Mikil hækkun launavísitölu í september
Launavísitalan hækkaði um 0,7% milli ágúst og september samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,7%, sem er svipaður árstaktur og verið hefur síðustu mánuði. Hækkun launavísitölunnar í september var óvenju mikil miðað við síðustu mánuði og að lítið ætti að vera að gerast í þessum efnum. Vísitalan hækkar hins vegar jafnan meira í september en mánuðina á undan og eftir. Launavísitalan hefur nú hækkað um samtals 6,4% á fyrstu átta mánuðum ársins.
Í nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans er spáð það miklum hagvexti í ár að ákvæði lífskjarasamningsins um hagvaxtarauka koma mjög líklega til framkvæmda í maímánuðum, bæði 2022 og 2023, gangi spáin eftir. Samkvæmt gildandi kjarasamningum munu laun hækka þann 1. janúar 2022 og svo líklega aftur þann 1. maí. Kjarasamningar renna almennt út í lok október 2022, en engu að síður verður líklega ein launahækkun eftir á árinu 2023 sem byggir á þeim.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,4% milli septembermánaða 2020 og 2021. Launavísitalan hækkaði um 7,7% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára var 3,2%. Kaupmáttur launa er því áfram nokkuð stöðugur og mikill í sögulegu samhengi þrátt fyrir töluverða verðbólgu á síðustu mánuðum. Kaupmáttarvísitalan hefur lækkað eilítið frá því í janúar og var kaupmáttur launa í júlí 1% lægri en í janúar, en þá var kaupmáttur í sögulegu hámarki.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli júlímánaða 2020 og 2021 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 6,2% á þessum tíma og um 11,8% á þeim opinbera, 9,9% hjá ríkinu og 14,2% hjá sveitarfélögunum.
Opinberi markaðurinn hefur þannig verið leiðandi í launabreytingum á tímabilinu, þrátt fyrir að staða kjarasamningagerðar hafi jafnast. Laun eru almennt lægri á opinbera markaðnum en á þeim almenna og því eðlilegt að laun þar hækki hlutfallslega meira. Á þessu ári hefur hluti hækkunarinnar á opinbera markaðnum komið til vegna vinnutímastyttingar líkt og gerðist á almenna markaðnum í fyrra. Áhrif styttingar vinnutíma eru hins vegar ekki metin inn í launavísitölu nema þau séu talin ígildi launahækkana.
Frá nóvember 2019 til júní 2021 voru áhrif styttingar vinnuviku talin vera um 0,9 prósentustig á almennum vinnumarkaði, 2,7 prósentustig hjá ríkisstarfsmönnum og 3,0 prósentustig hjá starfsfólki sveitarfélaga.