Vikan framundan
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabankanum og við spáum 1,0 prósentustiga hækkun. Samhliða ákvörðuninni birtir Seðlabankinn Peningamál með nýrri þjóðhags- og verðbólguspá. Hagstofan birtir einnig vöru- og þjónustujöfnuð fyrir 1. ársfjórðung.
- Á fimmtudag birtir Síldarvinnslan árshlutauppgjör.
- Á föstudag birtir Hagstofan verðbólgumælingu maímánaðar. Við eigum von á að verðbólgan lækki úr 9,9% í 9,6%..
Mynd vikunnar
Í upphaf árs 2015 fór um 10% af kortaveltu íslenskra heimila fram erlendis, annað hvort vegna ferðalaga erlendis eða í gegnum erlendar netverslanir. Þetta hlutfall var komið upp í kringum 15% áður en að heimsfaraldurinn skall á og fór það lægst í 7% á meðan engar utanlandsferðir voru í boði. Síðan hefur hlutfallið hækkað og er núna í kringum 20%. Þetta er merki þess að neysla íslenskra heimila fari í auknum mæli fram erlendis hvort sem er vegna aukinna ferðalaga eða aukinnar netverslunar, en aukning í kortaveltu íslenskra heimila síðan heimsfaraldrinum lauk hefur verið drifinn áfram af kaupum á vöru og þjónustu frá erlendum söluaðilum.
Helsta frá vikunni sem leið
- Heildarkortavelta íslenskra heimila dróst saman um 5% milli ára í apríl. Þetta er í fyrsta sinn í rúm tvö ár sem heildarkortaveltan dregst saman milli ára að raunvirði. Kortavelta Íslendinga innanlands var 7,2% minni en í apríl í fyrra en erlendis jókst hún um 5% miðað við fast verðlag og gengi. Samdráttur í kortaveltu kann að vera merki um að tekið sé að hægja á einkaneyslu, en þó ber að varast að lesa of mikið í einstaka mánuði.
- Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% milli mánaða í apríl og er þetta þriðji mánuðurinn í röð sem vísitalan hækkar milli mánaða. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs mælist nú 8,6% og lækkar milli mánaða þrátt fyrir þessa hækkun.
- Seðlabankinn birti niðurstöður úr könnun á væntingum markaðsaðila sem fór fram í byrjun maí. Verðbólguvæntingar versnuðu nokkuð frá síðustu könnun sem fór fram í janúar, en í stað 5,5% verðbólgu í loks árs gera markaðsaðilar nú ráð fyrir 7,5% verðbólgu (miðgildi svara varðandi meðalverðbólgu á 4. ársfjórðungs 2023). Miðað við miðgildi svara eiga markaðsaðilar almennt von á 1 prósentustigs hækkun á stýrivöxtum núna í vikunni, en 66% svarenda töldu að taumhald peningastefnu væri of laust.
- Reitir, Eimskip, Brim, Eik, Iceland Seafood og Alvotech birtu uppgjör.
- Af skuldabréfamarkaði er að frétta að OR hélt útboð á grænum skuldabréfum, Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum bréfum, Gróska hélt útboð á grænum skuldabréfum, Arion banki gaf út skuldabréf í evrum, Íslandsbanki birti niðurstöður endurkaupatilboðs á skuldabréfum bankans í evrum og Lánamál ríkisins tilkynntu um endurkaupatilboð á skuldabréfum ríkissjóðs í evrum.