Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir fyrri helm­ing árs­ins 2021

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 14,1 milljarð króna á fyrri helmingi ársins 2021 samanborið við 3,3 milljarða króna tap á sama tímabili árið 2020. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,8% á ársgrundvelli, samanborið við -2,7% á sama tímabili 2020.
22. júlí 2021
  • Hagnaður Landsbankans á öðrum ársfjórðungi 2021 var 6,5 milljarðar króna.
  • Afkoma bankans á fyrri helmingi ársins 2021 var jákvæð um 14,1 milljarð króna.
  • Arðsemi eiginfjár á fyrri helmingi ársins var 10,8%.
  • Kostnaðarhlutfall (K/T) var 43,7% og hagkvæmni í rekstri hélt áfram að aukast.
  • Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði er tæplega 39% og hefur aldrei verið hærri.
  • Íbúðalán hafa aukist um 14% frá áramótum og hefur hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði aldrei verið meiri.
  • Í nær hverri viku í rúmlega þrjú ár hefur Landsbankinn boðið lægstu breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum sem eru í boði fyrir alla.
  • Þjónustutekjur jukust um 21% frá áramótum, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf.
  • Áskriftum að sjóðum Landsbréfa fjölgaði um 19% og samningum um þjónustu vegna verðbréfaviðskipta hjá bankanum fjölgaði um 34%.
  • Eignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans eru 643 milljarðar króna sem er um 90 milljarða króna aukning frá áramótum.
  • Hátt í 1.100 fyrirtæki komu í viðskipti við Landsbankann á fyrri helmingi ársins.
  • Um 4.500 reikningar hafa verið stofnaðir í gegnum Sparað í appi frá því það var kynnt í lok mars.

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 14,1 milljarð króna á fyrri helmingi ársins 2021 samanborið við 3,3 milljarða króna tap á sama tímabili árið 2020. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,8% á ársgrundvelli, samanborið við -2,7% á sama tímabili 2020.

Á fyrri árshelmingi námu hreinar vaxtatekjur 19 milljörðum króna sem er sama fjárhæð og árið áður. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 4,4 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru 6,9 milljarðar króna en voru neikvæðar um 13,3 milljarða króna á sama tímabili árið 2020. Breytingin á milli ára skýrist af 2,8 milljarða króna jákvæðri virðisbreytingu útlána, samanborið við virðisrýrnun upp á 13,4 milljarða króna á sama tímabili árið á undan sem rekja má til þeirrar óvissu sem ríkti vegna Covid-19-faraldursins, sem þá var nýhafinn. Jákvæðar virðisbreytingar á fyrri helmingi ársins má rekja til þess að efnahagssamdráttur árið 2020 reyndist minni en útlit var fyrir og horfur eru á jákvæðum viðsnúningi á árinu 2021.

Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna nam 2,4% á fyrri helmingi ársins 2021 en var 2,5% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður var 13 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 13,2 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 7,5 milljarðar króna og lækka þau um 153 milljónir króna á milli tímabila. Annar rekstrarkostnaður var 4,5 milljarðar króna samanborið við 4,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á fyrri helmingi ársins 2021 var 43,7%, samanborið við 54,1% á sama tímabili árið 2020.

Heildareignir Landsbankans jukust um 113 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.677 milljörðum­ króna í lok fyrri helmings ársins 2021. Útlán jukust um 54,6 milljarða króna en útlánaaukninguna á fyrri helming ársins má rekja til aukningar á lánum einstaklinga. Í lok fyrri helmings ársins 2021 voru innlán frá viðskiptavinum 843 milljarðar króna, samanborið við 793 milljarða króna í árslok 2020 og höfðu því aukist um 50 milljarða króna.

Eigið fé Landsbankans var 267,9 milljarðar króna þann 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 25,1%.

Árshlutareikningur samstæðu 6M 2021

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Uppgjör bankans fyrstu sex mánuði ársins er afar gott; arðsemi eiginfjár er góð, kostnaður lækkar og traust afkoma var af öllum starfsþáttum. Merkjanleg aukning er í eignastýringu og markaðshlutdeild bankans hefur aldrei verið hærri.

