Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,31% milli mánaða í apríl, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólgan hækkar því og fer úr 9,8% í 9,9%. Smávægileg breyting varð á samsetningu verðbólgunnar en framlag bensíns dróst saman á meðan framlag húsnæðis til ársverðbólgu jókst á milli mánaða. Hækkunin milli mánaða var töluvert meiri en við bjuggumst við; við spáðum 1% hækkun milli mánaða og 9,5% ársverðbólgu. Spáskekkjan fólst aðallega í því að reiknaða húsaleigan hækkaði meira en við höfðum gert ráð fyrir og verð á nýjum bílum lækkaði minna.
Reiknaða húsaleigan hækkar töluvert
Íbúðamarkaður minnir á sig og reiknaða leigan, sem endurspeglar kostnaðinn við það að búa í eigin húsnæði, hækkar um 2,5% á milli mánaða. Við höfðum spáð 2,1% hækkun og munar þar mestu um að íbúðaverð á landsbyggðinni hækkaði meira en við höfðum gert ráð fyrir eða um tæplega 3% milli mánaða, en vísitalan byggir á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali mánaðarlegra gagna. Íbúðaverð á landinu öllu hækkaði því um 1,8% og áhrif vaxta voru 0,7 prósentustig til hækkunar, aðeins minna en við höfðum spáð. Íbúðaverð á landsvísu hækkar annan mánuðinn í röð, eftir að hafa lækkað þrjá mánuði í röð þar á undan.
Nánar um helstu undirliði:
- Verð á mat- og drykkjarvörum hækkaði um 1,5% (0,23% áhrif til hækkunar) á milli mánaða. Tæplega helming þeirrar hækkunar má rekja til hækkunar á mjólkurvörum sem kemur í kjölfar ákvörðunar verðlagsnefndar búvara. Við höfðum spáð 2% hækkun.
- Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 1,9% (0,12% áhrif til hækkunar) sem skýrist líklega af því að tilboð frá því í mánuðinum á undan gengu til baka. Við höfðum spáð því að liðurinn myndi hækka um 1,5%.
- Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 19,5% (0,35% áhrif til hækkunar). Flugfargjöld hækka alla jafna í kringum páska og við höfðum gert ráð fyrir 16% hækkun sem er ekki fjarri mælingunni.
- Reiknuð húsaleiga samanstendur af markaðsverði húsnæðis á landinu öllu ásamt framlagi vaxtabreytinga. Sem fyrr segir hækkaði liðurinn í heild um 2,5% (0,46% áhrif til hækkunar) milli mánaða en við höfðum spáð hækkun um 2,1%. Hækkun íbúðaverðs á landinu öllu var 1,8% en við höfðum gert ráð fyrir 1.2% hækkun. Framlag vaxtabreytinga var nokkurn veginn í takt við okkar væntingar, örlítið minna.
Hlutfall undirliða sem hafa hækkað meira en 10% stendur í stað
Hlutfall undirliða sem hafa hækkað um meira en 10% stendur í stað á milli mánaða, en í síðasta mánuði lækkaði þetta hlutfall. Á móti hefur hlutfall liða sem hækkaði á milli 5 og 10% hækkað milli mars og apríl.
Samsetning á verðbólgunni breytist lítillega milli mánaða
Af 9,9% verðbólgu er hlutur húsnæðis 3,3 prósentustig í apríl, og eykst frá síðasta mánuði. Hlutur innfluttra vara án bensíns hækkaði líka úr 2,2 prósentustigum í 2,3. Hlutur bensíns lækkar í 0,2 prósentustig, úr 0,3 prósentustigum, og hlutur innlendra vara lækkar í 1,6 prósentustig, úr 1,8 prósentustigum. Þá lækkar hlutur þjónustu í 2,4 prósentustig, úr 2,3 prósentustigum. Borið saman við apríl í fyrra, þegar verðbólgan var 7,2%, má sjá að mestar hækkanir hafa verið í innfluttum vörum án bensíns og í þjónustu. Hlutur húsnæðis í ársverðbólgunni í fyrra, sem var 7,2%, var um 3 prósentustig og hefur lítið breyst síðan þá.
Spá okkar til næstu mánaða breytist lítillega
Við breytum spá okkar um ársverðbólgu til næstu þriggja mánaða örlítið vegna þessara talna. Munurinn á mælingu Hagstofunnar og spá okkar fyrir apríl var meðal annars sú að verð á nýjum bílum lækkaði minna en við gerðum ráð fyrir. Við gerum ennþá ráð fyrir því að verð á nýjum bílum lækki lítillega en það gerist síðar. Við spáum núna að verðbólgan mælist 9,5% í maí, 8,8% í júní og 7,8% í júlí.