Landsbankinn gefur út græn skuldabréf í evrum - febrúar 2021
Skuldabréfin eru gefin út til rúmlega fjögurra ára og með lokagjalddaga í maí 2025. Skuldabréfin voru seld til fjárfesta í Bretlandi, meginlandi Evrópu og á Norðurlöndunum. Útgáfan náði til breiðari fjárfestahóps en áður og þar á meðal eru sérhæfðir fjárfestar sem horfa sérstaklega til sjálfbærnimála.
Skuldabréfin verða gefin út undir EMTN-útgáfuramma bankans með vísan í sjálfbæra fjármálaumgjörð bankans sem vottuð er af Sustainalytics. Stefnt er að töku skuldabréfanna til viðskipta í írsku kauphöllinni þann 25. febrúar 2021.
Umsjónaraðilar voru ABN AMRO, BofA Securities, Citi og Deutsche Bank.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Við erum gríðarlega ánægð með viðtökurnar sem fyrsta græna skuldabréfaútgáfa bankans fær frá alþjóðlegum fjárfestum. Þetta eru lægstu vextir sem bankinn hefur fjármagnað sig á og álagið með því lægsta sem við höfum fengið á erlenda útgáfu. Með grænni skuldabréfaútgáfu fáum við meiri breidd í fjárfestahópinn og þannig aukast möguleikar okkar á góðu aðgengi að fjármagni sem mun hjálpa okkur m.a. að styðja við íslenskar útflutningsgreinar.
Það er augljóst tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og banka að vera í fremstu röð í sjálfbærni og mikilvægt skref fyrir Landsbankann að geta veitt græna fjármögnun til fyrirtækja sem hafa náð langt í þeim efnum. Við höfum unnið statt og stöðugt að því að auka sjálfbærni í rekstri bankans og útgáfan er mikilvægur hluti af þeirri vegferð. Bankinn kynnti nýlega gott uppgjör fyrir árið 2020 og þessi útgáfa er frábær byrjun á árinu fyrir Landsbanka nýrra tíma.“