Landsbankinn og Félagsstofnun stúdenta framlengja samstarfssamning
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans og Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, undirrituðu samninginn.
Landsbankinn og Félagsstofnun stúdenta (FS) hafa framlengt samstarfssamning sinn til næstu tveggja ára. Landsbankinn mun því annast alla almenna bankaþjónustu og greiðslumiðlun fyrir rekstrareiningar FS og jafnframt sjá um eignastýringu og ávöxtun á sjóðum FS. Saman munu FS og Landsbankinn einnig standa að ýmsum verkefnum og viðburðum.
Félagsstofnun stúdenta er þjónustufyrirtæki fyrir stúdenta við Háskóla Íslands sem hefur það að leiðarljósi að auka lífsgæði stúdenta. FS rekur fjölbreytta þjónustu, veitingasöluna Hámu sem starfar víða á háskólasvæðinu, veitinga- og skemmtistaðinn Stúdentakjallarann, þrjá leikskóla, Bóksölu stúdenta og Stúdentagarða þar sem um 1.800 manns búa. Þótt reksturinn sé fyrst og fremst ætlaður stúdentum er stór hluti þjónustunnar opin öllum og nýtt af fjölbreyttum hópi fólks.
Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, segir: „Samstarf FS og Landsbankans hefur verið afar gott bæði í tengslum við rekstur og viðburði. Síðasta ár var sérlega ánægjulegt en þá hélt FS upp á 50 ára afmæli sitt með fjölbreyttum hætti. Kom Landsbankinn þar að fjölda viðburða. Áframhaldandi samningur tryggir að við getum haldið áfram á sömu braut og er nú þegar margt spennandi og skemmtilegt komið á dagskrá næsta skólaárs.“
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Félagsstofnun stúdenta hefur af myndarskap staðið fyrir mikilli uppbyggingu á háskólasvæðinu undanfarin ár og hefur metnaðarfull áform um frekari framkvæmdir. Samstarf Landsbankans og FS undanfarin ár hefur verið farsælt og árangursríkt og ánægjulegt að framhald verði á því.“