Vikubyrjun 6. febrúar 2023
Vikan framundan
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Íslands, við eigum von á 0,50 prósentu hækkun. Samhliða ákvörðuninni birtir Seðlabankinn febrúarhefti Peningamála með uppfærðri þjóðhagsspá. Sama dag birta Arion banki, Festi og Marel ársuppgjör.
- Á fimmtudag birta Íslandsbanki, Reginn og Sjóvá ársuppgjör.
- Á föstudag birtir Ferðamálastofa brottfarir um Leifsstöð og Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi.
Mynd vikunnar
Það er ekki bara hér á landi sem verðbólga er há um þessar mundir heldur er hún það víða um heim og hafa seðlabankar flest allra ríkja brugðist við með vaxtahækkunum. Í síðustu viku hækkuðu seðlabankar Bandaríkjanna, Evrópu og Englandsbanki vexti og hafa stýrivextir í þessum hagkerfum ekki verið hærri síðan fyrir fjármálakreppuna hausið 2008. Eitt af því sem Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hlýtur að horfa til við næstu ákvörðun er hversu lítill vaxtamunur Íslands er nú við útlönd. Ef vaxtamunurinn dregst frekar saman, myndi það að óbreyttu þýða frekari þrýsting á krónuna, sem ynni gegn lögbundnu hlutverki nefndarinnar sem er að reyna að ná verðbólgunni aftur niður.
Helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,85% milli mánaða í janúar og jókst ársverðbólgan úr 9,6% í 9,9%. Hún er því komin aftur upp í sama gildi og var í júlí í fyrra, en það var hæsta gildið í núverandi verðbólgukúf. Verðbólgan var mun meiri en við áttum von á, sem skýrist að miklu leyti af miklum verðhækkunum á nýjum bílum. Það sem veldur mestum áhyggjum í tölunum er að þeim undirliðum fjölgar áfram sem hækka í verði umfram verðbólgumarkmið.
- Erlendis bar hæst í vikunni vaxtaákvarðanir hjá stærstu seðlabönkum heims, en Seðlabankinn Bandaríkjanna hækkaði vexti um 0,25 prósentur, Seðlabanki Evrópu um 0,5 prósentur og Englandsbanki um 0,5 prósentur. Það bárust góðar fréttir í baráttunni við verðbólgu erlendis, en verðbólga á evrusvæðinu lækkaði úr 9,2% í desember niður í 8,5% i janúar.
- Hagstofan birti fyrsta mat á fjölda gistinótta í fyrra og Ferðamálastofa birti samantekt á helstu hagvísum ferðaþjónustu í fyrra.
- Nokkur uppgjör voru í síðustu viku, en Landsbankinn, Icelandair (fjárfestakynning), og Origo birtu ársuppgjör.
- Á hlutabréfamarkaði gekk Síminn frá sölu á skuldabréfi vegna sölu Mílu, SKEL birti jákvæða afkomuviðvörun og Kvika banki óskaði eftir samrunaviðræðum við Íslandsbanka.
- Á skuldabréfamarkaði héldu Lánamál ríkisins útboð á ríkisvíxlum og ríkisbréfum og Arion banki lauk útboði á sértryggðum skuldabréfum.
- Að lokum bendum við á hlaðvarpsþátt sem við tókum upp í síðustu viku þar sem við ræddum stýrivexti, stöðuna á íbúðamarkaði og fleira.