Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir fyrstu þrjá mán­uði árs­ins 2023

Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 11,1% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2023. Hagnaður var 7,8 milljarðar króna.
Austurbakki
4. maí 2023 - Landsbankinn
  • Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 11,1% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2023.
  • Hagnaður var 7,8 milljarðar króna.
  • Stöðug þróun í þjónustu og traustur rekstur til margra ára veldur því að rekstrarkostnaður sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna heldur áfram að lækka og er nú 1,4%.
  • Hreinar vaxtatekjur jukust um 27,3% miðað við sama tíma í fyrra. Vaxtamunur er 2,8% og hækkar um 0,4 prósentustig samanborið við sama tímabil árið 2022. Auknar vaxtatekjur eru aðallega tilkomnar vegna stærra útlánasafns og betri ávöxtunar á lausafé bankans. Þá skilar hærra vaxtastig meiri vaxtatekjum en vaxtagjöld hafa jafnframt aukist.
  • Hreinar þjónustutekjur jukust um 15,5% á milli ára sem endurspeglar mikla breidd í þjónustu bankans.
  • Hlutfall kostnaðar af tekjum (K/T) var 33,3% og stendur kostnaður að mestu í stað.
  • Skuldabréfaútgáfur bankans heppnuðust vel. Annars vegar var um að ræða útgáfu á sértryggðum skuldabréfum í úrvalsflokki að fjárhæð 300 milljónir evra og hins vegar útgáfu á víkjandi skuldabréfum í íslenskum krónum að fjárhæð 12 milljarðar króna.
  • Í janúar samdi bankinn við Norræna fjárfestingarbankann um lán til 15 ára að fjárhæð 40 milljónir Bandaríkjadala í tengslum við nýbyggingu bankans við Reykjastræti 6.
  • Bankinn hóf í mars flutninga úr 14 húsum í Kvosinni og Borgartúni undir eitt þak í Reykjastræti 6.
  • Notendur appsins hafa aldrei verið fleiri og ánægja með þjónustu bankans er mikil.
  • Aðalfundur Landsbréfa samþykkti 700 milljóna króna arðgreiðslu fyrir rekstrarárið 2022.

Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2023 nam 7,8 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 3,2 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2022. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 11,1% á ársgrundvelli, samanborið við 4,7% á sama tímabili árið 2022.

Hreinar vaxtatekjur námu 13,1 milljarði króna samanborið við 10,3 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er 27,3% hækkun á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 3,0 milljörðum króna samanborið við 2,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru jákvæðar um 1,2 milljarða króna en voru neikvæðar um 1 milljarð króna á sama tímabili árið 2022. Hreinn hagnaður af fjáreignum og fjárskuldum á gangvirði nam 3,3 milljörðum króna samanborið við 2,1 milljarðs króna tap á sama tímabili árið áður. Virðisrýrnun útlána var um 2,1 milljarður króna samanborið við jákvæðar virðisbreytingar útlána upp á 0,8 milljarða króna á sama tíma á síðasta ári. Virðisrýrnunina má að mestu rekja til þess að við útreikninga á virðisbreytingum er nú gert ráð fyrir heldur verri horfum hvað varðar verðbólgu, stýrivexti og húsnæðisverð en áður. Vanskil hafa ekki aukist og eru sem fyrr í lágmarki.

Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna nam 2,8% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2023 samanborið við 2,4% hlutfall á sama tímabili árið áður. Vaxtamunur árið 2022 var 2,7%.

Rekstrarkostnaður bankans var 7,0 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 6,7 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 4,1 milljarður króna samanborið við 3,8 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 2,9 milljarðar króna, óbreyttur frá sama tímabili árið áður.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) fyrstu þrjá mánuði ársins var 33,3%, samanborið við 54,9% á sama tímabili árið 2022.

Heildareignir bankans jukust um 130 milljarða króna frá áramótum og námu 1.917 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs 2023. Útlán jukust um 32,2 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2023. Í lok fyrsta ársfjórðungs námu innlán frá viðskiptavinum 1.001,6 milljörðum króna, samanborið við 967,9 milljarða króna í árslok 2022, og höfðu því aukist um 33,7 milljarða króna.

Eigið fé Landsbankans var 278,3 milljarðar króna þann 31. mars sl. og eiginfjárhlutfall alls var 25,3%.

