Vikan framundan
- Á þriðjudaginn birtir HMS vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu.
- Á miðvikudag er stýrivaxtaákvörðun hjá bandaríska seðlabankanum.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan niðurstöður úr mánaðarlegri vinnumarkaðsrannsókn sinni. Þennan dag er einnig stýrivaxtaákvörðun hjá Englandsbanka.
- Á föstudaginn birtir Hagstofan launavísitöluna.
Mynd vikunnar
Á fyrstu sex mánuðum ársins var 84 milljarða króna halli af viðskiptum við útlönd. Þrátt fyrir þennan mikla halla hefur krónan styrkst innan árs. Skýrist þetta meðal annars af því að öllum viðskiptum fylgir ekki endilega gjaldeyrisflæði. Sérstaklega má nefna að hagnaður innlendra dótturfélaga í eigu erlendra aðila, sem kemur til lækkuná viðskiptajöfnuðu, en er að mestu leyti bókfært tap eða útreikningar þar á. Hallinn á inn- og útflutningi (án skipa og flugvéla), sem er betri mælikvarði á raunverulegt gjaldeyrisflæði, var mun lægri, eða 16 milljarðar króna.
Helsta frá vikunni sem leið
- Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna vísitölu neysluverðs og við birtum verðbólguspá. Við spáum 0,34% hækkun milli mánaða og að ársverðbólgan lækki úr 9,7% í 9,6%. Við teljum að verðbólgan hafi náð hámarki í júlí og að framundan sé hæg hjöðnun hennar næstu mánuði.
- Hagdeild HMS birti mánaðarskýrslu þar sem fram kemur að merki kólnunar sáust á fasteignamarkaði í júní og í júlí. Samkvæmt HMS er hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði að lækka, íbúðum á sölu er að fjölga og kaupsamningum að fækka. Allt eru þetta vísbendingar um að markaðurinn sé tekinn að róast.
- Fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2023.
- Í síðustu viku komu verðbólgutölur bæði frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Tölurnar í Bandaríkjunum voru nokkuð hærri en greinendur áttu von á. Vísitalan hækkaði um 0,1% milli mánaða, en flestir áttu von á að hún myndi lækka milli mánaða. Í kjölfarið lækkuðu markaðir vestanhafs verulega. Verðbólgutölurnar í Bretlandi voru á hinn bóginn lægri en búist var við.
- Síðasta vikan á skuldabréfamarkaði var nokkuð erilsöm: Íslandsbanki seldi sértryggð bréf í evrum, Arion banki gaf út skuldabréf í evrum, Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum, Reitir stækkaði skuldabréfaflokk og Lánasjóður sveitarfélaga lauk skuldabréfaútboði.