Um mitt ár 2020 settum við verulegar fjárhæðir í varúðarsjóð vegna mögulegra útlánatapa en vegna betri stöðu í efnahagslífinu og fárra vanefnda eru virðisbreytingar útlána nú jákvæðar og varúðarsjóður lækkar á árinu. Bankinn er eftir sem áður í góðri stöðu til að takast á við áframhaldandi óvissu og bregðast við áhrifum Covid-19-faraldursins.

Góð rekstrarniðurstaða undanfarinna ára gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum betri kjör. Undanfarin þrjú ár höfum við nær samfellt boðið lægstu óverðtryggðu íbúðalánavextina. Um leið höfum við lagt mikla áherslu á skjóta og góða þjónustu og höldum áfram að bæta við nýjungum. Nú geta viðskiptavinir fengið betri kjör á lánum á föstum vöxtum ef veðhlutfall er undir 60% og enn betri kjör ef veðhlutfall er lægra en 50%. Einnig bjóðum við nú upp á að festa vexti í appinu sem einfaldar viðskiptavinum lífið til muna.

Í heimsfaraldrinum höfum við stutt vel við bakið á ferðaþjónustufyrirtækjum sem eru í viðskiptum við bankann og öðrum geirum sem hafa orðið fyrir áföllum. Við lítum svo á að það sé sérlega mikilvægt að fyrirtæki séu sem best í stakk búin til að endurráða fólk og hefja starfsemi af fullum krafti eftir erfitt tímabil. Við höfum verið leiðandi á byggingarmarkaði og undanfarin ár hefur bankinn fjármagnað þúsundir íbúða og haldið áfram að byggja upp traust samstarf við leiðandi verktakafyrirtæki. Viðskipti við sjávarútvegsfyrirtæki hafa aukist og það er óhætt að segja að hápunktur ársins í sjávarútvegi, hingað til, hafi verið sérstaklega vel heppnað hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar, sem Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði umsjón með.

Undanfarið ár hefur áhugi almennings á að ávaxta sparifé sitt með kaupum í verðbréfasjóðum og hlutabréfum aukist til muna. Á fyrri hluta ársins voru tveir nýir sjóðir stofnaðir af dótturfélagi bankans, Landsbréfum. Sjóðurinn Eignadreifing sjálfbær bættist í flokk eignadreifingarsjóða og er hann opinn öllum í netbanka Landsbankans. Brunnur vaxtarsjóður hóf starfsemi eftir að í hann var safnað 8,3 milljörðum króna frá fagfjárfestum. Á næstunni mun svo þriðji sjóðurinn, Horn IV, líta dagsins ljós en það er nýr 15 milljarða króna framtakssjóður sem kemur í kjölfar velgengni fyrri Hornsjóða og er ætlaður fagfjárfestum. Velgengni  í eignastýringu er til marks um það traust sem fjárfestar sýna bankanum og Landsbréfum.

Í byrjun sumars heimsótti ég allar starfsstöðvar bankans og það var einstaklega gaman að finna hversu mikill kraftur er í Landsbankafólki. Nýlega gerðum við breytingar sem gera það að verkum að einfaldara er fyrir starfsfólk að veita viðskiptavinum þjónustu og ráðgjöf, óháð því hvar þeir eru staddir á landinu. Þessar breytingar heppnuðust gríðarlega vel og styðja mjög vel við stefnu okkar um að vera til staðar um allt land, um leið og við höldum áfram að veita framúrskarandi stafræna bankaþjónustu. Starfsánægja í bankanum hefur aldrei mælst hærri, sem helst í hendur við að viðskiptavinir Landsbankans hafa tvö ár í röð verið þeir ánægðustu á bankamarkaði, samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni.

Við erum með góð tök á rekstri bankans, skilum góðum árangri til hluthafa og náum vel til viðskiptavina. Ný stefna bankans er sterkt leiðarljós. Við erum í stöðugri framþróun og við viljum ná árangri. Það er Landsbanki nýrra tíma.“

Helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi (2F) 2021

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á 2F 2021 nam 6,5 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 341 milljón króna á sama ársfjórðungi árið 2020.
  • Arðsemi eiginfjár var 9,8% á 2F 2021, samanborið við 0,6% á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 10,3 milljarðar króna en þær námu 9,5 milljörðum króna á 2F 2020.
  • Virðisbreyting útlána og krafna var jákvæð um 293 milljónir króna á 2F 2021 en var neikvæð um 8,2 milljarða króna á 2F 2020.
  • Hreinar þjónustutekjur námu 2,3 milljörðum króna en voru 1,7 milljarðar króna á 2F 2020.
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna var 2,4% á 2F 2021 en var 2,5% á sama tímabili árið áður.
  • Laun og launatengd gjöld námu 3,7 milljörðum króna samanborið við 3,8 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2020.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,2 milljörðum króna á 2F 2021 og var einnig 2,2 milljarðar króna á sama ársfjórðungi 2020.
  • Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á öðrum ársfjórðungi 2021 var 41,7% samanborið við 42,7% á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 30. júní 2021 voru 844 en voru 872 á sama tíma fyrir ári.