Aðalfundur bankans, sem haldinn var þann 23. mars 2023, samþykkti tillögu bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2022 að fjárhæð 8,5 milljarðar króna og að greiðslan yrði tvískipt. Fyrri hluti arðgreiðslunnar að fjárhæð 4.251 milljón króna var greiddur þann 29. mars 2023. Síðari hluti arðgreiðslunnar að fjárhæð 4.251 milljón króna verður greiddur þann 20. september 2023. Þar með munu arðgreiðslur frá árinu 2013 nema samtals 175,1 milljarði króna.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Sterkt uppgjör Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi er til marks um öflugan rekstur og góðan árangur á öllum sviðum. Útlán bankans hafa aukist um 160 milljarða króna á síðustu 12 mánuðum sem skilar meiri vaxtatekjum. Samsetning efnahags bankans er hagkvæmari en áður og vaxtastig hefur hækkað, sem skilar meðal annars betri ávöxtun af lausafé bankans. Fjölgun viðskiptavina, nýir þjónustuþættir og aukin verkefni, til að mynda hjá Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans, skila auknum þjónustutekjum og færsluhirðing bankans, sem var kynnt á fyrsta fjórðungi, hefur fengið afar góðar viðtökur.

Það var einkar ánægjulegt hversu vel tókst til með útgáfu á 300 milljóna evru skuldabréfi sem bankinn gaf út í byrjun mars. Þá tóku innlendir fjárfestar víkjandi skuldabréfi bankans vel og fjárfestu fyrir 12 milljarða króna en áður hafði bankinn samið við Norræna fjárfestingarbankann um langtímalán upp á 40 milljónir Bandaríkjadala í tengslum við vænta BREEAM-umhverfisvottun á nýju húsi bankans við Reykjastræti. Áfram er óróleiki á erlendum fjármálamörkuðum sem hefur neikvæð áhrif á vaxtakjör bankans í erlendri mynt.

Aukin verðbólga og hátt vaxtastig halda áfram að vera áskorun þótt vanskil séu samt sem áður enn mjög lítil. Útlánavöxtur er enn nokkuð kröftugur og skiptir þar mestu að útflutningsgreinarnar standa vel en einnig skapar ör fólksfjölgun eftirspurn eftir húsnæði. Bankinn fjármagnar nú um 4.500 íbúðir á mismunandi byggingarstigum en fasteignalán hafa ekki aukist að sama skapi þar sem kaupendur sækja frekar í verðtryggð lán utan bankakerfisins. Við munum sem fyrr kappkosta að bjóða samkeppnishæf kjör, bæði á útlánum og innlánum.

Mikil tímamót urðu í sögu bankans í mars þegar við hófum flutning úr Kvosinni, þar sem Landsbankinn hefur verið frá árinu 1898, í nýtt hús bankans við Reykjastræti 6. Flutningarnir hafa gengið vel og þegar þeim lýkur síðar í þessum mánuði mun um 80% af starfsfólki bankans vinna saman undir einu þaki, í stað þess að dreifast á 14 hús í Kvosinni og Borgartúni. Starfsaðstaðan í nýja húsinu er framúrskarandi og flutningunum fylgir mikil tilhlökkun og ánægja meðal starfsfólks. Við höfum lengi haft það markmið að skapa vinnustað framtíðarinnar og búa þannig vel að starfsfólki. Krafturinn sem skapast þegar við erum öll undir sama þaki gerir okkur að betri banka og hjálpar okkur við að einfalda líf viðskiptavina. Við fögnum því að í mars notuðu fleiri en nokkru sinni fyrr appið okkar - það er frábært veganesti inn í sumarið. Það er til margs að hlakka og heilmikið framundan hjá okkur í nýrri þjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki.“

