Ný lög um fjármálagerninga – þú þarft mögulega að bregðast við
Lögunum er ætlað að efla fjárfestavernd, gagnsæi í viðskiptum og fleira sem viðkemur viðskiptum með fjármálagerninga sem teknir hafa verið á markað, s.s. hlutabréf, kauphallarsjóði og skuldabréf.
Hvað þurfa lögaðilar að gera?
Eftir gildistöku laganna þurfa lögaðilar sem ætla að eiga viðskipti með fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á markaði að afla sér alþjóðlegs LEI-kóða hjá viðurkenndum útgefendum erlendis.
Upplýsingar um LEI-kóða lögaðila þarf að senda í tölvupósti á netfangið lei@landsbankinn.is ásamt nafni lögaðila og íslenskri kennitölu.
Hvað þurfa einstaklingar að gera?
Ef þú ert einstaklingur með annað ríkisfang en íslenskt eða ert með tvöfalt ríkisfang, þarftu að upplýsa Landsbankann um alla erlendu NCI-kóðana þína til að þú getir átt viðskipti með fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á markaði. Einstaklingar sem eingöngu hafa íslenskt ríkisfang þurfa ekki að upplýsa um NCI-kóða sinn.
Upplýsingar um NCI-kóða einstaklinga þarf að senda í tölvupósti á netfangið nci@landsbankinn.is ásamt nafni og íslenskri kennitölu.
Reglur um NCI-kóða eru misjafnar á milli landa. Við erum með frekari upplýsingar á vefnum okkar en ef þú lendir í vandræðum hvetjum við þig til að hafa samband við okkur.
Nánar um kóðana
LEI-kóðar og NCI-kóðar eru nauðsynlegir vegna viðskipta með hlutabréf, kauphallarsjóði og skuldabréf sem skráð eru á markað, t.d. Nasdaq Iceland og First North. Ekki er þörf á þessum kóðum ef viðskiptavinur ætlar eingöngu að eiga viðskipti með sjóði Landsbréfa, að undanskildum kauphallarsjóðnum Landsbréf LEQ UCITS ETF.