Varist gylliboð á netinu um skjótfenginn gróða
Svikararnir beita ýmsum aðferðum til að fá fólk til liðs við sig. Fólki er t.d. boðið starf sem virðist við fyrstu sýn lögmætt og það getur sinnt á netinu. Í öðrum tilvikum er burðardýrum gefin fyrirheit um ástarsamband ef viðkomandi getur aðstoðað við fjármagnsfærslur eða fólki sagt að það eigi von á óvæntum arfi, lottóvinningi eða endurgreiðslu á skatti.
Hvað eru burðardýr í peningaþvætti?
Burðardýr í peningaþvætti (e. money mule) er einstaklingur sem aðstoðar við að millifæra illa fengið fé fyrir hönd annarra. Burðardýrið fær greitt fyrir þjónustuna en þóknunin er iðulega óverulegur hluti fjárhæðarinnar.
Í mörgum tilfellum átta burðardýrin sig ekki á því að þau eru þátttakendur í peningaþvætti, fjársvikum eða öðrum lögbrotum.
Megingerðir gylliboða
Með mikilli einföldun má segja að helstu aðferðir svikahrappa við að ráða burðardýr séu eftirfarandi:
- Fölsk atvinnuauglýsing: „Kjörið atvinnutækifæri“ er auglýst á vefsíðu eða í tölvupósti. Starfið er oft þess eðlis að því má sinna að heiman. Á ensku er það nefnt work-from-home (WFH). Reynt er að ná til fólks í fjárþörf, s.s. námsfólks. Einnig er sótt að eldra fólki og einstæðingum. Að öðru leyti er undirbúningur yfirleitt óvandaður og markhópurinn jafnvel byggður á slembiúrtaki. Þó finnast vandaðar útfærslur, dæmi um slíkt er svonefnd hulduverslun sem fjallað er um hér að neðan.
- Loforð um ástarsamband: Fórnarlambið er hvatt til þátttöku í peningaþvætti gegn fyrirheitum um ástarsamband. Fórnarlambið telur sig í samskiptum við aðlaðandi manneskju, skipst er á myndum og undirbúningurinn kann að standa lengi yfir.
- Óvæntur arfur, lottóvinningur og þess háttar: Óvæntir happdrættis- og lottóvinningar á netinu eru ein af eldri og augljósari svikabrögðunum í bransanum. Hvernig vinnur maður í happdrætti án miða eða þátttöku yfirhöfuð? Bíti einhver á agnið kemur í ljós að fyrst þarf að greiða ýmis gjöld áður en hægt er að greiða út vinninginn. Málið vindur síðan upp á sig, sífellt fleiri gjaldaliðir skjóta upp kollinum, standa þarf skil á skattgreiðslum, tryggingagreiðslum, margvíslegum óvæntum umsýslukostnaði vegna skjalameðhöndlunar, stjórnunarkostnaði, flutningsgjöldum og svo framvegis. En aldrei kemur vinningurinn.
Tilbúið dæmi um falska atvinnuauglýsingu á netinu:
Hvernig á að bregðast við?
Þegar gylliboð berst á netinu verður að beita heilbrigðri skynsemi. Það sem hljómar of gott til að vera satt er líklega ekki satt.
Sá sem sér grunsamlega atvinnuauglýsingu á netinu þarf m.a. að velta eftirfarandi fyrir sér:
- Hvers vegna er starfsviðtals ekki krafist?
- Hvers vegna er ekki óskað eftir starfsferlilsskrá, prófskírteinum eða öðrum skjölum sem atvinnurekendur vilja yfirleitt fá?
- Hvers vegna vill einhver sem þú hefur aldrei hitt fela þér varðveislu fjármuna sinna?
- Hvers vegna þarf að flytja peningana í gegnum Ísland?
Svikahrapparnir leita sífellt nýrra leiða til að svíkja út fé. Svikatilraunirnar verða sífellt vandaðri og útsmognari. Því er rétt að ítreka eftirfarandi leiðbeiningar:
- Verum á varðbergi gagnvart óvæntum tilboðum.
- Verum á varðbergi gagnvart fólki og fyrirtækjum sem erfitt er að sanna deili á.
- Verum á varðbergi gagnvart fólki eða samtökum sem óska eftir fjárhagsaðstoð.
- Veitum öðrum aldrei bankaupplýsingar okkar.
- Það er óeðlilegt ef einhver hefur samband við þig og óskar eftir upplýsingum um fjárhagslega stöðu þína.
Það getur verið erfitt að átta sig á því hvort um svikatilraun sé að ræða. Hafa þarf augun opin fyrir eftirfarandi vísbendingum:
- Eftir að sambandi er komið á vilja svikarar færa umræðuna á annan vettvang, til dæmis á spjallsíðu, á SMS, í tölvupósta eða í samskiptaforrit.
- Tungumálakunnáttu og stafsetningu er ábótavant, málfræðinotkun er undarleg eða setningaskipan úr skorðum.
- Öll samskipti eru á netinu.
- Fyrirtækið notar eingöngu vefpóstþjóna (Gmail, Yahoo, o.s.frv.)
- Viðkomandi vill vita allt um þig en veitir engar upplýsingar á móti um sjálfan sig.
- Þú ert ráðin(n) til óljósra starfa. Starfslýsing er loðin eða ekki til staðar.
- Hvorki er krafist menntunar né starfsreynslu.
- Launin eru tiltölulega há í hlutfalli við vinnuframlagið.
Fjögur skref peningaþvættis með burðardýri:
Hulduverslun er ný aðferð við peningaþvætti
Hulduverslun (e. Secret-Shopper eða Mystery-Shopper) er tiltölulega ný aðferð við peningaþvætti. Í hulduverslun er einstaklingi (burðardýrinu) boðin þægileg heimavinna á netinu við það eitt að versla í tiltekinni netverslun sem er raunverulega til og er fullkomlega lögmæt. Um er að ræða fölsk greiningarfyrirtæki sem gefa sig út fyrir að stunda þjónustukannanir með því að stunda hulduverslun á netinu. Tilgangurinn er sagður vera sá að meta gæði á þjónustu og vörumframboði netverslana. Þetta lítur allt vel út, lénið hjá greiningarfyrirtækinu virðist traust, útlitið er sannfærandi og umgjörðin öll fáguð.
Svindlið gengur út á að burðardýrið fær myndarlega fjárhæð lagða inn á bankareikninginn sinn. Burðardýrið er síðan beðið um að nota fjármunina til að kaupa gjafakort eða til að fylla á fyrirframgreitt greiðslukort sem nota skal í netversluninni. Því er jafnvel lofað að þátttakandinn megi halda vörunum.
Burðardýrið fær skýr fyrirmæli frá „greiningarfyrirtækinu“ um að aðhafast ekkert fyrr en fyrirtækið hefur haft samband. Þetta er t.d. sagt vera til að stjórna tímasetningunni. Í því samtali er óskað eftir upplýsingum um nýju greiðslukortin en það sé nauðsynlegt til að bæta greininguna. Sömuleiðis sé það gert til að auka öryggið og til að geta endurgreitt netversluninni. Skömmu síðar er svo millifært út af nýju kortunum og fórnarlambið hefur þar með lokið hlutverki sínu. Aldrei heyrist framar frá „greiningarfyrirtækinu“. Ekkert bólar heldur á vörunum. Í sumum tilfellum hefur burðardýrið jafnvel verið gabbað til að nota eigin greiðslukort. Svikahröppunum hefur með þessu tekist að koma illa fengnu fé í umferð. Peningaþvættið hefur tekist með hjálp burðardýrsins.
Ólöglegt og áhættan er mikil
Að lokum er rétt að minna á að þátttaka í peningaþvætti er ólögleg og áhættan er mikil. Burðardýr getur sogast inn í atburðarás sem það hefur enga stjórn á og getur leitt til verulegs persónulegs fjártjóns. Þá kann burðardýrið að sæta lögreglurannsókn og ákæru. Teljir þú að þú hafir orðið fórnarlamb fjársvika á netinu eða hafir óviljandi tekið þátt í peningaþvætti á netinu, hvetjum við þig til að leita til lögreglu þegar í stað.