2,2 milljónir erlendra ferðamanna í fyrra – í takt við væntingar
Alls fóru rétt rúmlega 2,2 milljónir erlendra ferðamanna um Leifsstöð á árinu 2023, eins og við gerðum ráð fyrir í hagspá okkar frá því í október. Árið 2023 er næststærsta ferðamannaár frá upphafi, en árið 2018 komu hingað 2,3 milljónir ferðamanna. Árið sem var að líða rétt svo toppaði árið 2017, sem var áður næststærsta árið.
Ferðaþjónustan tók við sér eftir því sem leið á árið
Í upphafi árs í fyrra voru ferðamenn nokkuð færri í hverjum mánuði en á metárinu 2018, en frá og með júnímánuði voru þeir álíka margir og þá. Í október og nóvember komu fleiri ferðamenn en sömu mánuði árið 2018 og í desember voru ferðamenn álíka margir og í sama mánuði 2018, þrátt fyrir óvissu vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga.
Bandaríkjamenn fjölmennastir sem fyrr
Bandaríkjamenn voru eins og áður fjölmennastir ferðamanna í fyrra, en 23% brottfara í fyrra voru Bandaríkjamenn. Þar á eftir komu Bretar (13%), Pólverjar (6%) og Þjóðverjar (6%). Bandaríkjamenn koma aðallega á sumrin og eiga það til að dvelja lengur en aðrir ferðamenn. Bretar koma frekar utan háannatíma og dvöl þeirra er jafnan styttri. Ætla má að hluti þeirra Pólverja sem Ferðamálastofa skráir sem ferðamenn séu búsettir hér á landi. Af tíu fjölmennustu þjóðunum fjölgaði brottförum Kínverja hlutfallslega langmest, um 106% á milli ára, og brottförum Pólverja fjölgaði um 61%.
Innlend velta erlendra greiðslukorta hélt ekki í við fjölgun ferðamanna
Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi virðist ekki hafa haldið í við fjölgun ferðamanna, samkvæmt gögnum sem Rannsóknasetur verslunarinnar birti í gær. Að undanskildum pólskum ríkisborgurum fjölgaði erlendum ferðamönnum um tæp 30% milli áranna 2022 og 2023, samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Kortavelta erlendra greiðslukorta, án greiðslukorta gefinna út í Póllandi, jókst minna milli ára, eða um 27% á gengi hvers árs, 24% á föstu gengi og 17% á föstu verðlagi. Þetta þarf ekki að koma á óvart, enda sýnir reynslan að þegar erlendum ferðamönnum fjölgar virðist hver og einn eyða minni pening en þegar ferðamennirnir eru færri.
Álíka margar brottfarir Íslendinga og 2022
Heildarfjöldi brottfara Íslendinga var 591 þúsund sem samsvarar því að hver íslenskur ríkisborgari hér á landi fór 1,8 sinnum til útlanda árið 2023. Ólíkt brottförum erlendra ferðamanna, sem fjölgaði milli ára, voru brottfarir íslenskra ríkisborgara árið 2023 álíka margar og árið áður, en þær voru 587 þúsund árið 2022. Þetta var fjórða stærsta ferðaár Íslendinga, en á árunum 2017-2019 voru brottfarir íslenskra ríkisborgara yfir 600 þúsund.