Fréttir

Af­koma Lands­bank­ans á fyrri árs­helm­ingi 2012

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 11,9 milljarða króna eftir skatta á fyrri hluta árs 2012. Hagnaður á öðrum ársfjórðungi var þó mun minni en á þeim fyrsta og skýrist það fyrst og fremst af gjaldfærslu í rekstri bankans vegna endurmats á eignum Spkef.
30. ágúst 2012

Fjárhagsstaða Landsbankans styrkist jafnt og þétt

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 11,9 milljarða króna eftir skatta á fyrri hluta árs 2012. Hagnaður á öðrum ársfjórðungi var þó mun minni en á þeim fyrsta og skýrist það fyrst og fremst af gjaldfærslu í rekstri bankans vegna endurmats á eignum Spkef. Hagnaður bankans á fyrri hluta árs hefur lækkað um helming frá sama tíma á síðasta ári en þá var hagnaðurinn 24,4 milljarðar króna. Þessi munur skýrist fyrst og fremst af lægri tekjum af óreglulegum liðum, t.d. hagnaði af hlutabréfum og aflagðri starfsemi.

Arðsemi eigin fjár á fyrri hluta árs 2012 var 11,5% en mældist tæplega 25% á sama tíma fyrir ári. Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er nú 23,3% en var 22,4% fyrir ári. Eiginfjárhlutfall Landsbankans er því langt umfram það 16% lágmark sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um. Fjárhagsstaða Landsbankans er traust en arðsemi af rekstri endurspeglar lítinn vöxt í íslensku efnahagslífi.

Árshlutareikningur H1 2012

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Meginbreytingar á efnahag Landsbankans eru tvennskonar, annars vegar er það sala á 75% hlut í dótturfélaginu Reginn hf. sem skilaði Landsbankanum um 1.650 milljóna króna í hagnað um leið og hún létti á efnahag bankans og lækkar verðmæti eigna til sölu á efnahagsreikningi úr 53 milljörðum króna í árslok 2011 í 26 milljarða króna. Þá lækka skuldir tengdar eignum til sölu um 8,4 milljarða króna.

Hinsvegar veldur mikilli breytingu á efnahag það samkomulag sem Landsbankinn hf. og Landsbanki Íslands hf. (LBI) náðu, um að Landsbankinn fyrirframgreiði fjórðung af höfuðstól svokallaðra A–skuldabréfa sem gefin voru út árið 2010 vegna mismunar á virði yfirtekinna eigna og skulda frá LBI. Fyrirframgreiðslan var að jafnvirði rúmlega 73 milljarða króna í evrum, dollurum og pundum. Samfara lækkar fjármagnskostnaður bankans og vegur sú lækkun mun þyngra en sú ávöxtun sem laust fé í erlendri mynt skilar bankanum. Um leið minnkar efnahagsreikningur bankans og arðsemi rekstrarins eykst. Þetta er því mikilvæg ráðstöfun. Lausafjárstaða bankans bæði í íslenskum krónum og erlendri mynt er áfram mjög sterk og gefur eigendum færi á að greiða sér arð á næstu árum.

Lykilstærðir
Kennitölur H1 2012 H1 2011
Hagnaður eftir skatta 11.877 24.434
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 11,5% 24,9%
CAD hlutfall 23,3% 22,4%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna 3,3% 3,1%
Kostnaðarhlutfall * 55,5% 53,3%
Heildareignir 1.048.573 1.126.280
Útlán í hlutfalli við innlán viðskiptavina 151,4% 153,6%
Stöðugildi 1.269 1.258

* Kostnaðarhlutfall = (Laun + önnur rekstrargjöld + afskriftir) / (Hreinar vaxtatekjur + hreinar þjónustutekjur)

Steinþór Pálsson, bankastjóri segir:

"Uppbyggingu Landsbankans miðar áfram vel. Við höfum náð mikilsverðum árangri á fyrri hluta ársins m.a. með skráningu Regins á markað, samkomulagi við LBI hf. um fyrirframgreiðslu hluta skuldabréfs sem gefið var út 2010 og hagræðingaraðgerðum sem styrkja bankann til lengri tíma litið. Enn eru þó blikur á lofti, beðið er niðurstöðu dómstóla um gengistryggð lán og staða heimila og fyrirtækja er því enn óvissu háð þrátt fyrir að skuldir hafi verið færðar niður um hundruð milljarða króna. Þetta endurspeglast í hagkerfi sem segja má að bíði enn átekta fremur en að taka djarfar ákvarðanir sem stuðla að uppbyggingu. Rekstur Landsbankans markast af þessari stöðu, en bankinn er mjög vel undir það búinn að styðja einstaklinga og fyrirtæki til fjárfestinga þegar fram í sækir.“

Endurskipulagning skulda viðskiptavina

Endurskipulagning skulda einstaklinga og fyrirtækja hefur verið meginverkefni Landsbankans undanfarin ár.

Í lok júní hafði Landsbankinn lokið endurskipulagningu skulda rúmlega 1.000 fyrirtækja. Flest öll þeirra fyrirtækja sem áttu í erfiðleikum og bankinn mat sem lífvænleg þegar hafist var handa við það umfangsmikla verkefni að endurskipuleggja skuldir íslenskra fyrirtækja í kjölfar hrunsins í október 2008, hafa nú fengið lausn sinna mála.Á síðustu 24 mánuðum hefur Landsbankinn selt lífvænleg fyrirtæki í óskyldum rekstri sem hann hefur fengið yfirráð yfir í kjölfar rekstrarerfiðleika þeirra og lækkað verðmæti eigna sem Landsbankinn hefur haft til sölu um nálega 100 milljarða króna.

Öll gengistryggð lán í Landsbankanum hafa verið endurútreiknuð en vegna dóms Hæstaréttar 600/2011 ríkir enn óvissa um útreikning á eftirstöðvum sumra þeirra lána. Fyrir dómstólum liggja 11 prófmál sem ætlað er að skera úr um öll helstu álitaefni sem enn þarfnast umfjöllunar. Hugsanlegt er að endurútreikna þurfi einhver lán til samræmis við niðurstöður þessara dómsmála.

Vanskil hafa minnkað verulega á bókum bankans. Eftir annan ársfjórðung 2011 námu þau rúmum 24% en hafa nú lækkað í 11,7%. Þetta segir mikla sögu um virkni þeirra úrræða sem í boði hafa verið. Vanskil í íslenskum bönkum eru þó enn allt of mikil.

Uppgjör við Landsbanka Íslands hf. (LBI hf.)

Breytilega skuldabréfið sem Landsbankinn hf. mun gefa út til LBI hf. og ræður því hversu mikið LBI hf. fær í sinn hlut af eignum Landsbankans, stendur nú í 69 milljörðum króna. Verði andvirði þess 92 milljarðar í árslok afsalar LBI hf. sér 18,7% eignarhlut sínum í Landsbankanum að fullu.

Landsbankinn hf. og Landsbanki Íslands hf. (LBI) sem nú er í slitameðferð náðu samkomulagi um að Landsbankinn fyrirframgreiði fjórðung af höfuðstól svokallaðra A–skuldabréfa sem gefin voru út árið 2010 vegna mismunar á virði yfirtekinna eigna og skulda frá LBI. Fyrirframgreiðslan var að jafnvirði rúmlega 73 milljarða króna í evrum, dollurum og pundum. Samfara lækkar fjármagnskostnaður bankans og vegur sú lækkun mun þyngra en sú ávöxtun sem laust fé í erlendri mynt skilar bankanum. Samkomulagið er mikilvægur áfangi í uppbyggingu Landsbankans, þar sem fyrrnefnd fyrirframgreiðsla lækkar skuldir bankans umtalsvert og auðveldar endurfjármögnun. Fyrirframgreiðslan gengur að fullu inn á fyrstu 5 af 20 ársfjórðungslegum afborgunargjalddögum skuldabréfanna, sem áttu að hefjast í janúar 2014. Næsta afborgun höfuðstóls verður því í apríl 2015 í stað janúar 2014, en lokagjalddagi er í október 2018.

Rekstrarreikningur

Rekstur Landsbankans er að mestu á áætlun það sem af er ári en þó lækka heildartekjur bankans um nálega 25% milli ára, voru 31,6 milljarðar króna á fyrri helmingi síðasta árs en eru nú 23,6 milljarðar. Þarna ræður mestu gjaldfærsla vegna Spkef og minni gengishagnaður af hlutabréfum. Vaxtatekjur Landsbankans hafa aukist um 1,7 milljarða króna frá því á sama tíma á síðasta ári, þar af eru 900 milljónir vegna yfirtöku á eignum Spkef. Þjónustutekjur standa nánast í stað.

Virðisbreyting lánasafns

Á fyrri hluta árs 2012 færði bankinn til gjalda um 3,5 milljarða króna vegna neikvæðrar þróunar á virði lánasafnsins. Þessi liður byggist á útlánatöpum og mati bankans á endurheimtum útlána. Miklu skiptir gjaldfærsla vegna mismunar á mati bankans á útlánum í SpKef og mati úrskurðarnefndar sem skipuð var til að leysa úr ágreiningi milli Landsbankans og ríkisins. Landsbankinn beitti við þetta mat sömu aðferðafræði og hann beitir við mat á útlánum alla jafna en aðferðafræði úrskurðarnefndarinnar var önnur. Mat bankans er því varfærnara en mat nefndarinnar.

Frá því gengið var frá kaupum Landsbankans á eignum LBI hf. hefur Landsbankinn gjaldfært 19,4 milljarða króna vegna verðrýrnunar lánasafnsins. Þar af hefur bankinn gjaldfært um 16,4 milljarða vegna lánasafns einstaklinga og um 3 milljarða króna vegna lánasafns fyrirtækja. Í opinberri umræðu er því oft haldið fram að stór hluti hagnaðar bankanna tengist virðisaukningu á útlánasöfnum sem keypt voru af gömlu bönkunum. Í tilviki Landsbankans er því ekki til að dreifa.

Mikil óvissa var um virði útlána þegar samningum milli Landsbankans og LBI hf. lauk undir árslok árið 2009 og töluverður ágreiningur um verðmæti lána. Úr varð að samið var um Landsbankinn gæfi út skilyrt skuldabréf sem myndi endurspegla hugsanlega hækkun á verðmæti tiltekinna eigna fram til loka árs 2012, en þó yrði það að hámarki 92 milljarðar króna. Mat bankans er að frá því samningar voru gerðir hafi verðmæti eignanna hækkað um 69 milljarða króna og stendur því skilyrta bréfið í þeirri fjárhæð um mitt ár 2012. Óháðir aðilar fara yfir mat á eignunum og úrskurða um þau mál ef Landsbankinn og LBI ná ekki saman. Í reikningum bankans hækkar því verðmæti eigna en skuld við LBI hf. hækkar að sama skapi og hefur þessi virðisbreyting því ekki áhrif á rekstur bankans.

Rekstrarkostnaður

Rekstrarkostnaður Landsbankans er enn of hár, þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðhaldsaðgerða í rekstrinum. Rekstrarkostnaður hefur hækkað um 11% frá fyrri árshelmingi ársins 2011. Laun og tengd gjöld hafa hækkað um 26%, eða sem svarar til 1.350 milljóna króna en launahækkanir ráða þó minnstu þar um. Samningsbundnar launahækkanir nema 400 milljónum króna en nýr fjársýsluskattur á laun 350 milljónum króna. Kostnaður vegna samruna við Spkef og starfsloka vegna hagræðingaraðgerða er 480 milljónir króna.

Áætlaður tekju- og bankaskattur hækkar um 22% milli ára, er nú ríflega 2,8 milljarðar króna. Á fyrri helmingi ársins hefur Landsbankinn greitt til FME og Umboðsmanns skuldara 390 milljónir króna.

Rekstur
  H1 2012 H1 2011 Breyting %
Hreinar vaxtatekjur 18.573 16.849 1.724 10%
Virðisbreyting -3.465 2.675 -6.140 -230%
Hreinar vaxtatekjur eftir virðisbreytingu 15.108 19.524 -4.416 -23%
Hreinar þjónustutekjur 2.092 2.217 -125 -6%
Gjaldeyrisgengismunur 836 -139 975 -702%
Aðrar rekstrartekjur 5.524 10.016 -4.492 -45%
Afkoma fyrir rekstrarkostnað 23.560 31.618 -8.058 -25%
Rekstrarkostnaður -12.027 -10.806 -1.221 11%
Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga, að frádregnum skatti 673 1.172 -499 -43%
Hagnaður fyrir skatta 12.206 21.985 -9.779 -44%
Áætlaður tekju- og bankaskattur -2.813 -2.299 -514 22%
Hagnaður af reglulegri starfsemi 9.393 19.685 -10.292 -52%
Hagnaður af aflagðri starfsemi, að frádregnum skatti 2.484 4.749 -2.265 -48%
Hagnaður tímabilsins 11.877 24.434 -12.557 -51%

Efnahagsreikningur

Sem fyrr segir eru það salan á 75% hlut í Reginn hf. og fyrirframgreiðsla til LBI hf. af útgefnu skuldabréfi sem valda mestum breytingum á efnahagsreikningi Landsbankans. Heildareignir bankans hafa minnkað frá því á sama tíma á síðasta ári um tæplega 87 milljarða króna. Eigið fé bankans er nú 212 milljarðar króna og hefur hækkað um 12 milljarða frá áramótum.

Lausafjárhlutfall bankans er enn mjög hátt þrátt fyrir fyrrnefnda fyrirframgreiðslu og er nú 39,2% sem jafngildir því að Landsbankinn gæti greitt út samdægurs tæplega 40% af öllum innistæðum. Eiginfjárhlutfallið, CAD, er sömuleiðis mjög hátt og gefur eigendum færi á að greiða sér arð af rekstri bankans á næstunni.

Verðtryggingarójöfnuður Landsbankans jókst síðastliðið ár um 35 milljarða króna. Ástæðu þess má fyrst og fremst rekja til þess að við endurútreikning á ólögmætum gengistryggðum lánum kaus nokkur fjöldi viðskiptavina bankans að breyta þeim lánum í verðtryggð frekar en óverðtryggð lán. Hlutur verðtryggðra og óverðtryggðra lána í útlánum Landsbankans hefur vaxið frá árinu 2008. Einnig hefur yfirtaka Landsbankans á SpKef og Avant aukið verðtryggðar eignir umfram skuldir. Á þessu ári hefur sama þróun haldið áfram m.a. vegna sölu á Reginn hf. út úr samstæðu Landsbankans.

Efnahagsreikningur - eignir
Efnahagur 30.06.2012 31.12.2011 Breyting 2012 %
Sjóður og innistæður í Seðlabanka 16.364 8.823 7.541 85%
Kröfur á lánastofnanir 59.529 100.133 -40.604 -41%
Markaðsskuldabréf 203.863 221.848 -17.985 -8%
Hlutabréf 38.161 46.037 -7.876 -17%
Útlán til viðskiptavina 666.890 639.130 27.760 4%
Aðrar eignir 37.082 65.959 -28.877 -44%
Eignir til sölu 26.684 53.552 -26.868 -50%
Eignir alls 1.048.573 1.135.482 -86.909 -8%
Innlán frá fjármálafyrirtækjum 91.018 112.876 -21.858 -19%
Innlán frá viðskiptavinum 440.392 443.590 -3.198 -1%
Lántaka 209.028 277.076 -68.048 -25%
Skilyrt skuldabréf 69.024 60.826 8.198 13%
Aðrar skuldir 26.130 31.485 -5.355 -17%
Skuldir tengdar eignum til sölu 959 9.385 -8.426 -90%
Eigið fé 212.022 200.244 11.778 6%
Skuldir og eigið fé alls 1.048.573 1.135.482 -86.909 -8%

