurnesjum
Atvinnuleysi hefur minnkað eða staðið í stað í öllum landshlutum, að undanskildum Vestfjörðum, þar sem það jókst um 0,1 prósentustig milli mánaða. Það er áfram mest á Suðurnesjum, eða 5,3%, en þar fór það hæst upp í 24,5% þegar þrengdi sem mest að ferðaþjónustunni í faraldrinum. Næstmest er atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu, 3,4%. Atvinnuleysi er minnst á Norðurlandi vestra, aðeins 0,7%, og næstminnst á Austurlandi, 1,3%.
Ferðafólki fjölgar og atvinnuleysi í ferðagreinum minnkar mest
Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum í ágúst, mest í ferðatengdum greinum, um 18% milli mánaða, enda hefur erlendum ferðamönnum haldið áfram að fjölga eftir því sem liðið hefur á sumarið. Í ágúst ferðuðust 241 þúsund erlendir ferðamenn frá Keflavíkurflugvelli, 9 þúsundum fleiri en í júlí. Í ágúst 2018, þegar fjöldi ferðamanna var í sögulegu hámarki, flugu héðan 287 þúsund erlendir ferðamenn. Uppgang ferðaþjónustunnar má líka lesa úr tölum Hagstofunnar um gistinætur á hótelum. Tölur yfir ágústmánuð eru ekki komnar, en gistinætur hafa aldrei verið fleiri en í júlí, rúm ein og hálf milljón.
Einnig dró úr atvinnuleysi í ýmiss konar opinberri þjónustu, um 17%, og í upplýsingatækni og útgáfu minnkaði það um 16%.
Aðflutt starfsfólk mætir þörf á vinnuafli
Frá árinu 2007 hafa aldrei fleiri fyrirtæki talið vanta starfsfólk og ljóst er að aðflutt starfsfólk er nauðsynlegt til að mæta aukinni eftirspurn eftir vinnuafli á Íslandi.
Því er ekki furða að erlendum ríkisborgurum fjölgi ört, en fjöldinn stóð nokkurn veginn í stað yfir Covid-mánuðina. Greint var frá því í ágúst að aldrei hefðu fleiri flutt til landsins á einum ársfjórðungi en á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Í lok júní bjuggu hér á landi 59.460 erlendir ríkisborgarar, samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands, sjö þúsund fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Starfandi innflytjendur hér á landi eru 48 þúsund talsins.
Langstærstur hluti innflytjenda á Íslandi starfar í greinum tengdum ferðaþjónustu en nokkur fjöldi einnig í byggingariðnaði, þar sem umsvif hafa snaraukist á síðustu mánuðum og þeim fjölgað sem starfa í greininni.