Landsbankinn og Kvika banki hafa komist að samkomulagi um að hefja einkaviðræður um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. („TM“) á grundvelli kauptilboðs sem bankinn lagði fram í allt hlutafé félagsins þann 15. mars sl. Möguleg kaup eru m.a. háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Með því að bæta tryggingarekstri við starfsemi bankans getum við boðið viðskiptavinum okkar enn betri og fjölbreyttari þjónustu. Kaup á TM er góð fjárfesting sem styrkir rekstur bankans og gerir hann verðmætari til framtíðar, enda er TM traust tryggingafélag með gott og reynslumikið starfsfólk. Saman erum við með öfluga starfsemi um allt land og í góðri stöðu til að sækja fram. Við vitum hvernig á að veita framúrskarandi fjármálaþjónustu, eins og sést m.a. á því að við höfum verið efst á bankamarkaði í Íslensku ánægjuvoginni fimm ár í röð.“
Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, segir:
„Landsbankinn starfar á samkeppnismarkaði og það skiptir verulegu máli að bankinn sé áfram verðmæt eign fyrir hluthafa. Í því felst m.a. að meta og sækja tækifæri á fjármálamarkaði til að viðhalda og auka verðmæti bankans. Bankaráð og stjórnendur hafa um nokkurt skeið skoðað kosti þess að bæta tryggingum við fjölbreytta þjónustu bankans, enda fer tryggingastarfsemi og rekstur á stórum viðskiptabanka vel saman. Við teljum að með kaupum á TM muni bæði félögin eflast og styrkjast.“
Upplýsingar um tilboð og efnahag
Tilboð bankans hljóðar upp á 28,6 milljarða króna. Endanleg greiðsla fyrir félagið er háð kaupverðsaðlögun á þeim degi sem bankinn tekur við rekstri félagsins.
Um síðustu áramót voru heildareignir Landsbankans 1.961 milljarður króna og eigið fé var 304 milljarðar króna. Hagnaður bankans árið 2023 nam 33,6 milljörðum króna og samkvæmt tillögu til aðalfundar mun bankinn greiða 16,5 milljarða króna í arð á þessu ári. Ekki er gert ráð fyrir að kaupin hafi áhrif á arðgreiðslustefnu bankans, sem er að greiða a.m.k. 50% af hagnaði fyrra árs í arð til hluthafa.