Helstu atriði úr rekstri á fyrsta ársfjórðungi (1F) 2023

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á 1F 2023 nam 7,8 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 3,2 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2022.
  • Arðsemi eiginfjár var 11,1% á 1F 2023, samanborið við 4,7% á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 13,1 milljarður króna en þær námu 10,3 milljörðum króna á 1F 2022.
  • Virðisbreyting útlána og krafna var neikvæð um 2,1 milljarð króna á 1F 2023 samanborið við jákvæða virðisbreytingu upp á 0,8 milljarða króna á 1F 2022.
  • Hreinar þjónustutekjur námu 3,0 milljörðum króna en voru 2,6 milljarðar króna á 1F 2022. 
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna var 2,8% á 1F 2023 en var 2,4% á sama tímabili árið áður. 
  • Laun og launatengd gjöld námu 4,1 milljarði króna samanborið við 3,8 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2022.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,9 milljörðum króna á 1F 2023 sem er sama fjárhæð og á sama ársfjórðungi 2022.
  • Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á 1F 2023 var 33,3%, samanborið við 54,9% á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 31. mars 2023 voru 825 en voru 791 á sama tíma fyrir ári. 

Efnahagur:

  • Eigið fé Landsbankans í lok fyrsta ársfjórðungs 2023 var 278,3 milljarðar króna sem er 0,7 milljörðum króna lægra en í árslok 2022.
  • Þann 29. mars 2023 var greiddur út fyrri hluti arðgreiðslu til hluthafa að fjárhæð 4.251 milljón króna. Síðari hluti arðgreiðslunnar að fjárhæð 4.251 milljón króna verður greiddur þann 20. september 2023.
  • Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) í lok fyrsta ársfjórðungs 2023 var 25,3% en var 24,7% í lok árs 2022. Það er verulega umfram 20,8% eiginfjárkröfufjármálaeftirlits Seðlabankans.
  • Heildareignir bankans námu 1.917 milljörðum króna í lok mars 2023.
  • Útlán jukust um 32,2 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2023. Útlán til einstaklinga jukust um 6,8 milljarða króna og útlán til fyrirtækja um 31,6 milljarða króna en þar af eru 6,2 milljarðar króna áhrif gengis.
  • Innlán viðskiptavina námu 1.001,6 milljörðum króna í lok mars 2023, samanborið við 967,9 milljarða króna í lok árs 2022.
  • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu sinni í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 235% í lok mars 2023 samanborið við 134% í lok árs 2022.
  • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila voru 0,3% af útlánum.

Helstu niðurstöður

Fjárhæðir í milljónum króna

  1F 2023 1F 2022 2022 2021
Hagnaður eftir skatta 7.756 3.216 16.997 28.919
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 11,1% 4,7% 6,3% 10,8%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna 2,8% 2,4% 2,7% 2,3%
Rekstarkostnaður í hlutfalli af meðalstöðu eigna 1,40% 1,42% 1,36% 1,44%
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T)* 33,3% 54,9% 46,8% 43,2%
  31.03.2023 31.03.2022 31.12.2022 31.12.2021
Heildareignir 1.916.993 1.733.644 1.787.024 1.729.798
Útlán til viðskiptavina 1.576.589 1.416.504 1.544.360 1.387.463
Innlán frá viðskiptavinum 1.001.580 922.566 967.863 900.098
Eigið fé 278.343 265.310 279.091 282.645
Eiginfjárhlutfall alls 25,3% 24,3% 24,7% 26,6%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 145% 143% 132% 142%
Heildarlausafjárþekja 235% 142% 134% 179%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,3% 0,2% 0,2% 0,3%
Meðalstöðugildi 826 797 843 890
Stöðugildi 825 791 813 816

*K/T - Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur - virðisbreytingar útlána).

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
10. sept. 2024
Landsbankinn gefur út víkjandi forgangsbréf í sænskum og norskum krónum
Landsbankinn hefur lokið sölu á skuldabréfum með breytilegum vöxtum að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna og 250 milljónir norskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og með heimild til innköllunar að þremur árum liðnum.
Austurbakki
18. júlí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Austurbakki
22. mars 2024
Bankasýslan var upplýst um áform Landsbankans um að kaupa TM
Bankaráð Landsbankans hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins frá 18. mars sl. þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum um kaup bankans á TM tryggingum.
Austurbakki
19. mars 2024
Aðalfundi Landsbankans frestað til 19. apríl
Á fundi bankaráðs Landsbankans þann 19. mars 2024 var ákveðið að fresta aðalfundi bankans, sem vera átti miðvikudaginn 20. mars 2024. Að höfðu samráði við Bankasýslu ríkisins var ákveðið að halda aðalfundinn föstudaginn 19. apríl.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur