27. febrúar 2023
Vikan framundan
- Í dag birtir Hagstofan febrúarmælingu vísitölu neysluverðs.
- Á morgun birtir Hagstofan fyrsta mat á landsframleiðslu í fyrra. Eik birtir uppgjör.
- Á fimmtudag birtir Seðlabankinn tölur um greiðslujöfnuð við útlönd og erlenda stöðu þjóðarbúsins. Alvotech birtir ársuppgjör.
Mynd vikunnar
Í janúar voru 280 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði gefnir út á höfuðborgarsvæðinu og hafa þeir ekki verið færri síðan í janúar 2011. Til samanburðar voru 485 kaupsamningar undirritaðir í janúar í fyrra, en janúarmánuður er oft rólegur á íbúðamarkaði. Hafa ber í huga að tölurnar eru bráðabirgðatölur og því gæti talan átt eftir að hækka eftir því sem fleiri kaupsamningar berast í gagnagrunn HMS.
Helsta frá vikunni sem leið
- Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,5% milli mánaða í janúar. Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem vísitalan lækkar milli mánaða, en svo löng samfelld lækkun hefur ekki sést síðan við lok árs 2009. Þessi mæling og þróun síðustu mánaða benda til þess að markaðurinn sé að kólna umtalsvert. Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu um íbúðamarkaðinn.
- Seðlabankinn birti í síðustu viku fundargerð peningastefnunefndar vegna stýrivaxtaákvörðunarinnar 8. febrúar. Nefndin ræddi hækkanir á bilinu 0,5 til 1,0 prósentustig, en við gerðum ráð fyrir að nefndin myndi ræða hækkun um 0,25 til 0,75 prósentustig. Allir nefndarmenn greiddu atkvæði með 0,5%. Einn nefndarmaður, Herdís Steingrímsdóttir, lét bóka að hún hefði frekar kosið að hækka um 0,75 prósentustig. Herdís kom inn í nefndina fyrir tæpu ári og þetta er í fyrsta sinn sem hún skilar séráliti.
- Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli desember 2022 og janúar 2023 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,6%.
- Velta samkvæmt VSK-skýrslum jókst milli ára í öllum helstu atvinnugreinum í fyrra. Það þarf ekki að koma á óvart að mesta aukningin var í greinum tengdum ferðaþjónustu. Alls jókst velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu um 85% milli ára.
- Samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands mældist 54 ma. kr. halli af vöru- og þjónustuviðskiptum í fyrra sem er mesti halli sem mælst hefur síðan árið 2007. Það var veglegur afgangur af þjónustujöfnuði, aðallega drifinn áfram af ferðaþjónustu, en sá afgangur dugði ekki til þess að vinna upp hallann af vöruskiptajöfnuðinum.
- Uppgjörstímabil stendur nú yfir, en Brim, Iceland Seafood og VÍS (fjárfestakynning) birtu ársuppgjör. Auk þess birtu Landsvirkjun og Alma íbúðafélag uppgjör.
- Tvö útboð voru í síðustu viku. Íslandsbanki hélt útboð á grænum skuldabréfum og Útgerðarfélag Reykjavíkur hélt útboð á víxlum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Þú gætir einnig haft áhuga á
22. okt. 2024
Hafrannsóknarstofnun leggur til að ekki verði gefinn út loðnukvóti fyrir veiðitímabilið 2024/2025. Ráðgjöfin verður uppfærð í janúar, þegar nýjar mælingar fara fram og því er ekki útséð um loðnuveiðar á næsta ári. Fyndist loðna í nægilegu magni hefði það töluverð áhrif á hagvöxt á næsta ári. Loðna hefur verið veidd hér á landi frá árinu 1962 og aðeins þrisvar orðið algjör loðnubrestur, árin 2019, 2020 og nú síðast í ár.
21. okt. 2024
Í síðustu viku birtum við hagspá til ársins 2027. Vísitala íbúðaverðs og vísitala leiguverðs lækkuðu á milli mánaða í september og greiðslukortavelta heimilanna dróst saman á milli ára innanlands en jókst erlendis. Seðlabankinn birti fundargerð peningastefnunefndar og voru allir nefndarmenn sammála um að lækka vexti. Nokkur fyrirtæki birta uppgjör í þessari viku.
15. okt. 2024
Hagspá Landsbankans til ársins 2027 var kynnt á morgunfundi í Silfurbergi Hörpu þriðjudaginn 15. október 2024 en auk þess var fjallað um stöðu og horfur á alþjóðlegum mörkuðum og í áhugaverðum pallborðsumræðum ræddu forstjórar fjögurra útflutningsfyrirtækja um tækifæri og áskoranir í útflutningi.
15. okt. 2024
Greiningardeild Landsbankans spáir því að hagkerfið standi nánast í stað á milli ára í ár og að landsframleiðsla dragist saman um 0,1%. Bakslag í útflutningsgreinum setti svip sinn á fyrri hluta árs, loðnubrestur og hægari vöxtur ferðaþjónustu ollu samdrætti á sama tíma og háir vextir hafa kælt eftirspurnina sem engu að síður mælist nokkuð kröftug.
14. okt. 2024
Í fyrramálið kynnum við nýja hagspá til ársins 2027 á morgunfundi í Hörpu. HMS birtir í vikunni vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu um húsnæðismarkaðinn. Á miðvikudag birtist svo fundargerð peningastefnunefndar. Í síðustu viku bar hæst að erlendum ferðamönnum fjölgaði aðeins á milli ára í september á sama tíma og atvinnuleysi jókst lítillega.
10. okt. 2024
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,27% á milli mánaða í október og að verðbólga lækki úr 5,4% niður í 5,1%. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 4,2% í janúar á næsta ári.
7. okt. 2024
Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði vexti í síðustu viku, í fyrsta sinn í fjögur ár. Stýrivextir eru nú 9% eftir að hafa staðið í 9,25% í meira en ár. Verðbólga á evrusvæðinu er enn á niðurleið og mældist 1,8% í september, undir 2% verðbólgumarkmiði. Verðbólgutölur í Bandaríkjunum verða birtar í þessari viku.
1. okt. 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
30. sept. 2024
Verðbólga í september var nokkuð undir væntingum og lækkaði úr 6,0% niður í 5,4%. Þrátt fyrir það teljum við að peningastefnunefnd vilji sýna varkárni þegar hún hittist í byrjun vikunnar og haldi vöxtum óbreyttum á miðvikudaginn.
27. sept. 2024
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,24% á milli mánaða í september, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 6,0% í 5,4%, eða um 0,6 prósentustig. Verðbólga hefur ekki mælst lægri síðan í desember 2021.