Hopp Reykjavík fær sjálfbærnimerki Landsbankans
Hopp Reykjavík, sem er þekkt fyrir sínar grænu rafskútur, hefur fengið sjálfbærnimerki Landsbankans þar sem yfir 90% af tekjum félagsins koma frá sjálfbærum verkefnum. Þar með uppfyllir fjármögnun félagsins í heild skilyrði um sjálfbæra fjármögnun, samkvæmt sjálfbærri fjármálaumgjörð Landsbankans.
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavíkur, segir:
„Hopp Reykjavík er fyrsta og í dag stærsta sérleyfi vörumerkisins Hopp en í dag eru sérleyfin orðin yfir 30 talsins í 8 löndum. Hopp er íslenskt vörumerki og umhverfisvæn samgöngulausn sem gefur fólki betra og fjölbreyttara val um það hvernig það ferðast. Allur hugbúnaður Hopp er þróaður á Íslandi. Umhverfisgildi Hopp er það sem gerir vörumerkið einstakt ásamt því að Hopp breytir ekki bara samgöngum, heldur hefur einnig áhrif á umhverfis- og skipulagsmál borga og bæjarfélaga. Hopp hefur heldur betur sett svip sinn á Reykjavík, tengt hverfin og sveitarfélögin og fært þau nær hvert öðru. Enginn vafi er á að Hopp hefur stórbætt og breytt samgönguvenjum borgarbúa.
Alla daga ársins vinnur Hopp Reykjavík að sjálfbærni og axlar samfélagslega ábyrgð með því að bjóða upp á umhverfisvænar samgöngulausnir. Það eru ekki bara rafskúturnar sem eru rafdrifnar heldur hefur Hopp Reykjavík frá upphafi aðeins notað rafbíla vegna starfseminnar. Allir deilibílarnir okkar eru einnig rafbílar og því hefur útblástur frá bílum félagsins samtals verið núll! Fókus okkar, eins og allra annarra sérleyfishafa Hopp, er á kolefnisspor, kolefnisjöfnun og endurnýtingu í rekstri.
Við erum afar stolt og þakklát að tilheyra hópi fyrirtækja sem hlotið hafa sjálfbærnimerki Landsbankans.“
Á myndinni eru Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavíkur og Arnbjörn Már Rafnsson, forstöðumaður Bíla- og tækjafjármögnunar fyrirtækja hjá Landsbankanum.