Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Vinnumálastofnun tölur um skráð atvinnuleysi í apríl og Ferðamálastofa birtir talningu á fjölda ferðamanna um Leifsstöð í apríl.
- Á miðvikudag birtir Sýn árshlutauppgjör.
- Á fimmtudag birta Eimskip og Kvika banki árshlutauppgjör.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna maímælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana mánudaginn 30. maí.
Mynd vikunnar
Seðlabankinn brást við efnahagssamdrættinum vegna Covid-faraldursins með því að lækka vexti. Tölur um útlán lánakerfisins benda til þess að heimilin hafi nýtt sér þetta frekar en fyrirtækin, en útlán til fyrirtækja voru nokkurn veginn óbreytt 2020 og drógust saman 2021, þrátt fyrir vaxtalækkanir. Þess ber samt að geta að sum fyrirtæki hafa sótt fjármögnun beint á markað eða í gegnum sérstaka fagfjárfestasjóði sem kann að skýra samdráttinn að hluta. Ólíkt fyrirtækjalánum jukust útlán til heimilanna allt faraldurstímabilið. Þessi mikli útlánavöxtur til heimilanna var að miklu leyti í formi íbúðalána, sem skilaði sér síðan í hækkunum á fasteignaverði.
Efnahagsmál
- Peningastefnunefnd hækkaði vexti bankans um 1 prósentustig í síðustu viku og eru meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, 3,75% eftir ákvörðunina. Nefndin hefur þar með hækkað vexti um samtals 3 prósentustig síðan hún hóf vaxtahækkanir í maí í fyrra. Ákvörðunin var í samræmi við væntingar okkar.
- Samhliða vaxtákvörðuninni birti SÍ maíhefti Peningamála með nýrri þjóðhags- og verðbólguspá. Þar er gert ráð fyrir yfir 8% verðbólgu bæði á þriðja og fjórða fjórðungi ársins. Þetta er mun meiri verðbólga en bankinn spáði í febrúar en bankinn spáði þá 5,3% verðbólgu á þriðja fjórðungi og 4,7% á fjórða fjórðungi.
- Seðlabankinn birti talnaefni um raungengi, gjaldeyrismarkað, krónumarkað, efnahag Seðlabankans og lífeyrissjóði.
- Hagstofan birti tölur um losun frá hagkerfinu 2021 og vöru- og þjónustujöfnuð í janúar.
Fjármálamarkaðir
- Arion banki, Eik, Festi (fjárfestakynning), Íslandsbanki, Landsbankinn, Origo, Reginn, Sjóvá og VÍS (fjárfestakynning) birtu árshlutauppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung.
- Almenn lækkun var á hlutabréfamörkuðum í apríl.
- Icelandair birti flutningstölur fyrir apríl.
- Reykjavíkurborg hélt skuldabréfaútboð, Arion banki hélt útboð sértryggðra skuldabréfa og Lánamál ríkisins luku útboði ríkisbréfa.