Útlán

Útlán Landsbankans hafa hækkað á fyrri helmingi þessa árs miðað við árin á undan en þar ræður mestu endurflokkun útlána Regins hf., vegna sölu félagsins. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig útlán hafa þróast. Þessi mynd lýsir takmarkaðri eftirspurn eftir lánsfé sem nú hefur verið viðvarandi í nokkur ár. Þegar skoðuð eru útlán eftir atvinnugreinum sést að í mörgum þeirra er um að ræða raunlækkun en útlán til einstaklinga hafa hækkað umfram verðlagsþróun það sem af er árinu. Heildarútlán bankans nema nú 667 milljörðum króna.

Útlán eftir atvinnugreinum
30.06.2012 31.12.2011 Breyting %
Opinberir aðilar 11.691 12.139 -448 -4%
Einstaklingar 184.596 173.223 11,373 7%
Sjávarútvegur 139.504 135.397 4,107 3%
Byggingariðn / fasteignafélög 116.698 101.958 14.740 14%
Þjónusta 51.381 66.121 -14.740 -22%
Verslun 41.478 42.401 -923 -2%
Eignarhaldsfélög 55.227 48.622 6.605 14%
Framleiðsla 23.405 28.008 -4.603 -16%
Landbúnaður 8.997 8.505 492 6%
Upplýsingatækni og samskipti 19.810 20.168 -358 -2%
Annað 14.103 2.588 11.515 445%
  666.890 639.130 27.760 4%

Innlán

Innlán hafa heldur dregist saman á árinu 2012 og nema nú 440 milljörðum króna. Þó vekur athygli að innlán einstaklinga hafa hækkað verulega það sem af er ári. Þetta bendir m.a. til þess að fjárhagsstaða almennings fari batnandi enda sýna tölur Landsbankans að vanskil fara minnkandi. Þó er mikill meirihluti nýrra innlána óverðtryggður, þar sem fæstir treysta sér til að binda sparifé sitt í þrjú ár eða lengur. Innlán frá fyrirtækjum hafa nokkuð lækkað.

Breytingar á rekstri

Landsbankinn seldi 75% hlut í Reginn hf.,dótturfélagi sínu í almennu hlutafjárútboði sem lauk þriðjudaginn 19. júní 2012. Umframeftirspurn var eftir hlutabréfum. Við skráningu hélt Eignarhaldsfélag Landsbankans eftir 25% hlut í Regin. Viðskipti með bréf félagsins í Kauphöll hófust 2. júlí.

Landsbankinn tilkynnti um hagræðingu í rekstri í maí með aðgerðum sem náðu jafnt til höfuðstöðva og útibúa, landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Þær fólu í sér sameiningu og lokun útibúa á Austurlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Reykjavík og sameiningu deilda í höfuðstöðvum bankans. Áætlaður sparnaður er 400 milljónir króna á ári.

Landsbankinn ákvað að efla og breikka starfsemi dótturfélagsins Landsbréfa hf. með því að færa eignasafn Horns hf., sem einnig er dótturfélag bankans, til Landsbréfa. Markmiðið með þessu er að koma á fót einu öflugasta rekstrarfélagi landsins á sviði eigna- og sjóðastýringar og skapa um leið tækifæri til samþættingar á starfsemi þessara fyrirtækja og hagræða í rekstri þeirra.

Stjórn Sparisjóðs Svarfdæla og Landsbankinn hf. náðu í janúar samkomulagi um að Landsbankinn keypti allar eignir og rekstur Sparisjóðsins og haldi áfram fjármálastarfsemi í Dalvíkurbyggð. Samningurinn bíður umsagnar eftirlitsstofnana.

