Ný fjármálaumgjörð Landsbankans stuðlar að sjálfbærni
Umgjörðin er vottuð af alþjóðlega matsfyrirtækinu Sustainalytics sem er leiðandi á þessu sviði. Hún skilgreinir með skýrum hætti hvaða verkefni stuðla að sjálfbærni og tryggir gagnsæi. Um 30% af útlánasafni bankans fellur nú þegar undir umgjörðina.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Það er okkur mikilvægt að vera leiðandi í sjálfbærni. Nú erum við komin með trausta og staðlaða fjármálaumgjörð sem mun nýtast okkur við að veita sjálfbæra fjármálaþjónustu. Við erum banki nýrra tíma og vegferð bankans, sem hófst með áherslu á jafnréttis- og umhverfisþætti, er nú orðin að heildar sjálfbærniumgjörð sem nýtist við hverskyns fjármálaþjónustu. Í framtíðinni munu viðskiptavinir okkar leggja ríkari áherslu á að skilja þau áhrif sem fjármagn hefur á sjálfbærni. Við ætlum að nýta umgjörðina til að einfalda fólki lífið með betri upplýsingum.“
Nánar um fjármálaumgjörðina
Sjálfbæra fjármálaumgjörðin (e. sustainable finance framework) byggir á viðmiðum Alþjóðasamtaka aðila á verðbréfamarkaði (ICMA) og nýlegum viðmiðum Evrópusambandsins (EU Taxonomy) varðandi græna og félagslega fjármögnun, sem búist er við að verði ríkjandi viðmið á sjálfbærum fjármálamörkuðum. Umgjörðin var þróuð af þverfaglegum hópi sérfræðinga innan bankans.
Áhersla á sjálfbærni
Landsbankinn fékk á síðasta ári framúrskarandi umsagnir í UFS-áhættumati (e. ESG risk rating) frá Sustainalytics og Reitun, en matið snýr að því hvernig við hugum að umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum í okkar starfsemi. Í mati Sustainalytics vorum við í 2. sæti af 382 bönkum sem fyrirtækið hefur mælt og starfa í Evrópu. Þessar góðu niðurstöður eru til marks um mikla vinnu okkar í þessum málum um árabil.
Nýlega var fyrsta alþjóðlega loftslagsmæli PCAF hleypt af stokkunum en við tökum virkan þátt í þróun hans, einn íslenskra banka. Við fylgjum markvisst þremur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem og viðmiðum SÞ um ábyrga bankastarfsemi (UN PRB). Við höfum lengi tekið þátt í víðtækum skuldbindingum á sviði sjálfbærni, s.s. hnattrænu samkomulagi SÞ (UN Global Compact) og verkefni SÞ um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI), og nýlega skrifuðum við undir viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar, svo fátt eitt sé nefnt.
Nánar um sjálfbæra fjármálaumgjörð