Heims­mark­mið­in hluti af sam­fé­lags­stefnu Lands­bank­ans

Landsbankinn hefur verið leiðandi á vettvangi samfélagsábyrgðar á Íslandi og ákvað nýlega að fylgja Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti í sinni starfsemi.
13. maí 2019

Áhugi og þekking á samfélagsábyrgð fyrirtækja hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Starfsfólk fyrirtækja, viðskiptavinir, fjárfestar og almenningur láta sig í síauknum mæli varða hvort horft er til umhverfis- og samfélagslegra þátta í starfsemi fyrirtækja. Samfélagsábyrgð er því að verða nauðsynlegur og raunar einn af lykilþáttum í góðum rekstri.

Samfélagsábyrgð er hugtak yfir það þegar fyrirtæki starfar í sátt við umhverfi sitt á þeim markaði sem það starfar, það gangi ekki á auðlindir og stuðli að jafnvægi. Undanfarin ár hefur innleiðing á ábyrgum fjárfestingum verið í brennidepli í Landsbankanum en þær vísa til þess að tekið er tillit til umhverfis- og samfélagsþátta, og stjórnarhátta í fjárfestingarákvörðunum.

Hrefna Ösp Sigfinssdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, segir að fyrirtæki séu í síauknum mæli að tengja samfélagsstefnu sína við heimsmarkmiðin. Ekki sé nóg að ríki og sveitarfélög setji þau á dagskrá heldur þurfi fyrirtæki að leggja sitt af mörkum.

Bankinn leggur áherslu á að samfélagsábyrgð sé samþætt stefnumörkun hans í heild. Landsbankinn hefur verið aðili að UN Global Compact í meira en áratug og er virkur þátttakandi í verkefni Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI). Bankinn er stofnaðili að samtökum um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi (IcelandSIF) sem og Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Landsbankinn gefur árlega út samfélagsskýrslu þar sem viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI, Standards) er fylgt. Á árinu 2018 hlaut bankinn viðurkenningu fyrir samfélagsskýrslu ársins þegar Festa, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands veittu viðurkenninguna í fyrsta sinn.

Áhersla á þrjú heimsmarkmið

Næstu skref í samfélagsábyrgð Landsbankans eru að fylgja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti. Bankinn ætlar að leggja áherslu á þrjú af heimsmarkmiðunum: markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu. Heimsmarkmiðin urðu fyrir valinu því þau eru metnaðarfull markmið sem taka á mikilvægum þáttum sem er ætlað að mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Markmiðin þrjú sem bankinn hefur valið að taka sérstaklega á tengjast öll starfsemi bankans og því getur bankinn haft hvað jákvæðust áhrif í umhverfi sínu með því að vinna eftir þeim.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru kynnt árið 2015 en þau komu í stað þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem sett voru um aldamótin. Heimsmarkmiðin eru fleiri og ítarlegri en þúsaldarmarkmiðin og taka á þeim fjölmörgu áskorunum sem allur heimurinn stendur frammi fyrir.

Jafnrétti kynjanna

Jafnréttismálin hafa verið í brennidepli hjá bankanum en bankinn hefur um árabil lagt áherslu á að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og hafi sömu starfstækifæri. Bankinn hefur það að markmiði að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans verði aldrei minni en 40%. Landsbankinn hefur í tvígang hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC og hlaut í mars 2019 lögbundna jafnlaunavottun.

Undanfarið ár hefur verið unnið að innleiðingu á Jafnréttisvísi Capacent og hefur allt starfsfólk bankans tekið þátt í þessu viðamikla verkefni. Með Jafnréttisvísinum er markvisst horft til fleiri þátta en launajafnréttis. Staða jafnréttismála innan bankans er metin með ítarlegri greiningu og skýr markmið mótuð í framhaldinu. Leitast var við að ná heildrænu sjónarhorni á jafnréttismál og eru lykilþættir sem horft er til menning, samskipti og vinnuumhverfi, stefna og skipulag, skipurit, laun og fyrirmyndir.

Landsbankinn skrifaði undir Jafnréttissáttmálann (Women's Empowerment Principles - Equality means Business) árið 2011 sem er alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbatt bankinn sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins.

Nánar um jafnréttismál í Landsbankanum

Góð atvinna og hagvöxtur

Áttunda heimsmarkmiðinu er ætlað að stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Landsbankinn gerir það á ýmsan hátt í starfsemi sinni og má í því sambandi nefna eftirfarandi þætti.

Landsbankinn veitir litlum og meðalstórum fyrirtækjum aðgang að fjármálaþjónustu, m.a. með fjármagni frá Norræna fjárfestingarbankanum (NIB) en Landsbankinn undirritaði nýjan sjö ára lánasamning við NIB árið 2018 til þess að endurlána litlum og meðalstórum fyrirtækjum og umhverfistengdum verkefnum á Íslandi.

