Áfram ásókn í verð­tryggð lán og fyrstu kaup­end­um fjölg­ar

Í október voru óverðtryggð íbúðalán hjá bönkunum greidd upp fyrir tæpa 20 ma. kr., að frádreginni nýrri lántöku. Upphæðin er svipuð og hrein ný lántaka verðtryggðra íbúðalána. Með hækkandi vaxtastigi hefur samsetning nýrra lána gjörbreyst, enda hafa afborganir af óverðtryggðum lánum hækkað verulega. Þótt aðgengi að lánsfé hafi síst batnað á síðustu mánuðum hefur fyrstu kaupendum á íbúðamarkaði fjölgað á ný.
Hús í Reykjavík
6. desember 2023

Heildarupphæð útistandandi íbúðalána var 2.552 ma. kr. í lok október. Þessi upphæð skiptist þannig á milli lánveitenda að 70% er hjá bönkum, 24% hjá lífeyrissjóðum og 6% hjá lánasjóðum ríkisins. Síðasta áratuginn hefur hlutdeild viðskiptabankanna á íbúðalánamarkaði stækkað verulega. Í byrjun árs 2014 var hlutdeild viðskiptabankanna 42%, lífeyrissjóða 13% og lánasjóða ríkisins 45%.

Á síðustu árum hefur samsetning lána eftir lánsformum einnig sveiflast mjög með breyttu vaxtastigi. Óverðtryggð íbúðalán sóttu hratt í sig veðrið þegar stýrivextir voru lækkaðir í faraldrinum og lánsupphæð í óverðtryggðum íbúðalánum hjá bönkum þrefaldaðist á augabragði. Fyrst voru lánin flest á breytilegum vöxtum en með tímanum fóru lántakar að festa vextina til að tryggja sig gegn aukinni greiðslubyrði seinna meir.

Lántakar hafa nú í auknum mæli fært sig yfir í verðtryggð lán, enda hafa afborganir af óverðtryggðum lánum hækkað verulega. Langstærstur hluti hreinna nýrra íbúðalána til heimila í október var verðtryggður á breytilegum vöxtum. Upphæðin nam rúmum 20 mö.kr., ef aðeins er litið til útlána bankanna. Nettó upp- og umframgreiðsla á óverðtryggðum lánum bankanna á breytilegum vöxtum nam næstum jafnmiklu, rétt tæpum 20 mö.kr., og hefur aukist með hverjum mánuðinum þetta árið.

Nettó ný lántaka óverðtryggðra lána með fasta vexti nam 2,4 mö.kr. í október. Það skýrist sennilega af því að fastir vextir eru þó nokkuð lægri en breytilegir um þessar mundir.

Stórir hópar njóta enn góðs af því að hafa fest vextina í faraldrinum, því stuttu lágvaxtatímabili fylgdi brattasta vaxtahækkunarferli frá upphafi. Vextir þeirra sem festu þá í faraldrinum hafa sumir losnað nú þegar og fjöldi fólks sér fram á að fastvaxtatímabilinu ljúki á næstunni.

Þó nokkur bunki óverðtryggðra íbúðalána kemur til vaxtaendurskoðunar á seinni helmingi næsta árs og fyrri helmingi ársins 2025, lán fyrir samtals um 360 ma.kr. Frá því lánin voru tekin og vextir festir á 4,5-5% vöxtum, að meðaltali, hefur vaxtaumhverfið breyst verulega.

Meðalvextir óverðtryggðra lána úr 3,5% í 10,6% á tveimur og hálfu ári

Seðlabankinn reiknar vegna meðalvexti óverðtryggðra íbúðalána bankanna. Nýjustu gögn frá júlímánuði sýna að breytilegir vextir óverðtryggðra lána hafa þrefaldast frá árinu 2021, farið úr 3,5% í 10,6% í júlí á þessu ári. Fastir vextir fóru lægst í 4,2% undir lok árs 2020 og voru komnir upp í 8,7% í júlí.

Verðtryggðir vextir hafa ekki sveiflast jafnmikið. Þeir föstu náðu lágmarki í 1,6% um mitt síðasta ár og voru svo komnir upp í 3,2% í sumar. Í staðinn hafa verðbætur bæst við höfuðstól verðtryggðra lána, í takt við verðbólgu síðustu mánaða.

Fyrstu kaupendum fjölgar á ný

Þegar aðgengi að lánsfé var hert í kjölfar faraldursins, bæði með hækkandi vöxtum og lánþegaskilyrðum, fækkaði nýjum kaupendum á íbúðamarkaði og hlutfall þeirra af heildinni fór minnkandi. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs fjölgaði þeim skyndilega aftur. Milli annars og þriðja fjórðungs þessa árs fjölgaði fyrstu kaupendum um rúm 40% og hlutfall þeirra af heild varð aftur svipað og í faraldrinum, fór úr 26% í 33%. Þessi fjölgun kann að skýrast að einhverju leyti af aukinni lánveitingu hlutdeildarlána, sem eru einmitt ætluð til að hjálpa fólki inn á íbúðamarkað. Í sumar voru skilyrði fyrir slíkum lánum útvíkkuð svo stærri hópur ætti kost á að sækja um þau. Einnig kann hávær umræða um yfirvofandi íbúðaskort að ýta undir eftirspurn og óbreytt vaxtastig eftir tvo síðustu fundi peningastefnunefndar að ýta undir bjartsýni á markaðnum.

Þessir þættir kunna einnig að eiga þátt í því að halda lífi í eftirspurnarhliðinni almennt og koma í veg fyrir nafnverðslækkanir. Á síðustu mánuðum hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað, eftir að hafa lækkað í sumar, og húsnæðisverð er nú aftur einn megindrifkraftur verðbólgunnar.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Flugvöllur, Leifsstöð
19. des. 2024
Verðbólga stendur í stað á milli mánaða
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,39% á milli mánaða í desember, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga stendur því í stað í 4,8%. Við eigum enn von á að verðbólga hjaðni næstu mánuði og verði komin niður í 3,9% í mars.
Símagreiðsla
17. des. 2024
Kröftug kortavelta í aðdraganda jóla 
Kortavelta landsmanna færist enn í aukana þrátt fyrir hátt vaxtastig. Innlán heimila hafa vaxið og yfirdráttur ekki aukist. Erlendir ferðamenn hér á landi eyða líka þó nokkuð fleiri krónum en á sama tíma í fyrra. 
Greiðsla
16. des. 2024
Munu lægri vextir leiða til meiri neyslu?
Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferlið í október með 25 punkta lækkun og fylgdi því eftir með 50 punkta lækkun í nóvember. Þetta gerði bankinn rétt fyrir mestu neyslutíð ársins, með öllum sínum tilboðsdögum og jólainnkaupum.
Flutningaskip við Vestmannaeyjar
16. des. 2024
Vikubyrjun 16. desember 2024
Í vikunni fáum við vísitölur íbúðaverðs og leiguverðs frá HMS og vísitölu neysluverðs frá Hagstofunni en við gerum ráð fyrir lítilsháttar hjöðnun verðbólgu úr 4,8% í 4,7%. Um 9,3% fleiri erlendir ferðamenn komu til landsins í nóvember en á sama tíma í fyrra og skráð atvinnuleysi var 0,3 prósentustigum meira en það var í nóvember í fyrra. Seðlabanki Evrópu og Seðlabanki Sviss lækkuðu vexti í síðustu viku og það er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna og Englandsbanka í þessari viku.
Ferðamenn á jökli
12. des. 2024
Aldrei fleiri ferðamenn í nóvembermánuði
Um 162.000 ferðamenn komu til landsins í nóvember, samkvæmt talningu ferðamálastofu. Ferðamenn voru 9,3% fleiri en á sama tíma í fyrra og hafa aldrei verið fleiri í nóvembermánuði. Gagnavandamál voru áberandi í ár og tölur um fjölda ferðamanna, erlenda kortaveltu og gistinætur útlendinga hafa allar verið endurskoðaðar á árinu.
Flugvél
9. des. 2024
Spáum 4,7% verðbólgu í desember
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,35% á milli mánaða í desember og að verðbólga hjaðni úr 4,8% í 4,7%. Flugfargjöld til útlanda og húsnæðisliðurinn hafa mest áhrif til hækkunar í mánuðinum. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,9% í mars á næsta ári.
9. des. 2024
Vikubyrjun 9. desember 2024
Í vikunni fáum við tölur um fjölda ferðamanna sem komu hingað til lands í nóvember og skráð atvinnuleysi í október. Í síðustu viku birti Seðlabankinn tölur um viðskiptajöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi þar sem í ljós kom að minni afgangur var en á sama tíma í fyrra. Seðlabankinn birti einnig fundargerð peningastefnunefndar sem sýnir að allir nefndarmenn voru sammála um að lækka vexti um 0,5 prósentustig í síðasta mánuði.
Flutningaskip
5. des. 2024
Afgangur á 3. ársfjórðungi, en að öllum líkindum halli á árinu
Afgangur mældist á viðskiptum við útlönd á þriðja ársfjórðungi. Það var halli á vöruskiptum, frumþáttatekjum og rekstrarframlögum, sem afgangur á þjónustuviðskiptum náði þó að vega upp, enda háannatími ferðaþjónustu. Það sem af er ári mælist samt það mikill halli að nær öruggt er að það mælist halli á árinu í heild.
3. des. 2024
Fréttabréf Greiningardeildar 3. desember 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Sendibifreið og gámar
2. des. 2024
Vikubyrjun 2. desember 2024
Í síðustu viku bárust upplýsingar um að verðbólga hefði lækkaði úr 5,1% niður í 4,5% í nóvember og að landsframleiðslan hefði dregist saman um 0,5% að raunvirði á milli ára á þriðja ársfjórðungi. Í vikunni birtir Seðlabankinn tölur um viðskiptajöfnuð við útlönd, fundargerð peningastefnunefndar og yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur