Landsbankinn mælir kolefnislosun lánasafnsins fyrstur banka
Þannig vinnum við markvisst að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsamkomulaginu í gegnum okkar kjarnastarfsemi.
Við höfum nú áætlað losun vegna útlána til fyrirtækja, íbúðalána og bílalána með aðferðafræði alþjóðlega PCAF-loftslagsmælisins. Upplýsingarnar verða birtar opinberlega og uppfærðar árlega í sjálfbærniskýrslu okkar.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans: „Þetta er risastórt skref í sjálfbærnivinnu okkar. Bankar, líkt og önnur fyrirtæki, þurfa að leggja sitt af mörkum til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Stóru tækifærin til að draga úr kolefnislosun liggja ekki í beinum rekstri okkar, heldur í loftslagsáhrifum tengdri fjármálaþjónustunni sjálfri. Með því að þekkja þessi óbeinu áhrif og búa yfir þessum upplýsingum í fyrsta sinn, getum við betur áttað okkur á því hvar losunin liggur. Ég er mjög stolt af því að Landsbankinn skuli vera í hópi alþjóðlegra banka og sérfræðinga að þróa þessa mikilvægu aðferðarfræði. Við eru í stöðugri framþróun og markmið okkar með þessari vinnu er að auka skilning okkar á áhrifum bankans í gegnum lánveitingar eða fjárfestingar, geta fylgst með breytingum yfir tíma og miðlað þeim upplýsingum. Það er Landsbanki nýrra tíma.“
PCAF, fyrsti loftslagsmælirinn fyrir banka
Landsbankinn hóf þátttöku í alþjóðlega verkefninu Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF) árið 2019 og hefur frá upphafi unnið að þróun aðferðafræði PCAF-loftslagsmælisins, sem hleypt var af stokkunum í nóvember 2020. PCAF- loftslagsmælirinn, sem byggir á grunni GHG Protocol, gerir nú fjármálafyrirtækjum um allan heim kleift að mæla þessi óbeinu umhverfisáhrif á samræmdan og vísindalegan hátt.