Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar 10.-12. maí 2021
Landsbankinn vekur athygli á að Síldarvinnslan hf. hefur birt lýsingu í tengslum við almennt hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar sem hefst kl. 10.00, mánudaginn 10. maí 2021, og lýkur kl. 16.00, miðvikudaginn 12. maí 2021. Lýsinguna má nálgast á vefsvæði félagsins, svn.is/fjarfestar/.
Landsbankinn er umsjónar- og söluaðili útboðsins og annast töku hlutabréfanna til viðskipta.
Í útboðinu er stefnt að því að selja þegar útgefna hluti í Síldarvinnslunni sem samsvara 26,3% af hlutafé félagsins. Gefi eftirspurn tilefni til kemur til greina að fjölga hlutum sem boðnir verða til sölu um allt að 3% og verður salan í útboðinu þá sem samsvarar 29,3% af hlutum í félaginu.
Fjárfestar geta valið á milli tilboðsbókar A og tilboðbókar B.
Í tilboðsbók A verða boðnir til sölu 90.909.091 hlutir. Fjárfestar gera tilboð innan verðbils 55-58 kr./hlut. Lágmarksfjárhæð áskriftar er 100.000 kr. og hámarksáskrift er 20.000.000 kr.
Í tilboðsbók B verða boðnir 356.717.789 hlutir. Lágmarksáskrift er yfir 20.000.000 kr. Ekkert hámarksverð áskrifta er tilgreint af hálfu seljenda en fjárfestar leggja fram áskriftir á verði sem er jafnt eða hærra en lágmarksverð, 55 kr./hlut.
Upplýsingar og áskrift á vefnum
Áskriftum skal skilað í gegnum sérstakan áskriftarvef sem er aðgengilegur á vef Landsbankans. Þar eru einnig ítarlegar upplýsingar um útboðið.
Þátttaka í útboðinu er heimil öllum þeim einstaklingum og lögaðilum sem hafa bæði íslenska kennitölu og eru fjárráða. Markmið með útboðinu er m.a. að Síldarvinnslan uppfylli skráningarskilyrði á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland m.t.t. dreifingu hlutafjár og fjölda hluthafa. Áætlaður fyrsti viðskiptadagur er 27. maí 2021.
Áður en fjárfestar taka ákvörðun um fjárfestingu í hlutum í Síldarvinnslunni eru þeir hvattir til þess að kynna sér vel allar upplýsingar í lýsingu sem félagið birti 3. maí 2021 í tengslum við hlutafjárútboðið, þ. á m. skilmála útboðsins og umfjöllun um áhættu sem kemur fram í lýsingunni.
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar