Árið 2022 fimmta stærsta ferða­manna­ár­ið frá upp­hafi

Rétt tæplega 1,7 milljónir erlendra ferðamanna lögðu upp frá Keflavíkurflugvelli árið 2022, sem gerir það fimmta stærsta ferðamannaárið frá upphafi. Ferðamenn voru tæplega 115 þúsund í desember, þó nokkuð færri en í sama mánuði árin 2019 og 2018, en hver ferðamaður eyddi að jafnaði meiru en þá miðað við fast gengi.
Ferðamenn
11. janúar 2023

Brottfarir erlendra ferðamanna frá Keflavíkurflugvelli voru 114.788 í desember, samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Þær voru 8% færri en í desember árið 2019, síðasta árið fyrir faraldur, en það var aðeins í júlí og nóvember árið 2022 sem brottfarir voru fleiri en í sama mánuði árið 2019. Brottfarir í desember voru 16% færri en í sama mánuði á metferðamannaárinu 2018.

Heildarfjöldi erlendra ferðamanna fyrir allt árið 2022 nemur rétt tæplega 1,7 milljónum, eins og Hagfræðideild Landsbankans spáði í október. Brottfarir yfir árið 2022 voru 15% færri en árið 2019 og 27% færri en 2018, enda voru ferðatakmarkanir vegna faraldursins enn í gildi á fyrstu mánuðum ársins og ekki fyrr en í sumar sem ferðaþjónustan fór virkilega að ná sér á strik.

Á árinu 2022 voru brottfarir langflestar í ágúst, tæplega 243 þúsund, og fæstar í janúar, tæplega 67 þúsund. Bandaríkjamenn áttu ríflega 25% allra brottfara árið 2022, Bretar 14% og Þjóðverjar 8%. Spá okkar frá því í október gerir ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi á þessu ári og verði í kringum 1,9 milljónir, en fjöldinn veltur þó mjög á þróun efnahagsástandsins í okkar helstu viðskiptalöndum.

Uppsafnaðar gistinætur aldrei fleiri

Hagstofan birtir ekki tölur yfir fjölda gistinótta í desember fyrr en síðar í mánuðinum, en í nóvember voru gistinætur erlendra ferðamanna tæplega 410 þúsund á skráðum gististöðum á Íslandi, 56% fleiri en í nóvember árið áður. Uppsafnaður fjöldi gistinótta erlendra ferðamanna á skráðum gististöðum á Íslandi á síðasta ári var orðinn rúmlega 6,6 milljónir í nóvember, 130% fleiri en í sama mánuði árið áður og 265% fleiri en í sama mánuði árið 2020. Þær voru þó enn örlítið færri en árin 2018 og 2019 (6% færri og 4% færri). Munurinn á fjölda gistinótta nú og árin 2018 og 2019 er mun minni en munurinn á fjölda ferðmanna, sem sýnir að hver ferðamaður dvelur að meðaltali lengur nú en hann gerði þá. Hér ber þó að hafa í huga að ætla má að fyrir hverjar þrjár skráðar gistinætur sé um það bil ein óskráð, til dæmis í gegnum Airbnb, ógreidda gistingu eða gistingu í bílum.   

Séu gistinætur Íslendinga taldar með hafa þær aldrei verið fleiri á bilinu janúar til nóvember en í fyrra. Samtals voru uppsafnaðar gistinætur allra yfir síðasta ár orðnar rétt tæplega 8,4 milljónir í nóvember, en voru 8,1 milljón á metferðamannaárinu 2018. Faraldurinn ýtti mjög undir ferðalög Íslendinga innanlands og þótt samkomu- og ferðatakmarkanir hafi verið afnumdar áður en sumarið gekk í garð og Íslendingar héldu til útlanda, héldu þeir engu að síður áfram að ferðast innanlands.

Kortavelta ferðamanna

Kortavelta ferðamanna nam 16,1 milljarði í desember árið 2022 samkvæmt gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar, 73% meiru en í sama mánuði árið áður á föstu gengi, og 10% meiru en í desember 2019, áður en faraldurinn dró verulega úr komum ferðamanna. Ef horft er á árið 2022 í heild nam kortavelta ferðamanna 262 milljörðum, 1% meiru en árið 2019, á föstu gengi. Það er þó 16% minna en metárið 2018.

Þótt ferðamenn hafi verið 16% færri í desember í ár en í sama mánuði árið 2018 er kortaveltan næstum alveg sú sama og þá, á föstu gengi. Því virðast ferðamenn gera betur við sig en árið 2018, m.a. með lengri ferðalögum.

Í desember 2022 var kortavelta hvers ferðamanns að meðaltali 140 þúsund krónur. Í desember 2018 var hún 118 þúsund krónur, miðað við fast gengi. Fólk eyðir því meiru í eigin mynt nú en áður.

Ferðamenn greiddu með greiðslukortum tæpa 62 milljarða króna fyrir gistiþjónustu á árinu 2022, um 42 milljarða í verslun og 37 milljarða í veitingaþjónustu.

