Svansprent fær sjálfbærnimerki Landsbankans
Svansprent hefur fengið sjálfbærnimerki Landsbankans þar sem fyrirtækið er með vottun norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Sjálfbærnimerki Landsbankans er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn verkefni.
Svala Hrönn Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansprents, segir: „Við höfum haft umhverfismálin í fyrirrúmi í mörg ár og erum stolt af því að stuðla að aukinni sjálfbærni og umhverfisvernd. Hjá Svansprenti störfum við eftir ströngum kröfum Svansins sem tryggir meðal annars að efnin sem við notum eru vistvæn, pappírinn kemur úr sjálfbærum skógum og nánast allur afskurður er endurnýttur. Við finnum að viðskiptavinir okkar gera auknar kröfur um vistvæna framleiðslu. Þetta er mjög ánægjuleg þróun því við verðum öll að taka höndum saman til að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til framtíðar.“
Á myndinni eru f.v.: Svala Hrönn Jónsdóttir framkvæmdastjóri Svansprents, Yngvi Óðinn Guðmundsson, svæðisstjóri í Fyrirtækjamiðstöð Landsbankans og Jón Svan Sverrisson prentsmiðjustjóri.