Mikil umframeftirspurn í hlutafjárútboði Icelandair Group
- Alls bárust yfir 9 þúsund áskriftir samtals að fjárhæð 37,3 milljarðar króna.
- Stjórn hefur samþykkt áskriftir að fjárhæð 30,3 milljarða og ákveðið að nýta heimild til stækkunar útboðsins þannig að fjöldi seldra hluta verður 23 milljarðar.
- Nýjum hlutum fylgja 25% áskriftarréttindi eða sem nemur 5,75 milljörðum hluta.
- Úthlutun var í samræmi við skilmála útboðsins
- Mikil eftirspurn var frá almennum fjárfestum og verður eignarhlutur þeirra í félaginu um 50% í kjölfar útboðsins.
- Fjöldi hluthafa í félaginu í kjölfar útboðs verður yfir 11.000.
- Vegna umframeftirspurnar í útboðinu virkjaðist ekki sölutryggingin.
Fjárfestar geta nálgast upplýsingar um úthlutun í útboðinu eigi síðar en í lok dags 18. september 2020 með því að fara inn á áskriftarvef útboðsins á vefsíðu Landsbankans og nota sömu aðgangsauðkenni og þeir notuðu til að skrá áskrift sína í útboðinu. Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu er 23. september 2020.
Greiddir hlutir verða afhentir þegar hlutafjáraukning hefur verið skráð hjá Fyrirtækjaskrá og verða hlutirnir gefnir út í gegnum Nasdaq CSD Ísland í síðasta lagi 9. október 2020. Að teknu tilliti til lögbundinna tímamarka en stefnt er að því að afhenda nýju hlutina fyrr. Gert er ráð fyrir að nýju hlutirnir verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland eigi síðar en þann 12. október 2020.
Hlutafé félagsins er 5,4 milljarðar hluta og eftir útgáfu nýrra hluta verður heildarhlutafé alls um 28,4 milljarðar hluta. Úthlutun og skráning áskriftarréttinda verður eigi síðar en 15. október 2020. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka voru umsjónaraðilar útboðsins.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:
„Við erum auðmjúk og þakklát fyrir það mikla traust sem Icelandair Group var sýnt í hlutafjárútboðinu sem er lokahnykkurinn í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Með breiðari hluthafahópi, sterkum efnahagsreikningi og sveigjanlegu leiðakerfi munum við verða tilbúin að bregðast hratt við þegar eftirspurn tekur við sér á ný. Við ætlum okkur, hér eftir sem hingað til, að tryggja öflugar flugsamgöngur til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið með tilheyrandi ávinningi fyrir íslenskt efnahagslíf og lífsgæði hér á landi.
Starfsfólk af öllum sviðum Icelandair Group hefur á liðnum mánuðum unnið þrekvirki við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins, þjónustu við viðskiptavini í heimsfaraldri og um leið sótt ný verkefni, til dæmis í leigu- og fraktflugi, til að nýta innviði og auka tekjur félagsins. Styrkleikar félagsins liggja meðal annars í reynslu og þekkingu starfsfólks og ekki síst samheldni þegar á móti blæs. Fyrir það er ég bæði þakklátur og stoltur. Nýr kafli er að hefjast í yfir 80 ára sögu félagsins og ég býð yfir sjö þúsund nýja hluthafa velkomna til liðs við okkur.“