Efnahagur:

  • Eigið fé Landsbankans nam í lok júní 2021 267,9 milljörðum króna.
  • Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) þann 30. júní 2021 var 25,1%, og er óbreytt frá árslokum 2020. Það er verulega umfram 18,9% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlits Seðlabankans.
  • Heildareignir bankans námu 1.677 milljörðum króna í lok júní 2021.
  • Útlán jukust um 54,6 milljarða króna á fyrri helmingi ársins 2021. Útlán til einstaklinga jukust um 74,1 milljarð króna en útlán til fyrirtækja drógust saman um 19,5 milljarða króna.
  • Innlán viðskiptavina námu 843 milljörðum króna í lok júní 2021, samanborið við 793 milljarða króna í lok árs 2020.
  • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu sinni í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 180% í lok júní 2021 samanborið við 154% í lok árs 2020.
  • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila voru 0,4% af útlánum. Vegna tímabundinna Covid-19-úrræða og frestunar á greiðslum má ætla að vanskil mælist minni en ella.

Fjárhæðir í milljónum króna

  1H 2021 1H 2020 2F 2021 2F 2020
Hagnaður (tap) eftir skatta 14.105 (3.287) 6.487 341
Arðsemi eiginfjár eftir skatta 10,8% -2,7% 9,8% 0,6%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna 2,4% 2,1% 2,5% 2,5%
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T)* 43,7% 54,1% 41,7% 42,7%
 
  30.06.2021 30.06.2020 31.12.2020 31.12.2019
Heildareignir 1.677.297 1.501.110 1.564.177 1.426.328
Útlán til viðskiptavina 1.328.031 1.198.210 1.273.426 1.140.184
Innlán frá viðskiptavinum  842.624 758.700 793.427 707.813
Eigið fé  267.871 244.447 258.255 247.734
Eiginfjárhlutfall alls 25,1% 24,9% 25,1% 25,8%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 140% 121% 132% 143%
Heildarlausafjárþekja 180% 191% 154% 161%
Lausafjárþekja erlendra mynta 420% 476% 424% 769%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,4% 0,8% 0,8% 0,8%
Stöðugildi 844 872 878 893
 

*K/T - Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur - virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri bankans á fyrri helmingi ársins 2021

  • Markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði var tæplega 39% í lok júní 2021, samkvæmt gögnum bankans, og hefur aldrei verið hærri. Bankinn hefur verið með mestu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði frá árinu 2014.
  • Íbúðalán hafa aukist um 14% frá áramótum og hefur hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði aldrei verið meiri.
  • Landsbankinn mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu árið 2020, annað árið í röð.
  • Um 4.500 reikningar hafa verið stofnaðir í gegnum Sparað í appi frá því það var kynnt til sögunnar í lok mars 2021. Flestir reikningar eru stofnaðir til að spara fyrir ferðalögum, fjölskylduna og heimilið.
  • Hátt í 1.100 fyrirtæki komu í viðskipti við Landsbankann á fyrri helmingi ársins. Í flestum tilvikum skráðu félögin sig sjálf í viðskipti í gegnum vef eða app bankans. Innskráningarferlið er einfalt og tekur í flestum tilvikum innan við 90 sekúndur.
  • Hreinar þjónustutekjur bankans jukust um 21% á fyrri helmingi ársins sem skýrist af fjölgun viðskiptavina og auknum umsvifum, ekki síst í eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf.
  • Samningum um þjónustu vegna verðbréfaviðskipta fjölgaði um 34% miðað við sama tíma í fyrra. Eignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans hafa vaxið um tæplega 90 milljarða króna frá áramótum, eða um 16%.
  • Áskriftum að sjóðum Landsbréfa hf., dótturfélags Landsbankans, hefur fjölgað um 19% frá áramótum.
  • Á fyrri helmingi ársins tóku 55% fleiri lán til að kaupa vistvæna bíla en á sama tímabili í fyrra.
  • Í júlí útnefndi alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney Landsbankann besta bankann á Íslandi 2021, þriðja árið í röð. Alþjóðlega fjármálatímaritið The Banker hafði áður valið Landsbankann besta banka á Íslandi árið 2020.
  • Í júlí var sjálfbærnimerki Landsbankans veitt í fyrsta sinn. Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. fékk sjálfbærnimerkið vegna MSC-vottaðra fiskveiða.
  • Sveitarfélagið Árborg gaf í júní út fyrsta íslenska sjálfbærniskuldabréfið og heppnaðist útgáfan vel. Landsbankinn annaðist ferlið frá upphafi til enda, frá því að veita ráðgjöf við gerð sjálfbærniumgjarðar sveitarfélagsins, til sölu skuldabréfa og töku þeirra til viðskipta.
  • Landsbankinn á Ísafirði flutti í júní í nýtt og hentugra húsnæði í Hafnarstræti 19. Bankinn tók hæsta tilboði sem barst í gamla Landsbankahúsið við Pólgötu 1 og hefur kaupsamningur verið undirritaður.
  • Í júní lauk bankinn við að mæla kolefnislosun frá lánasafni sínu, fyrstur íslenskra fjármálafyrirtækja.
  • Eignadreifing sjálfbær er nýr fjárfestingarsjóður Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans, sem tók til starfa í júní.
  • Í maí var greint frá því að Eignastýring Landsbankans hefði gert samstarfssamning við bandaríska fjárfestingarbankann Goldman Sachs.
  • Landsbankinn fær bestu einkunn sína hingað til, eða 9,7 stig af 100, í uppfærðu UFS-áhættumati frá Sustainalytics og er nú í 1. sæti af 423 bönkum sem fyrirtækið hefur mælt í Evrópu. Matsfyrirtækið telur því hverfandi áhættu á að bankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta.
  • Í ítarlegri hagspá Hagfræðideildar Landsbankans fyrir árin 2021-2023, sem var birt í maí, var m.a. gert ráð fyrir að landsframleiðsla vaxi um 5% á þessu ári og að ferðaþjónustan taki fyrr við sér en áður var reiknað með.
  • Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði umsjón með vel heppnuðu hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar hf. sem stóð 10.-12. maí.
  • Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 24. mars 2021, samþykkti að greiða um 4,5 milljarða króna í arð til hluthafa. Það samsvarar um 43,7% af hagnaði ársins 2020. Arðgreiðslur bankans frá árinu 2013 nema samtals um 146 milljörðum króna.
  • Landsbankinn gaf í febrúar út sín fyrstu grænu skuldabréf í evrum. Skuldabréfin voru að fjárhæð 300 milljónir evra og báru lægstu vexti sem bankinn hefur fjármagnað sig á.
  • Í febrúar kolefnisjafnaði Landsbankinn starfsemi sína fyrir árið 2020 í samstarfi við Natural Capital Partners og hlaut hina alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun.
  • Fyrsta sjálfbæra fjármálaumgjörð bankans var gefin út í janúar og er hún vottuð af alþjóðlega matsfyrirtækinu Sustainalytics.
  • Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings birti í janúar lánshæfismat fyrir sértryggð skuldabréf útgefin af Landsbankanum. Lánshæfismat bréfanna var A- með stöðugum horfum. Þetta var í fyrsta skipti sem alþjóðlegt matsfyrirtæki gefur út lánshæfiseinkunn fyrir sértryggð skuldabréf íslensks banka.

Árshlutareikningur samstæðu 6M 2021

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
13. des. 2024
Góð kjör í útgáfu víkjandi skuldabréfa
Landsbankinn lauk í dag útboði víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar 2 (e. Tier 2).
Austurbakki
23. okt. 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 nam 26,9 milljörðum króna eftir skatta, þar af 10,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 11,7% samanborið við 10,5% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
10. sept. 2024
Landsbankinn gefur út víkjandi forgangsbréf í sænskum og norskum krónum
Landsbankinn hefur lokið sölu á skuldabréfum með breytilegum vöxtum að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna og 250 milljónir norskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og með heimild til innköllunar að þremur árum liðnum.
Austurbakki
18. júlí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur