Vikan framundan
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Íslands (SÍ). Við eigum von á 1 prósentustigs hækkun. Samhliða vaxtákvörðuninni birtir SÍ maíhefti Peningamála með nýrri þjóðhags- og verðbólguspá. Arion banki, Festi og Reginn birta árshlutauppgjör.
- Á fimmtudag birta Eik, Íslandsbanki, Landsbankinn, Origo, Sjóvá og VÍS árshlutauppgjör.
- Á föstudag birtir SÍ útreikning á raungengi í apríl og Icelandair birtir flutningstölur fyrir apríl.
Mynd vikunnar
Til að átta sig á aðhaldi peningastefnu er betra að skoða raunstýrivexti en nafnstýrivexti. Það eru til nokkrar aðferðir til þess að áætla raunstýrivexti og er í raun engin ein aðferð rétt. Meðal þeirra aðferða sem hægt er að nota er að bera stýrivexti saman við liðna verðbólgu, niðurstöður úr könnunum á væntingum heimila, fyrirtækja og markaðsaðila, eða verðbólguálag á skuldabréfamarkaði. Þessar fimm aðferðir gefa allar til kynna að raunstýrivextir eru núna neikvæðir og af stærðargráðunni 5 prósentustigum lægri en áður en heimsfaraldurinn skall á.
Efnahagsmál
- Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 1,25% milli mánaða í apríl og mælist verðbólgan nú 7,2% samanborið við 6,7% í mars. Verðbólgan hefur ekki mælst hærri síðan í maí 2010, þegar hún var 7,5%. Hækkunin milli mánaða var meiri en við áttum von á og munar þar langmest um að flugfargjöld til útlanda og húsnæðisverð hækkuðu langt umfram væntingar okkar.
- SÍ birti í síðustu viku niðurstöðu úr könnun á væntingum markaðsaðila. Í stað þess að gera ráð fyrir að verðbólgan toppi í 5,0% á fyrsta ársfjórðungi eins og í könnuninni í janúar gera markaðsaðilar nú ráð fyrir 7,0% verðbólgu bæði á öðrum og þriðja ársfjórðungi. Út frá miðgildi svara gera markaðsaðilar ráð fyrir að meginvextir SÍ hækka um 1 prósentustig á öðrum ársfjórðungi, en tveir vaxtaákvörðunarfundir eru fyrirhugaðir á fjórðungum (maí og júní).
- Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli febrúar og mars. Árshækkun vísitölunnar er um 7,1%. Síðustu tvær áfangahækkanir kjarasamninga komu til framkvæmda 1. janúar 2021 og 2022 og hækkaði launavísitalan um 3,7% milli mánaða í bæði skiptin. Óvenju mikið bil myndaðist á milli launaþróunar á opinbera og almenna markaðnum í upphafi síðasta árs og virðist það ekki fara minnkandi.
- SÍ birti í síðustu viku talnaefni um bankakerfið, lánasjóði ríkisins, verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði, verðbréfafjárfestingu og stöðu markaðsverðbréfa.
- Hagstofan birti veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum janúar og febrúar, gjaldþrot fyrirtækja á fyrsta ársfjórðungi, vísitölu byggingarkostnaðar í apríl, regluleg mánaðarlaun 2021, vinnumarkaðurinn í mars og gistinætur í mars.
- Aðalfundur Landsvirkjunar staðfesti 15 ma.kr. arðgreiðslu.
Fjármálamarkaðir
- Icelandair (fjárfestakynning), Marel (fjárfestakynning), Skeljungur og Síminn birtu árshlutauppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung. Hagar (fjárfestakynning) birtu ársuppgjör fyrir rekstrarárið 2021/22.
- Marel tilkynnti um kaup á Wenger (fjárfestakynning).
- Arion banki tilkynnti að samningur þess við Rapyd um kaup á Valitor hefði verið framlengdur og að bankinn fengi viðbótargreiðslu vegna þess.
- SÍ samþykkti skilaáætlun Arion banka og Íslandsbanka.
- Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla og skiptiútboði ríkisbréfa.