Besti banki á Íslandi að mati Euromoney
Euromoney útnefnir árlega bestu banka víða um heim og veitir þeim viðurkenninguna Award for Excellence. Í umsögn Euromoney kemur fram að á árinu 2019 hafi verið farið að draga úr efnahagsbatanum á Íslandi sem hafi að mestu byggt á vexti ferðaþjónustu. Áhrif kórónuveirunnar á alþjóðleg ferðalög og ferðaþjónustu séu því mikil áskorun fyrir íslenska banka. Landsbankinn hafi staðið betur í aðdraganda faraldursins og virðist í betri stöðu til að takast á við erfiðleika en keppinautar hans, einkum vegna mikillar skilvirkni í rekstri bankans, en kostnaðarhlutfalll á árinu 2019 hafi einungis verið 43%. Euromoney bendir einnig á að Landsbankinn hafi á árinu boðið viðskiptavinum sínum upp á Apple Pay, Fitbit Pay og Garmin Pay, tekið í gagnið markaðstorg fyrir forritaskil (API) sem hluta af opnu bankakerfi og sjálfsafgreiðslu fyrir skammtímalán.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Við erum mjög ánægð að Euromoney hafi útnefnt Landsbankann sem besta banka á Íslandi, annað árið í röð. Áhersla okkar á að veita framúrskarandi fjármálaþjónustu, jafnt með öflugum stafrænum lausnum sem persónulegri þjónustu, hefur leitt til aukinnar ánægju viðskiptavina sem endurspeglast m.a. í því að bankinn var í efsta sæti í Íslensku ánægjuvoginni. Viðurkenning Euromoney hvetur okkur til að halda áfram á sömu braut, að veita frábæra þjónustu en um leið sjá til þess að bankinn sé rekinn með hagkvæmum og traustum hætti.“