Heiðarskóli bar sigur úr býtum í Skólahreysti
Heiðarskóli í Reykjanesbæ er sigurvegari Skólahreysti 2018 eftir æsispennandi úrslitakeppni í Laugardalshöll miðvikudaginn 2. maí.
Laugalækjarskóli tryggði sér annað sætið og silfur með glæsilegum árangri og Grunnskólinn á Hellu varð í þriðja sæti og fékk bronsið. Tólf skólar af öllu landinu unnu sér keppnisrétt í úrslitum en yfir 100 skólar hófu keppni í ár. Stemningin var engu lík í Höllinni en keppnin var sýnd í beinni útsendingu á RÚV.
Keppnin hófst með krafti þegar Óliver Dór Örvarsson úr Laugalækjarskóla bar sigur úr býtum í bæði upphífingum og dýfum en hann tók 52 upphífingar og 54 dýfur. Leonie Sigurlaug Friðriksdóttir úr Grunnskóla Húnaþings Vestra og Magnea Vignisdóttir úr Brekkuskóla voru jafnar í armbeygjukeppninni en þær tóku báðar 56 armbeygjur. Leonie Sigurlaug stóð sig einnig best í hreystigreip og náði glæsilegum tíma með því að hanga í 5.33 mínútur. Heiðarskóli sigraði að lokum hraðaþrautina en það voru Ingibjörg Birta Jóhannsdóttir og Eyþór Jónsson sem fóru þrautina fyrir hönd Heiðarskóla á 2.15 mínútum.
Sigurlið Heiðarskóla skipuðu Ingibjörg Birta Jóhannsdóttir og Eyþór Jónsson (hraðaþraut), Bartosz Wiktorowicz (upphífingar og dýfur) og Ástrós Elísa Eyþórsdóttir (armbeygjur og hreystigreip).
Silfurlið Laugalækjarskóla skipuðu Tinna Dögg Þórðardóttir og Jónas Ingi Þórisson (hraðaþraut), Óliver Dór Örvarsson (upphífingar og dýfur) og Una Sigrún Zoega (armbeygjur og hreystigreip).
Bronslið Grunnskólans á Hellu skipuðu Jóna Kristín Þórhallsdóttir og Heiðar Óli Guðmundsson (hraðaþraut), Almar Máni Þorsteinsson (upphífingar og dýfur) og Írena Rós Haraldsdóttir (armbeygjur og hreystigreip).
Aðrir skólar í úrslitum í ár voru Brekkuskóli, Grunnskólarnir á Suðureyri og í Súðavík, Grunnskóli Hornarfjarðar, Grunnskóli Húnaþings Vestra, Holtaskóli, Lindaskóli, Varmahlíðarskóli, Varmárskóli og Ölduselsskóli.
Landsbankinn er stoltur styrktaraðili Skólahreysti og óskar keppendum og skólum þeirra til hamingju með frábæran árangur í vetur.