Í bankanum hafa atvinnugreinastefnur, sem fela í sér viðmið um samfélagsábyrgð, verið samþykktar fyrir eftirfarandi atvinnugreinar: sjávarútveg, fasteignafélög, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eignarhaldsfélög, ferðaþjónustu, verslun, þjónustu, upplýsingatækni og fjarskipti. Á árinu 2018 lánaði bankinn til verkefna sem drógu úr losun gróðurhúsalofttegunda, til dæmis með endurnýjun í fiskiskipaflotanum, rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja í landi og til átaks bænda um endurnýjun votlendis.

Ferðamenn á Íslandi

Ábyrg neysla og framleiðsla

Heimsmarkmið um ábyrga neyslu og framleiðslu snýst um að tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur. Landsbankinn stuðlar að ábyrgri neyslu og framleiðslu á ýmsan hátt í starfsemi sinni.

Til að stuðla að minni sóun matvæla, minni úrgangi, aukinni endurvinnslu og minni sóun almennt hefur Landsbankinn unnið hratt að þróun í að verða pappírslaus banki, náð að minnka úrgang og sorp í starfsemi sinni og rekur Svans-vottað mötuneyti fyrir starfsfólk bankans. Til að draga úr losun efna og efnablandna út í andrúmsloftið, vatn og jarðveg, hefur Landsbankinn boðið einstaklingum upp á hagstæða fjármögnun á vistvænum bílum auk þess sem bankinn hefur minnkað eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda, notar umhverfisvottuð ræstiefni og hreinlætispappír.

Bankinn kolefnisjafnar allar vinnuferðir starfsmanna innanlands sem utan og 41% starfsfólks er með virkan samgöngusamning þar sem starfsfólki er boðið að nýta sér vistvænar samgöngur til og frá vinnu þegar kostur er á. Landsbankinn stuðlar að sjálfbæru verklagi í sínum innkaupum og nýtir sér birgja úr nærsamfélaginu en árið 2018 voru 94% af innkaupum bankans hjá innlendum birgjum.

Sjá nánar í umhverfiskafla Samfélagsskýrslu Landsbankans.

6 viðmið um ábyrga bankastarfsemi

Ábyrg bankastarfsemi

Landsbankinn hefur einnig ákveðið að fylgja nýjum viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi, sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og fjármálafyrirtæki víða um heim hafa sett sér til að tengjast heimsmarkmiðunum. (UNEP FI- Principles for Responsible Banking.)

Verkefnið var kynnt til sögunnar á hringborðsfundi UNEP FI í París í nóvember 2018 og var Landsbankinn fyrsti íslenski bankinn sem tilkynnti þátttöku og í hópi fyrstu aðila að verkefninu á heimsvísu. Undirritunin mun fara fram í september 2019.

Viðmiðin voru mótuð af 28 alþjóðlegum bönkum í samvinnu við UNEP FI (United Nations Environment Programme - Finance Initiative) sem Landsbankinn er nú þegar aðili að. Viðmiðunum er ætlað að vera alþjóðlegur mælikvarði á ábyrga bankaþjónustu og tryggja að bankar skapi verðmæti fyrir bæði hluthafa sína og samfélagið.

Samfélagsábyrgð hefur jákvæð áhrif á rekstur

Krafan um að fyrirtæki sinni samfélagsábyrgð með virkum hætti og sýni frumkvæði í að bæta umhverfi sitt nær og fjær mun að öllum líkindum halda áfram að aukast. Hagur samfélagsins af heilbrigðu samkeppnis- og atvinnuumhverfi er ótvíræður og sífellt kemur betur í ljós að samfélagsábyrgð og ábyrg starfsemi hafa jákvæð áhrif á rekstur fyrirtækja. Að auki blasa við stór og brýn verkefni á borð við umhverfis- og loftslagsmál sem krefjast víðtækrar samvinnu allra, almennings, fyrirtækja og opinberra aðila. Landsbankinn vill vera í fararbroddi þegar kemur að ábyrgð fyrirtækja og mun því halda áfram að finna leiðir til að sinna samfélagsábyrgð og stunda ábyrg bankaviðskipti.

Þú gætir einnig haft áhuga á
2. jan. 2025
Listin sem rólegur þátttakandi í lífinu
Dagatal Landsbankans fyrir árið 2025 er skreytt myndum af vatni og ólíkum birtingarmyndum þess í daglegu lífi okkar. Við settumst niður með myndlistarmanninum á bak við verkin, Stefáni Óla Baldurssyni eða Stebba Mottu, og fengum hans innsýn í ferlið, verkin og vatnið.
Barn í jólaglugga
9. des. 2024
Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
28. nóv. 2024
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
hinsegin dagar
9. ágúst 2024
„Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu við hæfi“
Níu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn. Eitt þeirra atriða er Öðruvísi íþróttir.
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur