Vikubyrjun 27. mars 2023
Vikan framundan
Á þriðjudag birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir mars. Við eigum von á að verðbólga lækki aðeins, eða úr 10,2% í 10,0%.
Mynd vikunnar
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði vexti um 1 prósentustig í síðustu viku og meginvextir bankans eru nú 7,5%. Meginvextir hafa tvisvar verið hærri, annars vegar á árunum 1999 til 2002 þegar þeir fóru hæst í 10,8% og hins vegar milli 2004 til 2010 þegar þeir fóru hæst í 18%.Núverandi vaxtahækkunarferill er hins vegar sá brattasti hingað til, þ.e.a.s. bankinn hefur aldrei hækkað vexti jafn hratt. Alls hefur hann hækkað vexti um 6,75 prósentustig á 675 dögum. Þessi vaxtahækkunarferill er því brattari en sá sem hófst í maí 2004, en þá hækkaði bankinn vexti um 5 prósentustig á jafn löngu tímabili.
Það helsta frá vikunni sem leið
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði vexti um 1 prósentustig í síðustu viku. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, eru eftir ákvörðunina 7,5%. Þetta var meiri hækkun en við bjuggumst við, en við höfðum spáð 0,75 prósentustiga hækkun.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3% milli mánaða í febrúar eftir þriggja mánaða samfellda lækkun. Þótt markaðurinn hafi kólnað virðist hann enn vera langt yfir frostmarki. Árshækkun vísitölunnar mælist nú 12,4%. Kaupsamningum fjölgaði þó nokkuð milli mánaða og þeim fækkaði minna á ársgrundvelli í febrúar en verið hefur síðustu mánuði. Vísitala leiguverðs hækkaði um 2,0% milli mánaða og mælist árshækkun hennar 9,3%.
Hagstofan birti talnaefni um afkomu hins opinbera fyrir síðasta ár. Alls var hið opinbera rekið með um 162 milljarða króna halla. Þar af var ríkissjóður rekinn með 132 milljarða króna halla, sveitarfélögin með 43 milljarða króna halla og almannatryggingar með 13 milljarða króna afgangi. Aukin skuldsetning ásamt hækkandi vöxtum vegur mjög þungt í rekstri hins opinbera, en vaxtagjöld voru 174 milljarður króna í fyrra og jukust um 50 milljarða króna milli ára.
Ferðamálastofa birti niðurstöður út könnun meðal landsmanna um ferðalög á liðnu ári og ferðaáform á árinu 2023.
Bandaríski seðlabankinn og Englandsbanki hækkuðu báðir vexti um 0,25 prósentustig, svissneski seðlabankinn hækkaði um 0,5 prósentustig.
Hagar héldu víxlaútboð, Reitir hélt skuldabréfaútboð og Lánamál ríkisins hélt útboð ríkisbréfa.