Í staðinn fyrir að nota leyninúmer til að staðfesta greiðslur í appinu og netbankanum verður beðið um staðfestingu með sterkri auðkenningu á borð við lífkenni, rafræn skilríki og Auðkennisappið. Ef þú ert að greiða inn á þitt eigið kort og eigin bankareikninga þarf ekki sérstaka auðkenningu, fyrir utan auðvitað þá sem fer fram þegar þú skráir þig inn í appið eða netbankann.
Breytingarnar eru víðtækar og því innleiddar í áföngum. Einstaklingar verða þeirra fyrst varir við innborgun á kort og innlendar millifærslur. Aðrar greiðslutegundir fylgja svo í kjölfarið, svo sem kröfugreiðslur og erlendar greiðslur. Í fyllingu tímans munu leyninúmerin sömuleiðis hverfa úr greiðsluaðgerðum netbanka fyrirtækja og hraðbanka.
Fyrsta skrefið í lengri göngu
Leyninúmerin hverfa þó ekki að öllu leyti, því að um sinn verða viðskiptavinir beðnir að velja sér leyninúmer við stofnun bankareikninga, aðallega til þess að þeir geti auðkennt sig símleiðis þegar ekki er kostur á öðrum auðkenningarleiðum. Það reynir reyndar sífellt minna á leyninúmer þar sem rafræn skilríki og lífkenni eru langmest notuðu auðkenningarleiðirnar og eru notaðar í rúmlega 94% tilfella. Rafræn skilríki eru líka algengasta leiðin til að auðkenna viðskiptavini í símtali og það mun koma að því að leyninúmerin hverfa þaðan líka.
Hvers vegna kveðjum við leyninúmerin?
Nýjar reglur um það sem nefnist sterk auðkenning hafa tekið gildi en í þeim eru meðal annars gerðar stífari kröfur um hvernig þú staðfestir greiðslur í netbanka og appi. Sama lagabreyting hefur einnig tekið gildi í nær öllum löndum Evrópu. Tilgangurinn er meðal annars að auka öryggi í hvers konar greiðslum en leyninúmer bankareikninga eru ekki talin standast öryggiskröfur nútímans.
Hérlendis eru vefveiðar algengasta fjársvikatilraunin, það eru svik sem ganga út á að gabba fólk til að gefa upp m.a. notandanafn, lykilorð og leyninúmer bankareikninga. Fólk hefur tilhneigingu til að hafa sama leyninúmer á öllum bankareikningum, nota jafnvel síðustu fjóra stafi símanúmers eða PIN númerið í heimavörninni eða öryggisnúmerið hjá Netflix svo dæmi séu nefnd. Þetta þýðir að leyninúmer geta verið ágiskanleg út frá öðrum þáttum í fari einstaklinga eða greind úr gagnalekum þjónustuveitenda um allan heim. Þar sem leyninúmer bankareikninga er bundið við sjálfan bankareikninginn en ekki viðskiptavininn, þá eru leyninúmer fyrirtækjareikninga kunn öllu því starfsfólki sem á annað borð hefur greiðsluaðgang að reikningunum starfs sín vegna. Svo þegar kemur að starfslokum eru félög misdugleg að uppfæra leyninúmerin í netbankanum. Sama gildir um samnýtta greiðslureikninga milli maka og innan fjölskyldu. Við þetta allt bætist að endurnýjun leyninúmera sem viðskiptavinir hafa gleymt er tafsamt ferli sem krefst heimsóknar í næsta útibú bankans.
Nærri hálf öld frá upphafi leyninúmera
Flest þekkjum við þó leyninúmerin af góðu einu. Þau hafa fylgt okkur áratugum saman, eins og malt og appelsín. Lengi vel voru þau svo til einu leyninúmerin sem fólk þurfti að leggja á minnið. Forveri leyninúmera var svonefnt “merki” á bankareikningum, sem þá hétu bankabækur. Merkið hóf göngu sína upp úr stofnun Reiknistofu bankanna á áttunda áratugnum og var lengi vel valkvætt. Það mátti innihalda blöndu af bókstöfum, númerum og öðrum táknum.
Merkið breyttist svo í leyninúmer í nóvember 1985 og tók þá þeim eðlisbreytingum sem við þekkjum í dag, nefnilega fjögurra stafa númer sem getur ekki verið hluti af kennitölu, reikningsnúmeri né mjög einfalt eins og 1234. Margir muna eftir að hafa þurft að breyta gömlu bókstöfunum í fjögurra stafa númer árið 1985. Í lengri framtíð munum við kannski orna okkur við ljúfar minningar af leyninúmerum bankareikninga, líkt og af Spur-Cola í denn.
Hermann Þ. Snorrason er sérfræðingur á Fyrirtækjasviði Landsbankans.