Landsbankahúsið við Pólgötu á Ísafirði til sölu
Til stendur að útibúið flytji yfir götuna, í Hafnarstræti 19, þar sem Sparisjóður Vestfirðinga var áður til húsa. Þar er betri aðstaða og aðgengi fyrir viðskiptavini og starfsfólk, auk þess sem húsnæðið er hagkvæmara og hentar starfseminni betur.
Landsbankahúsið á Ísafirði er á fjórum hæðum, að kjallara og rishæð meðtöldum. Grunnflötur hússins er um 220 m2 en alls er húsið um 830 m2. Breytingar á bankaþjónustu valda því að útibúið þarf nú mun minna húsnæði undir starfsemi sína. Þegar húsið var tekið í notkun voru í kjallara m.a. fjárhirslur, geymsluhólf og kaffistofa starfsfólks. Afgreiðslusalur og aðstaða fyrir viðskiptavini var á 1. hæð en á 2. hæð var m.a. íbúð fyrir útibússtjóra og gestaherbergi fyrir viðskiptavini og starfsfólk bankans sem dvaldi um stundarsakir á Ísafirði. Rishæðin var leigð út til að byrja með. Bárður Ísleifsson er arkitekt hússins en byggt var á teikningum Guðjóns Samúelssonar. Húsið stendur á rúmlega 730 m2 eignarlóð og því fylgir 57 m2 bílskúr.
Fasteignasala Vestfjarða og Fasteignamiðstöðin annast sölu á húsinu. Landsbankinn áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum í húsið.
Opnaði í húsi sparisjóðsins árið 1904
Útibú Landsbankans á Ísafirði opnaði að Mánagötu 9 árið 1904, í húsi sem var reist sjö árum fyrr fyrir starfsemi Sparisjóðs Ísfirðinga. Útibúið tók við öllu starfi sparisjóðsins og Þorvaldur Jónsson, læknir og sparisjóðsstjóri með meiru, varð útibússtjóri. Árið 1918 flutti bankinn í safnaðarhúsið Hebron við Sólgötu 9. Þaðan flutti bankinn að Pólgötu 10 árið 1926, þar sem bankinn var til ársins 1934, þegar hann flutti í Aðalstræti 24.