Vísitala íbúðaverðs hækkar enn og kaupsamningum fjölgar
Vísitalan hækkaði um 0,9% á milli mánaða í október. Mánuðinn á undan hækkaði hún um 1,4% og um 0,7% í ágúst. Sérbýlishluti vísitölunnar hækkaði um heil 2,5% og fjölbýlishlutinn um 0,5%.
Nafnverð 2,9% hærra en á sama tíma í fyrra
Árshækkun vísitölunnar fór úr 2,6% í 2,9% í október. Hún hefur hækkað síðustu mánuði eftir að hafa náð lágmarki í 0,8% í júlí.
Dregur úr raunverðslækkunum
Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað milli ára síðustu sex mánuði. Raunverð fæst með því að taka tillit til verðbólgu, en til þess notum við vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Raunverð lækkar þannig milli ára ef árshækkun íbúðaverðs er minni en árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Mjög tók að hægja á raunverðshækkunum á seinni hluta síðasta árs, þegar aðrir liðir en húsnæði fóru að hækka í verði á sama tíma og hægði á íbúðaverðshækkunum. Nú er aftur að draga úr raunlækkuninni sem nam 4,1% milli ára í október og 4,8% í september. Lækkunin milli ára mældist mest í júlí, 5,9%.
Kaupsamningum fjölgar aftur milli ára
Í takt við hækkandi verð er undirrituðum kaupsamningum farið að fjölga á ný. Eftir að hafa fækkað milli ára samfellt frá miðju ári 2021 fjölgaði kaupsamningum um 12% milli ára í september og um 19% milli ára í október.
Hvers vegna er aukinn kraftur í eftirspurn eftir íbúðum?
Verðhækkanir á íbúðamarkaði síðustu þrjá mánuði hafa komið á óvart og ekki augljóst hvaða kraftar eru þar að verki. Síaukin þörf á húsnæði spilar að líkindum inn í og ekki er ólíklegt að hávær umræða um yfirvofandi íbúðaskort og ónóga uppbyggingu ýti undir væntingar um verðhækkanir og kyndi þar með undir eftirspurn. Væntingar um verðhækkanir kunna að hvetja fyrstu kaupendur til að koma inn á markaðinn, en fyrstu kaupendum hefur fjölgað verulega á þriðja ársfjórðungi. Þeir voru 789 á öðrum ársfjórðungi og 26% af öllum kaupendum, en 1.123 á þriðja ársfjórðungi, eða 33%.
Hluti af þessari auknu eftirspurn meðal fyrstu kaupenda kann að skýrast af aukinni lántöku hlutdeildarlána á ársfjórðungnum. Eftir að skilyrði fyrir slíkri lántöku voru útvíkkuð hefur mun stærri hópur kost á að sækja um hlutdeildarlán og fleiri íbúðir passa inn í rammann. Við höfum einnig velt því upp hvort hlutdeildarlánin kunni að hækka vísitölu íbúðaverðs. Þau er aðeins veitt til kaupa á nýjum íbúðum, sem eru almennt dýrari en eldri íbúðir af sömu stærð. Ef hlutfallslega fleiri nýjar íbúðir koma til við mælingu vísitölu íbúðaverðs en áður má ætla að vísitalan hækki. Þá má einnig vera að óbreytt stýrivaxtastig auki bjartsýni á íbúðamarkaði og auk þess kann kaupmáttaraukning á seinni hluta árs að hafa áhrif.
Spáum 8,1% verðbólgu í nóvember og 8,3% í desember
Í verðbólguspá okkar frá 16. nóvember gerðum við ráð fyrir 0,6% hækkun íbúðaverðs milli mánaða. Í ljósi þess að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,9% milli mánaða í október gerum við nú ráð fyrir að vísitala markaðsverðs húsnæðis, eins og Hagstofan reiknar hana, hækki um 1,1% á milli mánaða. Hagstofan tekur tillit til alls landsins við útreikning á vísitölu markaðsverðs húsnæðis og við gerum ráð fyrir að verð á landsbyggðinni hækki meira en á höfuðborgarsvæðinu í nóvember.
Við hækkum því verðbólguspána úr 8,0% í 8,1%. Spáin næstu mánuði þar á eftir hækkar því einnig og í desember gerum við ráð fyrir 8,3% verðbólgu í stað 8,1%. Eftir áramót gerum við enn ráð fyrir að verðbólga hjaðni nokkuð og verði 7,4% í stað 7,3% í janúar og 6,8% í stað 6,7% í febrúar.