Landsbankinn er eitt af yfir 100 fjármálafyrirtækjum sem hafa skuldbundið sig til að veita upplýsingar um hvernig starfsemi þeirra hefur áhrif á náttúrufar og líffræðilega fjölbreytni. Fyrirtækin munu birta náttúrutengdar fjárhagsupplýsingar í samræmi við leiðbeiningar alþjóðlega starfshópsins TNFD (Taskforce on Nature-related Financial Disclosures).
Undanfarin ár hafa loftslagsmálin átt óskipta athygli fjármálageirans í sjálfbærnitengdum málum. Málefni náttúrunnar og líffræðilegrar fjölbreytni hafa nú fengið meiri athygli, sem er tímabært, enda eru málefnin náskyld og vinna þarf að þeim báðum í einu. Leiðbeiningum TNFD er ætlað að stuðla að því að fyrirtæki geti lagt sitt af mörkum til að ná markmiðum samkomulags sem náðist á COP15-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Við í Landsbankanum leggjum áherslu á að þekkja áhrifin af starfsemi okkar og þá áhættu sem við stöndum frammi fyrir. Við teljum að með því safna, greina og birta náttúrutengdar fjárhagsupplýsingar, í samræmi við leiðbeiningar TNFD, munum við með tíð og tíma geta kortlagt áhættu bankans vegna breytinga á náttúrufari. Upplýsingarnar nýtast meðal annars við fjármögnun bankans enda horfa fjárfestar nú meira til áhættu fjármálafyrirtækja vegna breytinga á náttúrufari.“
Upplýsingar um fyrirtækin sem hafa skuldbundið sig til að hefja fruminnleiðingu á leiðbeiningum TNFD voru birtar í gær, 16. janúar 2024, í tengslum við fund Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos (World Economic Forum). Alls taka um 320 fyrirtæki þetta fyrsta skref, þar af rúmlega 100 fjármálafyrirtæki. Landsbankinn mun birta náttúrutengdar fjárhagsupplýsingar frá og með árinu 2026.