Engir vextir eða verðbætur af íbúðalánum Grindvíkinga í þrjá mánuði
Vegna óvissuástands og náttúruhamfara í Grindavík hafa Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, í samvinnu við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), gert samkomulag um að fella niður vexti og verðbætur af íbúðalánum Grindvíkinga í þrjá mánuði. Samkomulag þessa efnis var gert í gær, 22. nóvember.
Með því að fella niður vexti og verðbætur í þrjá mánuði viljum við koma til móts við viðskiptavini okkar í Grindavík sem standa frammi fyrir mikill óvissu varðandi tekjur, útgjöld, húsnæði og afdrif eigna sinna. Samkomulag milli bankanna þriggja um þessa aðgerð stuðlar að jafnræði á milli lántaka.
Niðurfellingin nær til nóvember og desember 2023 og janúar 2024 og mun hún takmarkast við vexti og verðbætur af heildarlánum að hámarki 50 milljónir króna. Ef lántaki er með hærra lán eða samanlögð íbúðalán yfir 50 milljónum króna miðast niðurfellingin við að hámarki vaxta og verðbóta af 50 milljón króna láni.
Liður í heildstæðari lausn
Í síðustu viku kynntum við það úrræði að allir viðskiptavinir Landsbankans í Grindavík geta frestað afborgunum af íbúðalánunum sínum í sex mánuði og farið þannig í greiðsluskjól. Samhliða vorum við einnig með frekari aðgerðir til skoðunar og bankinn hefur tekið þátt í undirbúningi að heildstæðari lausn með aðkomu stjórnvalda, fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og vátryggjenda. Niðurfelling vaxta og verðbóta í þrjá mánuði er liður í slíkri lausn sem gert er ráð fyrir að verði kynnt betur á næstu dögum.
Greiðsluskjól af íbúðaláni í sex mánuði
Sex mánuða greiðsluskjól stuðlar að því að Grindvíkingar fái fjárhagslegt svigrúm en í greiðsluskjóli greiða viðskiptavinir engar afborganir, vexti eða verðbætur af íbúðaláninu sínu. Vöxtum sem er frestað er bætt við höfuðstól lánsins tólf mánuðum eftir að greiðsluskjólið hefst. Vaxtagreiðslur sem frestast bera ekki vexti fyrr en að 12 mánuðum liðnum. Lánstíminn lengist um þann tíma sem greiðsluskjólið varir. Hægt er að stytta greiðsluskjólið hvenær sem er á lánstímanum.
Afar einfalt er að óska eftir greiðsluskjóli í appinu og eru nánari upplýsingar um það hér á vefnum.
Við tökum vel á móti þér
Við hvetjum alla Grindvíkinga til að hafa samband við okkur vanti þá frekari útskýringar á þessum úrræðum eða til að fara betur yfir fjármálin. Við tökum vel á móti ykkur í næsta útibúi, í síma eða á fjarfundum.
Enn ríkir mikil óvissa um framhaldið. Við munum áfram fylgjast með stöðunni og styðja við Grindvíkinga með ýmsum hætti.
Við finnum lausnir fyrir þig - Upplýsingar fyrir Grindvíkinga