Rúmir 29 milljarðar fóru í bílaleigu og fjöldi bílaleigubíla í umferð var á seinni hluta ársins mjög svipaður fjöldanum árið 2019, fyrir faraldur. Þeir voru enn þó nokkuð færri en árið 2018.

Af þessari umfjöllun er ljóst að ferðaþjónustan hefur rétt nokkuð vel úr kútnum eftir faraldurinn og greinilegt að einhver hópur fólks mun halda áfram að ferðast þrátt fyrir efnahagsþrengingar. Ferðaþjónustan er stærsta einstaka útflutningsgrein okkar Íslendinga. Hátt í 40% af útflutningi á þriðja ársfjórðungi síðasta árs mátti rekja til ferðþjónustunnar og ljóst að þessi grein er og verður áfram ein helsta undirstaða hagvaxtar hér á landi.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Hús í Reykjavík
18. júlí 2024
Spenna á íbúðamarkaði
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% á milli mánaða í júní. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs jókst úr 8,4% í 9,1% en svo mikil hefur árshækkunin ekki verið síðan í febrúar 2023. Leiguverð hækkaði einnig á milli mánaða í júní, alls um 2,5%. Mikil velta var á íbúðamarkaði í júní og ljóst að íbúðamarkaður hefur tekið verulega við sér.
Gönguleið
15. júlí 2024
Vikubyrjun 15. júlí 2024
Erlendir ferðamenn voru 9% færri í júní á þessu ári en í júní í fyrra. Atvinnuleysi var 3,1% í júní og er áfram lítillega meira en á sama tíma í fyrra.
Fataverslun
10. júlí 2024
Spáum að verðbólga aukist lítillega og verði 5,9% í júlí 
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,15% á milli mánaða í júlí og að verðbólga aukist úr 5,8% í 5,9%. Við gerum ráð fyrir að júlímánuður verði nokkuð dæmigerður þar sem sumarútsölur verða til lækkunar á vísitölunni en flugfargjöld til útlanda til hækkunar. Við spáum nokkurn veginn óbreyttri verðbólgu í ágúst og september, en að verðbólga hjaðni í 5,4% í október. 
8. júlí 2024
Vikubyrjun 8. júlí 2024
Hátt vaxtastig hefur hvatt til sparnaðar og hægt á eftirspurn í hagkerfinu. Innlán heimila voru 20% meiri í maí síðastliðnum en í maí í fyrra, samkvæmt nýbirtum Hagvísum Seðlabanka Íslands. Óbundin innlán hafa aukist langmest.
1. júlí 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 1. júlí 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Litríkir bolir á fataslá
1. júlí 2024
Vikubyrjun 1. júlí 2024
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% í júní. Verðbólga mældist því 5,8% og lækkaði úr 6,2%. Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum í mars og apríl dróst saman um 4,6% að raunvirði og launavísitalan hækkaði um 0,2% í maí, samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í síðustu viku.
Flugvél á flugvelli
27. júní 2024
Verðbólga í takt við væntingar – lækkar í 5,8%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,48% á milli mánaða í júní og við það lækkaði ársverðbólga úr 6,2% í 5,8%. Reiknuð húsaleiga, hækkandi flugfargjöld til útlanda og verðhækkun á hótelgistingu höfðu mest áhrif til hækkunar á vísitölunni. Á móti lækkaði verð á fötum og skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði og ökutækjum á milli mánaða í júní.
25. júní 2024
Velta í hagkerfinu minnkar á milli ára
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum dróst saman um 4,6% að raunvirði í mars og apríl og um 2% í janúar og febrúar samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Þróunin er ólík eftir útflutningsgreinum. Ferðaþjónusta eykst lítillega á milli ára, velta í sjávarútvegi og álframleiðslu minnkar en velta í lyfjaframleiðslu eykst til muna.
Bílar
25. júní 2024
Merki um lítilsháttar kólnun á vinnumarkaði
Atvinnuleysi er nú aðeins meira en á sama tíma í fyrra og laun hækka minna. Nýbirt launavísitala sýnir 0,2% hækkun á milli mánaða í maí og hafa laun nú hækkað um 6,7% á síðustu tólf mánuðum. Allar líkur eru á að á þessu ári hækki laun mun minna en á síðasta ári, enda hafa nýir kjarasamningar minni hækkanir í för með sér en þeir síðustu.
Paprika
24. júní 2024
Vikubyrjun 24. júní 2024
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% í maí og vísitala leiguverðs um 3,2% samkvæmt gögnum sem bárust í síðustu viku. Englandsbanki hélt vöxtum óbreyttum á meðan svissneski seðlabankinn lækkaði vexti um 0,25 prósentustig. Eftirtektarverðasta innlenda hagtalan sem birtist í þessari viku er eflaust vísitala neysluverðs sem Hagstofan birtir á fimmtudaginn.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur