Landsbankaappið valið app ársins
Landsbankaappið var valið app ársins þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent þann 22. febrúar síðastliðinn. Appið er einfalt og þægilegt í notkun en með því geta viðskiptavinir Landsbankans sinnt bankaviðskiptum sínum hvar og hvenær sem er.
Viðskiptavinir fá skýra og einfalda samantekt á fjárhagslegri stöðu sinni um leið og þeir skrá sig inn. Síðan er auðvelt að kafa dýpra og fá nánari upplýsingar um hvern þjónustuþátt. Innskráningarferlið er einfalt, en hægt er að skrá sig inn með fingrafari, rafrænum skilríkjum eða notendanafni og lykilorði.
Samtök vefiðnaðarins (SVEF) standa að Íslensku vefverðlaununum en SVEF eru fagsamtök þeirra er starfa að vefmálum á Íslandi. Íslensku vefverðlaunin hafa verið haldin frá árinu 2000 og eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins, haldin með það að markmiði að efla hann, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða.
Landsbankaappið bar sigur úr býtum í flokknum app ársins. Í umsögn dómnefndar segir: „Í appinu er fljótlegt að framkvæma allar meginaðgerðir og mikil áhersla lögð á aðgengi. Valmynd er vel uppsett. Fallegt, þægilegt og gott í notkun.“
Landsbankinn kynnti á árinu 2018 fjölda nýjunga í stafrænni þjónustu sem er ætlað að gera líf viðskiptavina einfaldara og bankaviðskipti auðveldari. Fjallað er um nýjungarnar í ársskýrslu Landsbankans sem kom út í febrúar.
Landsbankaappið er aðgengilegt í App Store og Google Play. Þeir sem ekki eru þegar viðskiptavinir bankans geta skráð sig í viðskipti á örfáum mínútum með því að sækja appið og auðkenna sig með rafrænum skilríkjum.