Árshlutareikningur H1 2012

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Þú gætir einnig haft áhuga á
Vilhelm Már Þorsteinsson, Halla Tómasdóttir forseti Íslands, Jón Atli Benediktsson, Jón Þ. Sigurgeirsson, Lilja B. Einarsdóttir, Sóllilja Bjarnadóttir, Aysan Safavi, Adam Janusz Switala og Vigdís Sif Hrafnkelsdóttir.
6. des. 2024
Forseti Íslands ræddi um mikilvægi menntunar á fundi Háskólasjóðs Eimskipafélagsins
Í ávarpi sínu á hátíðarfundi Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands minnti Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, á mikilvægi háskólamenntunar, nýsköpunar og rannsókna. Á fundinum kynntu þrír styrkhafar úr sjóðnum doktorsverkefni.
Kona með hund
4. des. 2024
Ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar inn á íbúðalán endurnýjast sjálfkrafa
Við vekjum athygli á að þau sem eru með virka ráðstöfun á viðbótarlífeyrissparnaði inn á höfuðstól íbúðalána þurfa ekki að sækja sérstaklega um áframhaldandi nýtingu úrræðisins, heldur mun það endurnýjast sjálfkrafa um áramótin.
3. des. 2024
Helgi Áss Íslandsmeistari eftir sigur á Friðriksmóti Landsbankans
Stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson kom, sá og sigraði á Friðriksmóti Landsbankans, Íslandsmótinu í hraðskák, sem fram fór 1. desember í Landsbankanum í Reykjarstræti.
29. nóv. 2024
Ljósin á Hamborgartrénu tendruð laugardaginn 30. nóvember
Ljósin verða tendruð á Hamborgartrénu 30. nóvember kl. 17.00 við hátíðlega athöfn þar sem Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur jólalög við jólatréð.
Austurbakki
22. nóv. 2024
Breytingar á viðmiðum vegna nýrra íbúðalána
Landsbankinn gerir breytingar á hámarkslánstíma nýrra verðtryggðra íbúðalána og veðhlutföllum sem gilda um verðtryggð og óverðtryggð íbúðalán.
Landsbankinn
22. nóv. 2024
Landsbankinn breytir vöxtum
Landsbankinn breytir vöxtum inn- og útlána og tekur ný vaxtatafla gildi mánudaginn 2. desember 2024. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
21. nóv. 2024
Vel heppnaður fundur um leiðir til að stækka fyrirtæki
Hátt í 200 manns sóttu vel heppnaðan fund um hvernig hægt er að stækka fyrirtæki sem var haldinn í Landsbankanum í Reykjastræti 20. nóvember. Á fundinum fjölluðu eigendur og stofnendur þriggja fyrirtækja um hvernig þau stækkuðu sín fyrirtæki og áskoranirnar sem þau tókust á við.
18. nóv. 2024
Landsbankinn styrkir Krýsuvíkursamtökin í nafni Framúrskarandi fyrirtækja
Líkt og undanfarin ár veitti Landsbankinn styrk til góðs málefnis í nafni allra þeirra fyrirtækja sem hlutu viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki. Að þessu sinni rann styrkurinn, fjórar milljónir króna, til Krýsuvíkursamtakanna.
Austurbakki
14. nóv. 2024
Opið söluferli á Greiðslumiðlun Íslands ehf.
Landsbankinn hf., Bál ehf. og Solvent ehf., sem eru eigendur að öllu hlutafé í Greiðslumiðlun Íslands ehf. (GMÍ), hafa ákveðið að bjóða hluti sína til sölu í opnu söluferli.
Austurbakki
12. nóv. 2024
S&P breytir horfum lánshæfismats úr stöðugum í jákvæðar
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings staðfesti í dag lánshæfismat Landsbankans og tilkynnti jafnframt um breytingu á horfum úr stöðugum í jákvæðar. Lánshæfismat bankans er því BBB+/A-2 með jákvæðum horfum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur