Kolefnislosun frá lánasafni dróst saman um 8%
Upplýsingarnar sem um ræðir eru tilvísunartafla og viðauki samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) Standards fyrir árið 2023 og útreikningar á fjármagnaðri losun bankans samkvæmt aðferðafræði Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF) fyrir árið 2022. Upplýsingarnar eru allar aðgengilegar á vef bankans.
Landsbankinn er stærsti viðskiptabanki landsins og útlán okkar ná til einstaklinga og fyrirtækja um allt land og í öllum atvinnugreinum. Við höfum lagt áherslu á að skilja áhrif bankans á umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) og hvar losun af starfsemi bankans birtist. Ísland er aðili að Parísarsamkomulaginu auk þess sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040 og það er ljóst að öll fyrirtæki á Íslandi eru þátttakendur í því stóra verkefni.
Landsbankinn er að vinna í að setja sér vísindalegt markmið um samdrátt í losun staðfest af Science Based Targets initiative (SBTi). Viðmiðunarár í þeim markmiðum er árið 2019 vegna þess að losunartölur útlána áranna 2020 og 2021 eru nokkuð undir losunartölum bankans fyrir árið 2019 en faraldurinn sem skók heimsbyggðina á árunum 2020 og 2021 hafði þau áhrif að samdráttur varð í fjármagnaðri losun samfara samdrætti í atvinnulífinu. Því er sérstaklega áhugavert að skoða fjármagnaða losun ársins 2022 í samanburði við grunnárið 2019 þar sem umsvif atvinnulífsins voru þá sambærileg. Losun frá útlánasafni bankans dróst saman um 8% árið 2022 miðað við grunnárið 2019 en hún var 247 ktCO2í árið 2022.
Í UFS-áhættumati Sustainalytics árið 2023 var talin hverfandi áhætta á að bankinn yrði fyrir fjárhagslegum áhrifum tengdum UFS-þáttum. Bankinn fékk 8,5 í einkunn og er í efsta 1% af svæðisbundnum bönkum í Evrópu sem Sustainalytics metur. Í nýjasta UFS-mati Reitunar fékk bankinn framúrskarandi einkunn og er í flokki A3.